05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1583 í B-deild Alþingistíðinda. (1607)

281. mál, almannatryggingar

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Heilbr.- og félmn. gat ekki orðið sammála um afgreiðslu þessa máls. Meiri hl. leggur til, að frv. verði samþ. með einni breyt., sem hér hefur verið lýst, og teljum við, er minni hl. skipum, að þessi till. sé til bóta, og munum standa með samþykkt hennar. Hins vegar teljum við, að miklu meiri breyt. þyrftu að verða á þessu frv., svo að hv. Alþ. geti verið þekkt fyrir að lögfesta það. Því höfum við leyft okkur að leggja fram hér á sérstöku þskj. 791 16 brtt., en þeir, sem minni hl. skipa með mér, eru hv. 4. landsk. þm., Jónas Árnason og hv. 5. þm. Norðurl. v., Jón Kjartansson. Veigamestu breyt., er við leggjum til, eru, að ýmsar greiðslur verði hækkaðar miðað við það, sem frv. gerir ráð fyrir, svo að þær verði sem næst því að vera í einhverju samræmi við þær breyt., sem orðið hafa að undanförnu á hækkun ýmissra neyzluvara og einnig á hækkun á almennu kaupgjaldi í landinu.

Það er sorgleg staðreynd, sem hv. Alþ. verður að horfast í augu við og getur ekki kinnroðalaust vikið sér undan að leiðrétta án tafar, að greiðslur almannatrygginga og þá ekki sízt greiðslur til aldraðra og öryrkja eru ekki orðnar í neinu samræmi við tekjur flestra þjóðfélagsþegna í dag og langt fyrir neðan þau mörk, að það nægi til sómasamlegs lífsframfæris. Við samanburð kaupmáttar þessarar greiðslu nú og fyrir 12 árum kemur í ljós, að hann hefur minnkað og það ekkert smáræði þrátt fyrir allt masið um velferðarþjóðfélag og þá frábæru stjórn, sem Alþfl. telur sig hafa haft á þessum málum að undanförnu. Hvað kaupmáttur lífeyristrygginganna er í dag miðað við það, sem áður var, er gleggsti mælikvarðinn í þessu efni, en ekki framfærsluvísitalan, eins og hún er nú. Hún er upp byggð á þann veg, að gert er ráð fyrir mörgum sinnum meiri ráðstöfunartekjum en kaupgjald er nú, hvað þá greiðslur þessara elli- og lífeyrisþega, t.d. matvörurnar skipta í henni miklu minna máli en í þeirri vísitölu, sem áður gilti. Á hverju lifir það fólk, sem hefur sér til lífsframfæris 4900 kr. á mánuði? Hafa þessir hv. þm. hugleitt það og skoðað það, hvernig þessar greiðslur geta dugað þessu fólki og hvort hægt sé að fá eins mikið magn af þeim matvörum, sem það neytir og t.d. fyrir 12 árum? Hefur hæstv. félmrh. athugað þetta? Hann kannske hefur ekki lagt sig það lágt að gera það. Og þá er fyrst og fremst að gera sér grein fyrir, hvaða fæðutegundir það muni vera, sem þetta fólk aðallega neytir. Hvað heldur hæstv. ráðh.? (Gripið fram í: Heldurðu, að ég hafi athugað það?) Ætli það sé ekki fyrst og fremst verð á fiski, sem skiptir mestu máli í þessu sambandi. Árið 1960 dugði ellilífeyririnn fyrir 327 kg af nýjum fiski, en á s.l. hausti dugði hann fyrir um eða undir 140 kg, og þessi hlutföll hafa ekki skánað síðan. Svipað er að segja um kaffi og kornvörur, en það er fyrst og fremst slíkar vörur, sem þetta fólk neytir.

Sannleikurinn er sá, að samtímis því, sem þjóðfélagstekjurnar hafa vaxið, hefur kaupmáttur tryggingagreiðslnanna lækkað miðað við neyzluvörur. Samkvæmt fréttabréfi frá kjararannsóknarnefnd er vísitala tímakaups 381 stig miðað við 100 stig 1962, þegar endurskoðun á l. fór fram. Ellilaunin voru þá 1523 kr. á mánuði og ættu því að vera nú, ef sama hlutfall hefði átt að haldast þarna á milli, 5800 kr., en eru 4900 kr. Það er því sama, hvernig reiknað er; útkoman er sú sama. Tryggingagreiðslurnar hafa hlutfallslega lækkað miðað við kaup og þó enn meira miðað við þær neyzluvörur, sem skipta mestu máli í þessu sambandi fyrir fólkið, sem hefur lítið annað til að lifa á en elli- og örorkugreiðslurnar. Á Alþ. 8. nóv. 1962 sagði þáv. félmrh. með leyfi forseta: „Það hefur verið regla að undanförnu, að bótagreiðslur almannatrygginganna hafa fylgt launum opinberra starfsmanna að þessu leyti, og þó misjafnlega. Stundum hefur þetta verið miðað við elli- og örorkulífeyrinn einan, en stundum hefur þetta verið miðað við allar bótagreiðslur úr tryggingunum.“ Þetta var reglan, að þegar laun opinberra starfsmanna hækkuðu, þá hækkuðu bótagreiðslurnar sjálfkrafa. Þessi sjálfsagða regla er ekki lengur í gildi. Þessi sjálfkrafa hækkun er ekki látin koma fram á greiðslur trygginganna nú, þegar opinberir starfsmenn fá meiri hækkanir en áður eru dæmi til um. Þá eru þessi tengsl rofin og það undir stjórn Alþfl. - þess flokks, sem einu sinni taldi það sitt aðalsmerki að berjast fyrir tekjujöfnuði í þessu landi. Nú gerist það undir hans stjórn, að tekjumismunurinn hefur vaxið og er nú meiri en hann hefur nokkurn tíma verið. Nú gerist það undir hans stjórn, að þrátt fyrir það, að opinberir starfsmenn hafa fengið meiri launahækkanir en dæmi eru til um, hækka greiðslur trygginganna um 8.2% um síðustu áramót, og samkv. því frv., sem hér liggur nú frammi og er til afgreiðslu, þá eiga þessar greiðslur ekkert að hækka meira á þessu ári.

Það hefur komið fram, að hæstv. ríkisstj. hafi talið það hæfilegan launamun hjá opinberum starfsmönnum, að topparnir hefðu fjórum sinnum meira en þeir lægstlaunuðu, og nú hefur komið fram, að þessi munur er meiri. Það væri mjög ánægjulegt, ef þjóðarframleiðslan væri fær um það að borga svo mikið kaup sem opinberum starfsmönnum er ætlað nú. En þá verða þessir herrar að vita, sem um þessi launakjör hafa samið, að slík laun standast ekki, nema framleiðslustéttirnar fái hliðstæða hækkun. Sé það ekki hægt, er þjóðfélagið í mikilli hættu. Það þarf enginn að halda, að framleiðslustéttirnar sætti sig við þau kjör, sem þær búa við, eftir þá samninga, sem gerðir voru við opinbera starfsmenn og eftir það, að í ljós hefur komið, að það eru ekki fjórföld laun, sem topparnir hafa, heldur miklu meira. Sé hægt að borga svo há laun, þá hlýtur framleiðslan að geta borgað þeim, sem við hana vinna, meira en gert er í dag, þar sem það er hún, sem stendur undir þjóðfélaginu í heild.

Það er ekki fagurt um að litast í þjóðfélaginu eftir 12 ára stjórnarsamstarf Sjálfstfl. og Alþfl. í þessum málum frekar en í mörgum öðrum. Tekjumunurinn hefur aldrei verið meiri, og afleiðing þess hlýtur að verða ný átök á launamarkaðinum og ef til vill verkföll. Kaupmáttur lífeyristrygginganna hefur farið minnkandi þrátt fyrir það, að viðskiptakjör eru betri en áður hefur þekkzt og sjávarafli hefur verið meiri. Þrátt fyrir þessar staðreyndir leggur hæstv. ríkisstj. fram frv. um, að hækkun á greiðslum trygginganna eigi ekki að koma til framkvæmda fyrr en um næstu áramót, jafnvel þó að allir hafi þá fengið miklar hækkanir í krónutölu a.m.k. Um raungildi þeirra launa veit enginn a.m.k. ekki fyrr en kosningavíxillinn er fallinn. Og fyrir þessum vinnubrögðum stendur Alþfl. ekkert síður en Sjálfstfl. Er svo nokkur furða, þótt ýmsum þyki nokkuð með nýstárlegum hætti bardagaaðferðir Alþfl. til að ná því marki að jafna tekjuskiptinguna í þjóðfélaginu? Það fer ekki á milli mála, að hann vinnur að tekjujöfnuði með því að auka tekjumuninn í þjóðfélaginu. Það er ekki mikil reisn yfir þessum herrum, sem flytja frv. um, að ekki fáist breyt. á gildistökunni sérstaklega, þó að það ætti að vera augljóst, að það liggja til þess aðrar ástæður en umhyggjan fyrir öldruðum og öryrkjum að lögfesta það nú, enda geti svo farið, að allar tölur yrðu orðnar úreltar, áður en l. taka gildi, en það verður ekki fyrr en um næstu áramót. Rökin, sem beitt er fyrir því, að ekki sé hægt að láta þessi l. taka gildi á þessu ári, eru þau, að í fjárl. yfirstandandi árs hafi ekki verið gert ráð fyrir slíkum hækkunum.

Þegar fram kom till. þess efnis að hækka greiðslur til almannatrygginga, er fjárl. voru afgreidd fyrir áramótin, þá var sagt, að það væri þýðingarlaust,l. um almannatryggingar væru í endurskoðun og ekkert þá vitað um fjárþörf til þeirra mála og það yrði að leysa það á einhvern hátt, þegar það lægi fyrir. Í aprílmánuði 1970, að mig minnir, hækkuðu greiðslur trygginganna um 5.6%. Þá komum við framsóknarmenn fram með till. um það, að þessar greiðslur hækkuðu upp í 15%. Þá töldu hæstv. stjórnarflokkar, að slík hækkun væri óhugsandi og óframkvæmanleg, þar sem ekki hefur verið gert ráð fyrir svo mikilli hækkun við afgreiðslu fjárlaga, en skömmu eftir að hv. Alþ. var hætt störfum þá um vorið, gaf hæstv. ríkisstj. út brbl. um að hækka þessar greiðslur um 20%. Rökin, sem höfðu verið notuð gegn okkar till. og nú eru aftur notuð gegn öllum hækkunum, voru ekki haldbetri en þetta. Það er staðreynd, að greiðslurnar voru hækkaðar um mitt ár, síðast um 20%, þó að fjárl. gerðu ekki ráð fyrir því á síðasta ári, og við teljum, að eins og kaupmáttur tryggingagreiðslnanna er nú og þegar litið er á þær miklu launahækkanir, sem orðið hafa t.d. hjá opinberum starfsmönnum, þá geti Alþ. ekki verið þekkt fyrir að láta þessar greiðslur til þeirra, sem óumdeilanlega eru verst settir í þjóðfélaginu, láta þær vera óbreyttar út allt þetta ár. Hvers konar jöfnuður er það, sem hæstv. félmrh. og hans flokksbræður eru farnir að berjast fyrir? Þegar ég var að læra rafmagnsfræði, þegar ég var ungur, þá var mér alltaf minnisstætt síðan, að kennarinn minn sagði oft, að annaðhvort væri þetta svona eða öfugt. Ég sé ekki betur en það megi segja eins um Alþfl. og það með eins miklum rétti, að annaðhvort berjist hann fyrir tekjujöfnuði eða öfugt. Mér sýnist þá, að það síðara sé nær lagi, enda er orðið flest öfugt í þeim flokki, og hæstv. menntmrh. mátti helzt skilja svo í sjónvarpsviðtali, þ.e. að Alþfl.-menn væru komnir öfugu megin við íhaldið miðað við það, sem þeir hefðu áður verið, eða hægra megin.

Ég var að vona, að við þessa endurskoðun á l. yrðu felld út úr þeim orðin styrkur og bætur. Í augum ýmissa er þetta e.t.v. smávægilegt atriði, hvort þessar greiðslur eru kallaðar styrkur, bætur eða t.d. laun. Þó er þar mikill munur á og allt annar blær á. Er ekki í vitund margra enn, að styrkur sé ölmusugreiðsla? Er það meining löggjafans, að það sé litið á þær þannig? 11. kaflinn í l. heitir lífeyristryggingar. Allir þegnar þjóðfélagsins greiða iðgjöld vegna þessara trygginga frá því, að þeir eru 16 ára eða 17, eins og frv. gerir nú ráð fyrir, og til 67 ára aldurs. Þeir leggja þannig til hliðar hluta af launum sínum og geyma hann til elliáranna eða eiga hann til vara, ef sjúkdómar eða slys henda. Þó að ríkissjóður, sveitarfélög og atvinnurekendur inni einnig al hendi greiðslur í þessa sameiginlegu tryggingasjóði framtíðarinnar, þá breytir það engu um það, að allar þessar greiðslur eru hluti af vinnulaunum hvers og eins. Það er því mjög hæpið, að það sé réttmætt að kalla greiðslur frá almannatryggingum þessum nöfnum og raunar ástæðulaust með öllu að gera það. Er nokkuð, sem hindrar, að fjölskyldubætur, makabætur, mæðralaun og jafnvel ekkjubætur og ekkjulífeyrir beri sama heitið? Greiðslurnar yrðu breytilegar eftir aðstæðum. Einstætt foreldri fengi ákveðna greiðslu umfram það, sem hjón fá fyrir hvert barn, og það væri vandalaust að útbúa greiðslulista, þar sem hvert frávik er útfært. Fá störf eru nú eins vanmetin og heimilisstörfin, og ýmis löggjafaratriði geta hafa haft áhrif á það. Séu menn sammála um, að hugarfarsbreyting sé æskileg í þessu efni, þá ættu þeir hinir sömu að gera ráðstafanir, til að það megi verða. Fjölskyldubætur og mæðralaun eru í sjálfu sér greiðslur fyrir að vinna heimilisstörf. Hvers vegna eru þessar greiðslur ekki bundnar við nafn þess, er innir þau af hendi? Er ekki rökrétt að láta þessar greiðslur ganga undir nafninu: Húshaldslaun eða húsmæðralaun eða eitthvað þess háttar og einnig aðrar þær greiðslur, sem áður voru nefndar hér að framan, ef ekkert sérstakt mælir gegn því? Ef börnin eru fleiri en tvö væri eðlilegast, að þessar greiðslur færu hlutfallslega hækkandi, því að líklegt er, að annað foreldrið sé þá bundið við heimilið og geti því ekki unnið önnur störf. Séu þessar greiðslur bundnar við nafn þess, sem vinnur heimilisstörfin, og undirstriki löggjafinn, að þessar greiðslur séu laun fyrir þá vinnu, væri þá ekki einhver von til þess, að tilfinning þjóðarinnar fyrir þessum störfum yrði með tíð og tíma önnur en hún er í dag og þessi störf yrðu frekar metin eins og vert er? Mæðralaunin eru allt of lág og einstæðir feður eiga að fá sömu greiðslur, því að ekki eru þeir betur settir, er þeir standa uppi með móðurlaus börn. Það er fráleit og úrelt hugsun að telja, að það sé minni fjárhagsleg röskun á högum heimilisins, þegar húsfreyjan fellur frá en húsbóndinn. En það leynir sér ekki, að í þessu frv. hefur hæstv. ríkisstj. þó þá skoðun enn. Eða hvernig vill hún skýra það, að frv. gerir ekki ráð fyrir sams konar greiðslum til einstæðra feðra og einstæðra mæðra? Meginbreyt. þessa frv., eins og það liggur fyrir, eru, að greiðslur til aldraðra og öryrkja eiga að hækka um 20% eða tæpar 1000 kr. á mánuði, barnalífeyririnn um 40% og fæðingarstyrkur um 13.3% og tekin er upp lágmarkstekjutrygging, sem miðuð er við 84 þús. kr. tekjur.

Þá kem ég að þeim brtt., sem minni hl. í heilbr.- og félmn. hefur leyft sér að leggja fram. Fyrsta brtt. er við 11. gr. og hljóðar a-liðurinn þannig, að við 1. málsgr. bætist: „Þó skulu þeir, sem gert hafa sjómennsku að ævistarfi og stundað sjómennsku í 35 ár eða lengur, öðlast fullan rétt til ellilífeyris, er þeir hafa náð sextugsaldri. Nú hefur maður stundað sjómennsku sem aðalstarf í 40 ár, og á hann þá rétt á tvöföldum ellilífeyri, er hann hefur náð sextugu. Fullan ellilífeyri ber einnig að greiða ekkjum, er þær verða 60 ára.“ 2. málsgr. 11. gr. orðist svo samkv. b-lið brtt.: Fullur árlegur ellilífeyrir einstaklings skal vera sem hér segir: Ef lífeyrir er fyrst tekinn frá 72 ára aldri eða síðar 129 676.00 kr., en í frv. 117 880.00 kr. Ef lífeyrir er fyrst tekinn frá 71 árs aldri eða síðar 116 311.00 kr. Ef lífeyrir er fyrst tekinn frá 70 ára aldri eða síðar 103 646.00 kr. Ef lífeyrir er fyrst tekinn frá 69 ára aldri eða síðar 93 957.00 kr. Ef lífeyrir er fyrst tekinn frá 68 ára aldri eða síðar 84 216.00 kr. Ef lífeyrir er fyrst tekinn frá 67 ára aldri eða síðar 78 120.00 kr. en í frv., eins og það er, 70 560.00 kr. C-liður hljóðar svo: „Við greinina bætist ný málsgr., svo hljóðandi: Nú nýtur kvæntur eða giftur lífeyrisþegi, sem orðinn er 70 ára, aðeins lífeyris eftir þessum l. og hefur óverulegar vinnutekjur eða engar, og skal hann þá taka lífeyri, sem svarar til fulls hjónalífeyris, þótt maki hafi ekki náð 67 ára aldri, enda hafi maki ekki vinnutekjur sem neinu nemur.“ Eins og hv. þdm. vita, eru þess mörg dæmi, að konan er nokkuð mörgum árum yngri en maðurinn, og í þeim tilfellum hafa þau einfaldan lífeyri, eins og l. eru nú, þó að þau hafi engar aðrar tekjur. 2. brtt. „Við 12. gr. Í stað „kr. 70 560.00“ í síðustu málsgr. komi: kr. 78 120.00.“ 3. brtt. er við 14. gr. „Í stað orðanna „Barnalífeyrir greiðist móður eða foreldrum barnanna“ í 4. málsgr. komi: Barnalífeyrir greiðist foreldri eða foreldrum barnanna.“ 4. brtt. „Við 15. gr. Greinin orðist svo: Einstætt foreldri, sem hefur eitt eða fleiri barna sinna á framfæri og lögheimili á hér á landi, skal hljóta árlega greiðslu fyrir hvert barn, kr. 22 400.00. Ákvæði þetta skal ná til fósturmæðra eða fósturfeðra.“ Í frv., eins og það liggur fyrir, eru ekki ætlaðar neinar greiðslur til einstæðra feðra eins og til einstæðra mæðra. Í frv. er lagt til, að greitt verði með fyrsta barni 6192 kr., með tveimur börnum 33 600 kr. og með þremur börnum og fleiri 67 200 kr., en við leggjum til, að þessar greiðslur verði jafnar á hvert barn og bæði einstæðir feður og mæður fái sömu greiðslur.

6. brtt. okkar er við 19. gr. „a. Í stað „kr. 84 000.00“ í 2. málsgr. komi: kr. 125.000.00. b. Við 2. málsgr. bætist: Nú nýtur elli- eða örorkulífeyrisþegi bóta samkv. I. um eftirlaun til aldraðra í stéttarfélögum, og skulu þau laun hans þá ekki skerða rétt hans til framangreindrar hækkunar. c. Í stað „3/5“ í 3. málsgr. komi: 4/5 — og í stað „2/5“ komi: 1 /5. d. Aftan við greinina bætist ný málsgr. svo hljóðandi: Viðbótarlífeyri, sem nemi fullum einstaklingslífeyri, er heimilt að greiða hjónum, sem orðin eru 70 ára að aldri, en hafa óverulegar tekjur eða engar og eru ekki félagar í lífeyrissjóði.“

Hv. heilbr.- og félmn. hefur borizt umsögn um þetta frv. frá Sambandi ísl. sveitarfélaga, og ég vil leyfa mér að lesa hér upp kafla úr því, með leyfi forseta: „Lagt hefur verið fram á Alþingi frumvarp til nýrra heildarlaga um almannatryggingar. Er frv. samið af nefnd, sem ráðherra skipaði s.l. vor. Ekki var Sambandi íslenzkra sveitarfélaga gefinn kostur á að eiga aðild að endurskoðun laganna eða að tilnefna fulltrúa í endurskoðunarnefndina, en sambandið hefur árum saman óskað eftir því, að höfð yrðu samráð við samtök sveitarfélaganna, þegar undirbúnar væru breytingar á almannatryggingalöggjöfinni, svo mjög sem hún snertir öll sveitarfélög landsins, þar sem þau eru stór kostnaðarþátttakandi í lífeyris- og sjúkratryggingunum. Einnig hefur sambandið lengi haft uppi þá kröfu, að sveitarfélögin ættu fulltrúa í tryggingaráði, en skv. 5. gr. frv. er gert ráð fyrir óbreyttri skipan ráðsins, frá því sem nú er.

Stjórn Sambands íslenzkra sveitarfélaga vill vekja sérstaka athygli hins háa Alþingis á því, að samþykkt frumvarpsins mundi — vegna ákvæða þess um hækkun bótafjárhæða — hafa í för með sér nær því 100 millj. kr. aukin útgjöld á ári fyrir sveitarfélögin til Tryggingastofnunar ríkisins auk hækkaðra framlaga til sjúkrasamlaganna, en ekki er vitað, hve sú útgjaldaaukning verður mikil eða hvernig hún muni koma við einstök sveitarfélög.

Fjárhagur margra sveitarfélaga einkum í dreifbýli er nú mjög bágborinn. Hafa mörg þeirra þurft að innheimta útsvör með fullu, 20%, álagi og þar að auki orðið að fá aukaframlög úr Jöfnunarsjóði sveitarfélaga til að ná endum saman vegna greiðslu lögboðinna útgjalda og annars tilkostnaðar. Í því sambandi er rétt að vekja athygli á því, að á þessu ári eru tekjustofnar sveitarfélaga að verulegu leyti bundnir vegna verðstöðvunarlaganna, og þótt þau falli úr gildi á þessu ári, er þannig ástatt hjá mörgum sveitarfélögum í dreifbýli, að afkoma gjaldenda hefur versnað, þannig að lítið er til að leggja á, en útgjöld hafa samtímis farið vaxandi.

Af framangreindum ástæðum er það eindregin ósk Sambands íslenzkra sveitarfélaga, að greiðsluhlutföllum til lífeyris- og sjúkratrygginganna samkv. 20. og 49. gr. frv. verði breytt, þannig að framlög sveitarfélaganna verði óbreytt í krónutölu eftir gildistöku laganna, frá því sem þau eru.“

En eins og er, þá er gert ráð fyrir því, að sú viðbótargreiðsla, sem á að mæta þessari tekjutryggingu, komi á sveitarfélögin, þ.e. 2/5 hlutar af henni beint. Síðan verða sveitarfélögin að borga sín 18% eins og af öllu öðru í þessar tryggingar, og þá kemur í ljós, að hlutur sveitarfélaganna er þannig, að það verða rúmlega 50% af þessari greiðslu. Þetta fyrirkomulag, þ.e. að láta sveitarfélögin borga þessar greiðslur, verður til þess, að það verður eins og einhvers konar framfærslublær á þessu. Hver og einn verður fyrst að fara til sveitarstjórnanna til þess að fá þessar greiðslur, og því verður að finna einhverja aðra leið en lagt er til í þessu frv. Við leggjum til, að það verði 1/5, sem sveitarfélögin eigi að borga beint af þessu, sem mundi þýða, að þeirra greiðslur af þessari hækkun yrðu um 31% í staðinn fyrir rúmlega 50% í frv.

7. brtt. „Við 23. gr. Aftan við 1. málsgr. bætist: Nemendur 17–20 ára, sem stunda nám eigi skemur en 6 mánuði á ári, eru einnig undanþegnir gjaldskyldu.“ 8. brtt. „Við 34. gr. a. Aftan við 4. málsgr. bætist: Nú hafa örorkubætur verið greiddar í eitt skipti fyrir öll samkv. heimild þessarar greinar, og á þá hlutaðeigandi rétt á verðbótum á slíka greiðslu á 10 ára fresti, og skal verðbótin vera í réttu hlutfalli við breytingar á upphæð örorkubóta síðustu 10 árin. b. Við greinina bætist: Skipverjar, þar með taldir formenn á bátum undir 12 smálestir að stærð, sem tryggðir eru samkv. 29. gr. l., skulu njóta sérstakra örorku- og dánarbóta til viðbótar þeim bótum, sem ákveðnar eru í 34. og 35. gr. Hinar sérstöku bætur skulu vera 600 þús. kr. miðað við dauða, en 800 þús. kr. við 100% varanlega örorku, en hlutfallslega lægri, ef varanleg örorka er metin innan við 100%. Ráðh. getur breytt bótaupphæðum til hækkunar, ef almenn hækkun verður á umsömdum slysabótum sjómanna á stærri bátum en 12 smálesta. Um bætur þessar gilda hinar almennu reglur laganna, eftir því sem við á.“ 9. brtt. er við 36. gr. „Á eftir 1. málsgr. komi: Íþróttafélög greiða 1/3 af iðgjöldum fyrir íþróttafólk, en ríkissjóður 2/3. Nánari ákvæði um slysatryggingar íþróttafólks og skiptingu iðgjalda skulu sett í reglugerð í samráði við Íþróttasamband Íslands og Ungmennafélag Íslands.“ 10. brtt. er við 43. gr. „a. að aftan við staflið h. komi nýr stafliður, þannig: i. Tannlækningar að 3/4 hlutum, þegar þær teljast bein heilsufarsleg nauðsyn, og skal setja um það nánari ákvæði í reglugerð. b. Orðin „svo og greiðslu fyrir tannlækningar“ í síðustu málsgr. falli niður. 11. brtt. „Við 44. gr. Í staðinn fyrir „kr. 29.00“ í 4. málsgr. komi: kr. 80.00.“

12. brtt. er við 45. gr. „a. 1. málsliður orðist svo: Leita skal staðfestingar Tryggingastofnunar ríkisins á samningum, sem sjúkrasamlög gera við lækna, tannlækna, lyfjabúðir og heilbrigðisstofnanir um greiðslur til fullnægingar ákvæðum 42. gr. b. Fyrsti málsliður 2. málsgr. orðist þannig: Náist ekki samkomulag við lækna eða tannlækna, skal gerðardómur ákveða samningskjörin. c. Í stað orðanna „samkvæmt 43. gr. a og b“ á tveim stöðum síðar í 45. gr. komi: samkvæmt 43. gr. a, b og i.“ 13. brtt. „Við 46. gr. Aftan við gr. bætist: Nú er hérað sjúkrahúss- og læknislaust, og skal þá Tryggingastofnun ríkisins greiða nauðsynlegan ferðakostnað fyrir sjúklinga og barnshafandi konur.“ 14. brtt. er við 78. gr. „a. Í stað „ 6 mánaða“ í 1. málsgr. komi: eins mánaðar. b. Við greinina bætist: Ákvæði þessarar greinar koma til framkvæmda þegar í stað.“ Þetta ákvæði, að í stað 6 mánaða komi 1 mánuður, er um það, að ef hækkað verður kaup við fiskvinnu, þá eigi hækkun að koma á tryggingagreiðslurnar ekki eftir 6 mánuði, eins og er í frv. heldur eftir 1 mánuð. 15. brtt. er við 80. gr. „Upphaf greinarinnar orðist svo: Lög þessi öðlast gildi 1. júlí 1971.“ 16. og síðasta brtt. „Við ákvæði til bráðabirgða: a. Í stað orðanna „helmingur hreinna eigna samlags þess, sem niður er lagt,“ í 3. tölulið komi: 1/4 hluti hreinna eigna samlags þess, sem niður er lagt, — og í stað „helmingur skal ganga upp í framlög hlutaðeigandi sveitarfélags“ í sama tölulið komi: 3/4 hlutar skulu ganga upp í framlög hlutaðeigandi sveitarfélags. b. Við ákvæðin bætist nýr töluliður, svofelldur: Þegar eftir samþykkt laga þessara skal skipuð milliþinganefnd, er falið sé það hlutverk að framkvæma heildarendurskoðun laga um almannatryggingar. Sameinað Alþingi skal kjósa 2 menn í nefndina, en hver þingflokka skal skipa í hana einn fulltrúa. Ráðherra skipar formann nefndarinnar úr hópi hinna kjörnu.“

Herra forseti. Þá hef ég lýst þeim brtt., sem minni hl. hefur lagt hér fram, og við væntum þess, að hv. d. sjái sér fært að samþykkja sem mest af þessum till. og fyrst og fremst um það, að lögin taki gildi ekki síðar en 1. júlí n.k.