15.12.1970
Neðri deild: 33. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1604 í B-deild Alþingistíðinda. (1636)

10. mál, Landsvirkjun

Forsrh.(Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ja, ég get út af fyrir sig vel skilið það, að hv. þm. vilji hafa meira tóm til þess að fjalla um mál eins og þetta, og það kom fram í minni ræðu, að málum er þannig komið, að það þarf ekki að afgreiða þetta mál fyrir jólin, eins og ég talaði um. En í þessu sambandi minni ég á þann hvimleiða hátt, sem hér er í þinginu, að þetta mál er búið að vera í Ed. án þess að mér sé kunnugt um, að nokkur sérstök gangskör hafi verið gerð að íhugun málsins né heldur, eins og ég sagði, að ágreiningur hafi verið um málið, en þegar koma fram óskir um það að vilja hafa málið til frekari meðferðar, þá mun ég ekki leggja neitt kapp á að flýta afgreiðslu þess. Ég gerði það bara í þeirri veru, að mér er kunnugt um, að það hefur á allra síðustu dögum verið gripið til hendinni í Ed. og málið afgreitt og þess vegna bar ég fram þessa ósk, því að ég vildi ógjarnan hafa málið í aðgerðarleysi langan tíma hér í Nd. En hins vegar er nánari athugun á málinu, og stórmáli eins og þetta er, auðvitað ekki nema sjálfsögð.