26.10.1970
Efri deild: 5. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1594 í B-deild Alþingistíðinda. (1623)

10. mál, Landsvirkjun

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um þetta frv. til l. um breyt. á l. um Landsvirkjun, sem nú er til umræðu. Hér er um stórmál að ræða, en meginefni þess er, að Landsvirkjun sé heimilt til viðbótar þeirri heimild, sem hún hafði til að reisa orkuver við Búrfell, að reisa tvö orkuver í Tungnaá, annað við Hrauneyjafoss, en hitt við Sigöldu, hvort um sig allt að 170 MW raforkuver. Að öðru leyti, eins og í hliðstæðum tilfellum, þá eru heimildir til ábyrgðar, til lántöku og ábyrgðar á lánum og einnig heimild til þess að ákveða, að ríkissjóður leggi Landsvirkjun til tiltekna fjárupphæð, 350 millj. kr. sem höfuðstól gegn jöfnu framlagi frá Reykjavíkurborg, en Reykjavíkurborg er, eins og kunnugt er, eignaraðili á móti ríkinu að Landsvirkjun.

Að öðru leyti eru í frv. ákvæði, sem hliðstæð hafa verið í slíkum málum og nú eru í landsvirkjunarlögum, um að fella niður aðflutningsgjöld og söluskatt af efni, tækjum og vélum til virkjananna. Meginefni málsins er það, að eins og fram kemur í athugasemdunum er gert ráð fyrir því, að sú orka eða framleiðslugeta vatnsaflsstöðva Landsvirkjunar, sem fyrir eru í Sogi og í Þjórsá við Búrfell, miðað við það, að Búrfellsvirkjunin verði full-+gerð 1972, að álag á þessar aflstöðvar fari upp í um 300 MW á árinu 1974 og þá sé fullnýtt þeirra orka. Og þá er bent á það, að það þarf jafnan allverulegan undirbúningstíma bæði í sambandi við fjáröflun og framkvæmdir, þegar orkuver eru byggð, og gert er ráð fyrir því, að meiri háttar virkjanir taki að jafnaði um 5–6 ár og því er þetta frv. nú flutt, til þess að orkan, viðbótarorkan við það, sem við nú höfum, geti verið tiltæk eftir 1974.

Það er ekki aðeins hér um að ræða að hafa viðbótarorku fyrir okkar eigin þarfir, heldur er einnig vikið að því, að það verði senn lagður grundvöllur að meiri háttar atvinnugreinum, þá væntanlega að stóriðju, orkufrekum iðnaði, og ódýrri orkuframleiðslu í þágu hins almenna notanda um leið. Nú liggur ekki fyrir nein vissa um frekari stóriðju á þessu stigi málsins, en rétt að segja það, að það hefur verið rætt og haft í huga að kanna möguleikana á frekari stóriðju eða frekari iðnþróun orkufreks iðnaðar. Það hefur ýmislegt komið til greina, svo sem stækkun á álverinu, sem nú er hér í Straumsvík. Einnig hafa farið fram viðræður við aðra aðila um að reisa hér álbræðslur. Það hefur nú komið til álita annar efnaiðnaður, bæði ef reist yrði hér sjóefnavinnsla á Reykjanesi og einnig í tengslum við sjóefnavinnslu og í tengslum við hugsanlega olíuhreinsunarstöð, ef reist yrði. Var rætt um fyrir tveimur árum hugsanlega vítissódaverksmiðju, sem þyrfti allverulega orku í tengslum við sjóefnavinnsluna t.d., en þær viðræður, sem þá fóru fram, hafa legið niðri, vegna þess að aðstæður voru þá þannig á heimsmarkaðinum, að viðkomandi aðili, sem var reyndar svissneska álfélagið, hafði ekki í bili áhuga á að eignast eða vera aðili að byggingu slíkrar verksmiðju. Þannig hefur sitt hvað komið til álita, og tíminn skiptir auðvitað miklu máli, þegar áfram á að ræða um slíka möguleika til nýrrar stóriðju, að vita nokkuð, hverjir möguleikar okkar eru til að selja rafmagn og með hvaða kjörum, þegar þar að kæmi, svo að þetta tvinnast saman að fullnægja okkar eigin þörf fyrir aukna raforku og geta tíundað gagnvart hugsanlegum aðilum, sem hefðu áhuga, annaðhvort sjálfir eða í samvinnu við íslenzka aðila, á að reisa hér einhver iðjuver, að geta tíundað fyrir þeim, hvaða möguleikar væru fyrir hendi. Það mundi svo fara að sjálfsögðu eftir atvikum sá framkvæmdahraði eða framkvæmdahraðinn við þessar virkjanir, þar er gert ráð fyrir að virkja hvora út af fyrir sig, og það gæti auðvitað hugsazt bil þar á milli um lengri eða skemmri tíma eftir atvikum. En framkvæmdahraðinn mundi þá auðvitað fara eftir þeim möguleikum, sem við hefðum til hagnýtingar orkunnar. Eftir því sem eftirspurnin væri meiri eftir henni á skemmri tíma, þá mundi framkvæmdahraðinn ákvarðast. En alla vega er það skoðun Landsvirkjunar, og ég held, að það sé enginn ágreiningur um það, að þessar tvær virkjanir, í hvaða röð sem þær eru nú teknar, séu þær álitlegustu sem næsta skref af hálfu Landsvirkjunar. Frekari virkjanir í Þjórsá og þá í Efri-Þjórsá koma á eftir þessu, svo að langt árabil yrði, þangað til að þeim yrði hnigið, og e.t.v. sköpuðust einhverjir álitlegri virkjunarmöguleikar, það er mér ekki kunnugt um enn þá, á frekari virkjun í Þjórsá. En ég segi þetta aðeins vegna hugsanlegra erfiðleika á náttúruvernd í Þjórsárverum vegna heiðargæsarinnar þar, en það mál hefur verið kannað af innlendum og erlendum sérfræðingum, rætt á alþjóðlegum fundum, og af þeim sökum að það er verulegur hluti stofns heiðargæsarinnar, sem hefur sitt aðsetur eða verpir hér á landi og aðallega á þessum slóðum, þó að það sé að vísu í minna mæli nokkuð á öðrum stöðum. En þetta mál er áfram í rannsókn, og þegar þar að kæmi, eftir langan tíma, að loknum þessum báðum virkjunum, sem engin áhrif hafa á heiðargæsina um þetta atriði, að þeim loknum, er sennilega nokkuð langur tími liðinn, og þá hefur gefizt tækifæri til þess að rannsaka hitt málið nánar og með hverjum hætti hægt væri að samræma þar náttúruvernd og virkjunarframkvæmdir, en að hvoru tveggju er að sjálfsögðu þýðingarmikið að huga.

Ég held að ég þurfi ekki að hafa fleiri orð til þess að fylgja þessu máli úr hlaði og leyfi mér að leggja til, að því verði vísað til 2. umr. og hv. iðnn.1623