05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1591 í B-deild Alþingistíðinda. (1609)

281. mál, almannatryggingar

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ég vil ekki láta hjá líða, áður en þessari umr. lýkur að minnast á tvö atriði, sem ég tel miklu máli skipta. Annars vegar vildi ég taka undir ábendingar Sambands ísl. sveitarfélaga um þörf sveitarfélaga fyrir nýja tekjustofna, ef þau eiga að geta staðið undir þeim útgjöldum, sem frv. hefur í för með sér fyrir þau. Í trausti þess, að sú athugun, sem nú fer fram, á skiptingu verkefna milli ríkis og sveitarfélaga og á tekjustofnum ríkis og sveitarfélaga, beri þann árangur, að viðunandi sé að þessu leyti, þá fylgi ég framkomnu frv. Hitt atriðið, sem ég vildi nefna í tengslum við þetta mál, er að mínu viti óleyst samkv. því, sem frv. er nú; það eru tengslin milli persónufrádráttar og fjölskyldubóta, milli skattalaga annars vegar og tryggingalöggjafarinnar hins vegar. Ég tel eðlilegra, að fjölskyldubætur komi fram sem hækkun á persónufrádrætti þó þannig, að persónufrádrátturinn verði sá hinn sami í krónu tölu fyrir hvern gjaldanda, og að þeir, sem ekki fá notið hans að fullu vegna þess, að tekjur þeirra eru lægri en persónufrádrættinum nemur, fái þá endurgreiðslu úr ríkissjóði. Ég tel einnig, að það þurfi að taka til meðferðar í þessu sambandi, hvort og að hve miklu leyti iðgjöld til almannatrygginga skulu vera frádráttarbær frá skatti þannig, að fjármagn það, sem til almannatrygginga fer, nýtist sem bezt og einkum þeim til handa, sem mesta þörfina hafa.