14.12.1970
Efri deild: 30. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1596 í B-deild Alþingistíðinda. (1626)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm. (Sveinn Guðmundsson):

Herra forseti. Iðnn. hefur haft til athugunar frv. til laga um Landsvirkjun, 10. mál Ed., lagt fram af hæstv. iðnrh. Á þskj. 243 skilar n, áliti og mælir með samþykkt frv., en einstakir nm. áskilja sér rétt til að fylgja eða flytja brtt. við frv. Iðnn. beggja þingdeilda héldu með sér sameiginlegan fund um þetta mál og fengu til viðræðna formann stjórnar Landsvirkjunar, Jóhannes Nordal, seðlabankastjóra, og framkvæmdastjóra Landsvirkjunar, Eirík Briem. Lagafrv. það, sem hér er borið fram, er breytingar á lögum um Landsvirkjun og heimildir Landsvirkjunarstjórnar til virkjunar Sigöldu- og Hrauneyjafossvirkjunar í Tungnaá, hvor ætluð um 170 MW að stærð. Einnig gerir frv. ráð fyrir, að Landsvirkjun eignist öll nauðsynleg vatnsréttindi þessum virkjunum viðkomandi. Þá gefur frv. hæstv. ríkisstj. heimild til þess að ábyrgjast virkjunarkostnað annarrar þessarar virkjunar, sem hér um ræðir. Undirbúningsvinna er ekki talin vera komin á það stig, að hægt sé að slá föstu, hvora þessara tveggja virkjana sé álitlegra að hefja fyrst. En að það sé sett á vald stjórnar Landsvirkjunar og ábyrgðarheimild ríkisins gildir fyrir hvora virkjunina sem er. Í skýringum við frv. í 5. gr., um fjáröflun og ábyrgðir, segir: Til að greiða fyrir lántökum innan lands eða utan er ríkisstj. heimilað að ábyrgjast lán, er Landsvirkjun tekur þeirra vegna, að fjárhæð allt að 5900 millj. kr., eða taka lán hennar vegna allt að sömu fjárhæð og endurlána það Landsvirkjun. Er hér um að ræða hækkun á fjárhæð heimildarinnar um 2772 millj. kr., en mismunurinn, 3128 millj. kr., er heimild, sem þegar hefur verið notuð að fullu vegna Búrfellsvirkjunar. Hækkun heimildarinnar er miðuð við nauðsynlegar lántökur vegna Þórisvatnsmiðlunar, undirbúningsframkvæmda í þágu nýrra virkjana í Tungnaá við Hrauneyjafoss og Sigöldu og fullnaðarvirkjunar á öðrum hvorum staðnum.

Frv. gerir einnig ráð fyrir heimild til að byggja frekar eldsneytisstöðvar, ef með þarf, til vara. Ekki er þetta þó fyrirhugað nú og líklega minni ástæða fyrir slíkum stöðvum, eftir því sem vatnsvirkjanir verða fleiri og stærri, og þegar ný háspennulína verður komin frá aðalvirkjunarsvæðinu.

Á fundi með forráðamönnum Landsvirkjunar kom fram, að stækkun Búrfellsvirkjunar. gengur samkvæmt áætlun. Komið hefur í ljós, að vélasamstæður þær, sem þegar eru í gangi, gefa 15% meira afl heldur en lofað var. Hinar nýju vélasamstæður, sem síðan voru pantaðar, eru nú að koma til landsins og má reikna með, að þær komist í gagnið á næsta ári. Enda má það ekki seinna vera vegna stækkunar, sem nú fer fram á álverinu í Straumsvík, og vegna aukinnar raforkunotkunar til almennra þarfa.

Eins og að líkum lætur þá má búast við, að stór partur af þeirri orku, sem hinar nýju virkjanir framleiða, fari til þess að fullnægja stórnotendum, sem án efa á eftir að fjölga hér á næstu árum. Nú þegar er álvinnslan hér í örum vexti, þótt eitthvað hafi hins vegar dregið úr sölu á þessari málmtegund á hinum almenna heimsmarkaði. Rannsóknaráð ríkisins hefur að undanförnu starfað mjög ötullega að framhaldsathugunum á því, að hér verði komið á fót vinnslu magnesíums, sjóefnavinnslu, framleiðslu á þungu vatni, svo að nokkuð sé nefnt. Og fyrir nokkrum dögum var stofnað hér í Reykjavík félag til könnunar á að hefja hér á landi járnbræðslu úr úrgangsjárni, sem til fellur í landinu. Slíkur iðnaður byggist fyrst og fremst á ódýrri og nægilegri raforku. Það virðist sem nokkur dráttur verði á, að kjarnorkan verði beizluð í ,þessu skyni nægilega fljótt og ódýrt. Það er því ástæða til fyrir okkur Íslendinga að halda okkur af fullum krafti við byggingarframkvæmdir raforkuvera, þannig að eyður skapist ekki. Rétt væri að gera langtímaáætlun t.d. 10 ára áætlun um virkjanir. Og þarf þá að hafa í huga, að Íslendingar framkvæmi sem mest af þessu sjálfir og fastir vinnuflokkar væru fluttir í beinu framhaldi milli virkjunarstaða, án þess að eyður mynduðust. Slíkar stórvirkjanir eru mannfrekar, en það skapar að sjálfsögðu mikinn vanda á okkar litla vinnumarkaði, þegar slíkar framkvæmdir hefjast og snögglega vantar 500–1000 manns, og ekki síður, þegar slík stórverk dragast snögglega saman. Ég beini því til hæstv. orkumálaráðh., að enn betur sé hugað að þessu og langtímaáætlun sé gerð með jöfnun á stórfelldum virkjunarframkvæmdum.

Áður en ég lýk máli mínu þykir mér rétt að minnast á eina grein rafmagnsnota, sem algerlega hefur verið vanrækt hér á landi, en það er upphitun húsa. Það er furðulegt, hversu mikinn seinagang og sinnuleysi forráðamenn raforkumála hafa sýnt raforkusölu til húsahitunar. Að vísu höfum við Íslendingar sérstöðu með heita vatnið, en notkun þess til upphitunar er áreiðanlega heppilegasti hitagjafinn í þéttbýli, þar sem nýtilegur hiti er á annað borð í jörðu. Í strjálbýli hefur rafmagnshitun augsýnilega kosti, þar sem leiða þarf orkuna langa vegalengd. Til þess að viðhalda jafnvægi við þá staði, sem hafa heitt vatn, er ekkert til, sem kemur í námunda við rafmagnshitun, bæði hvað snertir hagkvæmni, stofnkostnað og gjaldeyrissparnað. En til þess að slíkt verði mögulegt almenningi, þarf þessi ákjósanlegi hitagjafi að vera. seldur á sambærilegu verði og ekki dýrara heldur en innflutt olía eða helzt í samkeppni við heita vatnið. Mér skilst, að þar sem upphitun húsa með rafmagni er leyfð hér á landi, þá sé ekki óalgengt að selja hverja kwst. á um Í kr. kw. Borið saman við t.d. í Noregi, sem nýtir rafmagn til upphitunar í stórum stíl, þá er kwst. þar seld á 41/2 eyri norskan eða 54 aura íslenzka, — helmingi ódýrari. Með því að gera rafmagnsupphitun hagkvæma fyrir dreifbýlið mundi skapast margföld nýtni á dýrum heimtaugum, sem lagt hefur verið í á hina ýmsu staði. Ég held, að sérfræðingar okkar í rafmagnsmálum hafi verið seinir að taka hér við sér og ekki óeðlilegt, að kraftur sé nú settur á raunhæfa athugun og aðgerðir, sem tryggi öllum landsmönnum upphitun frá innlendum orkulindum á næstu árum.