15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1602 í B-deild Alþingistíðinda. (1635)

10. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég átti ekki von á því, að hæstv. forsrh. færi fram á það við d., að hún afgreiddi þetta mikla mál á örfáum dögum, þeim dögum, sem eftir eru fram að jólaleyfi. Ég sé ekki, að það sé nein nauðsyn, að við afgreiðum þetta mál á svo stuttum tíma, og mundi telja það ákaflega óeðlilegt, vegna þess að ég tel, að þetta frv. fjalli e.t.v. um stærsta málið, sem lagt hefur verið fyrir þetta þing.

Í þessu frv. felst heimild til að ráðast í tvær stórvirkjanir í Tungnaá, og þótt vissulega sé enginn ágreiningur um það meðal okkar þm., að okkur beri að hagnýta orku fallvatnanna, þá er hins vegar ágreiningur um það, hvernig eigi að hagnýta þá orku, og það er augljós staðreynd, að ekki verður hægt að ráðast í svo stór orkuver, sem þarna er rætt um, án þess að tengja það mál þegar í upphafi við það, hvað á að gera við orkuna. Eins og hæstv. ráðh. gat um hefur ríkisstj. sínar hugmyndir um það að semja við erlenda aðila um að koma hér upp fleiri fyrirtækjum af svipuðu tagi og í Straumsvík. Það eru hennar forsendur fyrir því, að ráðizt verði í stórvirkjanir af þessu tagi, og við þurfum að gera okkur það ljóst í sambandi við þessar virkjanir, að það er í rauninni ekki hægt að skipta þeim niður í neina skynsamlega áfanga. Allur meginkostnaðurinn kemur þegar í upphafi. Það er að vísu hægt að bæta við vélum í áföngum, en allur raunverulegur virkjunarkostnaður kemur þegar í upphafi. Þess vegna hljóta að verða óhjákvæmileg tengsl á milli rafvirkjananna og þeirra hugmynda, sem menn gera sér um notkun þessara orkuvera.

Nú skilst mér, að það sé í æðimikilli óvissu, hvort tekizt geta samningar við erlenda aðila, sem jafnvel ríkisstj. teldi hagkvæma. Ég þarf ekki að rekja það, að við æðimargir þm. töldum það óhagkvæma samninga, sem gerðir voru við álbræðsluna, og ég hygg, að það sé viðurkennd staðreynd, að jafnvel þó að þessar virkjanir í Tungnaá verði hagkvæmar, verður verðið á einingu nokkru hærra en frá Búrfellsvirkjun. Ég hygg, að ekki liggi fyrir nein slík tilboð frá erlendum aðilum, að ríkisstj. geti reiknað með því sem nokkuð öruggri vissu, að hún nái slíkum samningum, jafnvel þó að hún telji það rétt. Þess vegna held ég, að í meðförum okkar verðum við að íhuga einnig, hvort það eru ekki til leiðir til þess, að Íslendingar sjálfir nýti þessa raforku. Þar kemur auðvitað til hin almenna stefna okkar í iðnþróunarmálum, en þar er þróunin ekki svo ör, að þar sé um að ræða eðlilegan kaupanda að svo miklu orkumagni þegar í upphafi. Hins vegar er til eitt svið, sem mundi kalla á mikið magn af raforku. Það er upphitun húsa með raforku. Ef ráðizt væri í það verkelni, væri hægt að virkja í Tungnaá svona stórar virkjanir og hagnýta orkuna á eðlilegan hátt í okkar þágu. Það hefur komið fram hér á þessu þingi mikill áhugi á þessu máli og ég er þeirrar skoðunar, að þar sé um stórmál að ræða. Til þess þyrftum við mikla orku, en við mundum einnig spara mjög verulegt fé í gjaldeyri, þannig að það mundi jafngilda verulegum iðnaði að ráðast í slíka framkvæmd. Ég tel, að það sé skylda okkar að athuga þetta mál alveg sérstaklega í sambandi við þessar virkjunarhugmyndir og ég var með þá hugmynd og hefði gjarnan viljað beina því til þeirrar n., sem fær þetta mál til meðferðar, að í heimildargr., 3. gr., verði bætt ákvæði um það, að Landsvirkjun sé heimilt að kanna sérstaklega og undirbúa framkvæmdir að stóraukinni upphitun húsa með raforku.

Nú er ég ekki það kunnugur þessum málum, að mér sé það ljóst, hvort þetta væri raunsætt á svona stuttum tíma, hvort hægt er að gera þær kannanir og ráðast í þær framkvæmdir í sambandi við upphitun húsa með raforku á svo stuttum tíma, að það kæmist í gagnið á svipuðum tíma og stórvirkjun í Tungnaá, þannig að þar er einnig um óvissu að ræða ekki síður en í hugmyndum hæstv. ríkisstj. um að semja við erlendan aðila. Þess vegna mundi ég einnig telja skynsamlegt, að inn í þessa heimildargr. yrði bætt heimild til minni virkjunar, ef skynsamlegt þætti að ráðast í það til bráðabirgða, á meðan verið væri að athuga aðra hluti. Þar er um ýmsa möguleika að ræða. Ég get t.d. minnt á mjög álitlega virkjun í Brúará, það er 30 MW virkjun. Hún mundi endast okkur Íslendingum í svo sem 2–3 ár eftir þeirri notkun sem nú tíðkast, og ef í ljós kemur, að erfitt er að tengja þessar stórvirkjanir við eðlilega notkun í landinu, fyndist mér, að það gæti verið mjög eðlilegt að skjóta inn minni virkjun. Þannig tel ég að þetta sé bæði það mikið viðfangsefni og það flókið viðfangsefni, að mér finnst, að alþm. eigi að taka sér eðlilegan tíma til þess að fjalla um það og hugleiða það, og ég vil mælast til þess við hæstv. forsrh., að hann leggi ekki á það áherzlu, að þessu máli verði hraðað í gegnum Nd. á aðeins örfáum dögum.