23.03.1971
Neðri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1612 í B-deild Alþingistíðinda. (1642)

10. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þegar þetta mál var hér til 1. umr., þá gerði ég efni þess að umtalsefni, nokkur meginatriði þar, og í samræmi við það, sem þar kom fram, þá bar ég síðan fram ásamt hv. þm. Lúðvík Jósefssyni brtt. á þskj. 285. Brtt. var efnislega þannig, að bætt yrði við 4. Lið: „Að ráðast í áætlanir og framkvæmdir til þess að tryggja það, að sem mest af orkunni frá hinni nýju stórvirkjun yrði notað til hitunar húsa.“ Og enn fremur: „Nú tekst ekki nægilega snemma að tryggja eðlilegt samhengi milli orkuframleiðslu frá stórvirkjunum og orkunotkunar, og er Landsvirkjun þá heimilt að reisa allt að 30 MW raforkuver í Brúará við Efstadal.“ Þessi brtt. var lögð fram hér á þ., áður en þing fór heim í jólaleyfi, þannig að hv. iðnn. hefur haft hana til meðferðar ásamt málinu sjálfu. Og ég verð að lýsa sérstakri undrun minni á því, að hv. n. skuli ekki hafa tekið formlega afstöðu til þessarar till. Þegar maður flytur brtt. svona snemma, þá er auðvitað mjög eðlilegt, að n. fjalli um þær á sama hátt og þau frv., sem um er að ræða, og taki afstöðu til þeirra, fjalli um þá röksemdafærslu, sem í till. felst, og taki afstöðu til þeirra.

Ég vil vekja athygli manna á því, að þessar brtt. eru ákaflega veigamiklar. Með frv. er lagt til að heimila Landsvirkjun að ráðast í nýjar stórvirkjanir í Tungnaá, annars vegar við Hrauneyjafoss og hins vegar við Sigöldu. Hins vegar fylgir engin vitneskja um það, hvað gera á við þá raforku, sem þarna á að framleiða Ég spurði hæstv. raforkumálaráðh. um það við 1. umr., hvernig þau mál stæðu. Ég sagðist vita, að hæstv. ríkisstj. væri í samningum, eða kannske ekki í samningum, heldur væri að kanna, hvort erlendir aðilar mundu fást til þess að stofna hér fyrirtæki til þess að hagnýta þessa orku. Og ég taldi eðlilegt, að Alþ. fengi vitneskju um það, hvernig þau mál stæðu, og hverjar horfur væru á því, að slíkir samningar væru gerðir. Hæstv. ráðh. gat ekki gefið neina slíka skýrslu, og ég hefði þá talið mjög eðlilegt, að slík skýrsla yrði gefin nú við 2. umr. málsins, en hæstv. ráðh. er ekki einu sinni staddur hér. Nú er það að sjálfsögðu æði mikið út í bláinn að ákveða stórvirkjun, án þess að Alþ. hafi nokkra hugmynd um það, hvað ætlunin er að gera við orkuna, og mig grunar, að þessi könnun á áhuga erlendra aðila sé þannig stödd eins og sakir standa, að það séu ekki miklar horfur á, að slíkir samningar verði gerðir, a.m.k. ekki í náinni framtíð. Þetta samhengi, sem verður um að ræða, það má minna á það í þessu sambandi, að þegar ákvörðun var tekin hér um Búrfellsvirkjun, þá var sú ákvörðun tekin, án þess að fyrir lægi nokkur vitneskja um erlendan aðila, sem ætlunin væri að semja við. Hins vegar lýsti hæstv. ríkisstj. því þá yfir og hæstv. þáv. raforkuráðh., að það væri sjálfsagt að ráðast í Búrfellsvirkjun, jafnvel þó að orkan frá henni yrði einungis nýtt á Íslandi. Hann benti á, að virkjunin við Búrfell væri ekkert meira átak fyrir Íslendinga heldur en fyrsta Sogsvirkjun hefði verið á sínum tíma, ef maður ber saman fjárhagslega getu þjóðfélagsins, og þetta mat hæstv. ráðh. var vafalaust rétt. En á sama hátt þá tel ég, að hæstv. ríkisstj. beri að gera grein fyrir því í sambandi við svona frv., hvernig við Íslendingar getum hagnýtt þá orku, sem þarna er um að ræða.

Með till. okkar er bent á leiðir til þess að hagnýta þessa orku. Við leggjum til, að orkan verði hagnýtt til hitunar húsa og að ráðizt verði í áætlanir og framkvæmdir til þess að tryggja það, að sem mest af orkunni verði þannig notað. Þarna er sá eini kaupandi á Íslandi, sem er nægilega stór til þess að geta tekið við orku frá stórvirkjun í Tungnaá. Eins og nú standa sakir fer til hitunar húsa um 2 þús. GWst. Um það bil helmingur af þessu magni kemur frá varmaorkuveitum, en um það bil helmingur með olíu. Þ.e.a.s. þarna er um að ræða 1000 GWst, sem framleiddar eru með því að flytja inn olíu, sem er býsna dýr aðferð. En frá Hrauneyjafossvirkjun má gera ráð fyrir orkumagni sem nemur 800–900 GWst, þ.e.a.s. það magn, sem mundi þurfa til þess að breyta upphitun frá olíuhitun til rafmagnshitunar. Það er meira en allt orkumagnið frá virkjun við Hrauneyjafoss. Þarna er sem sé ákaflega stór aðili, sem getur tekið við raforku og sem getur risið undir stórvirkjun á Íslandi. Og þessi þróun mun halda áfram. Það hefur verið starfandi sérstök n., sem á að fjalla um þau vandamál, sem tengd eru húshitun. Áætlanir hennar eru þær, að orkumagn til þeirra nota muni aukast um 2% á ári að meðaltali til aldamóta, þ.e.a.s. að um aldamót þurfi 3700–3800 GWst til hitunar húsa á Íslandi. Ef maður gerir ráð fyrir því, að hlutur varmaorkuvera haldist óbreyttur eða að hitaveitur haldist óbreyttar, þá mun þurfa á annan hátt 1800–1900 GWst, annaðhvort með því að auka innflutning á olíu að þessu marki eða með því að nota raforku. Raforkustöð, sem stæði undir slíkri upphitun, mundi þurfa að framleiða um 2500 GWst, en það er um það bil 1/10 hluti af nýtanlegri raforku á Íslandi. Þarna er sem sé um að ræða mjög verulega stóran, innlendan markað, sem við getum reiknað með, og ég teldi það ákaflega eðlilegt, að inn í þetta frv. yrði felld sú ákvörðun Alþ. að nýta raforku frá stórvirkjunum í Tungnaá einmitt til húsahitunar. Og mér finnst, að maður hefði mátt vænta þess, að þessi till. fengi einhverjar undirtektir hjá n. og jafnvel jákvæðar undirtektir, vegna þess að einmitt á þessu þ. hefur verið fjallað æðimikið um þessi mál. Fyrr á þessu þingi var borin hér fram þáltill. frá 6. þm. Sjálfstfl., þar sem skorað er á iðnrh. „að beita sér fyrir aukinni notkun raforku til húsahitunar á öllum þeim svæðum, þar sem jarðhita er ekki völ sem hagkvæmari hitagjafa. Stefnt skal að því að gera 5 ára áætlun um framkvæmd hitunarmálsins, þannig að innlendar orkulindir hiti hvert híbýli landsins að þeim tíma liðnum.“ Hæstv. forsrh. kvaddi sér hljóðs, þegar þetta mál var til 1. umr., og sagði að þarna væri hreyft mjög mikilvægu og merku máli. Það er búið að samþykkja þessa till. til þál. sem ályktun Alþ. Að vísu voru felld út tímamörkin um 5 ára áætlun, en engu að síður er þetta mótað sem stefna Alþ. Og þess vegna held ég, að það hefði verið fullkomlega raunsætt og eðlilegt, að Alþ. fylgdi eftir þessari stefnu, sem þegar er búið að móta, með því að tengja þessi áform um upphitun húsa með raforku við stórvirkjanir í Tungnaá.

Nú er það svo, að það er vandséð fyrir Alþ. núna, hvort það fæst eðlilegur markaður fyrir þessar stórvirkjanir. Ég minntist áðan á áform ríkisstj. um að semja við erlenda aðila. Ég hygg, að það sé í allmikilli óvissu og ég þarf ekki að lýsa því, að ég er andvígur þeirri stefnu, tel hana ranga, tel hana ekki í samræmi við efnahagslega hagsmuni þjóðarinnar. En það er einnig óvíst, að áform um upphitun húsa með raforku geti komizt til framkvæmda svo snemma, að þau geti haldizt í hendur við eðlilegan framkvæmdahraða á virkjunum í Tungnaá. Og einmitt þess vegna höfum við lagt til, að þarna verði tekin upp ný heimild sem eins konar varaleið, ef þarna tekst ekki að tryggja eðlilegt samhengi, þ.e.a.s. að ríkisstj. fái einnig heimild til þess eða Landsvirkjun að reisa allt að 30 MW raforkuver í Brúará við Efstadal. Það orkumagn jafngildir því, að við fengjum þriggja ára hlé til þess að ráðast þá í stærri framkvæmd á eftir. Þetta er aðeins einföld og ákaflega eðlileg varúðarráðstöfun og mér finnst það vera raunsæi að hafa þennan hátt á. Og þess vegna fyndist mér einnig, að iðnn. hefði átt að gera grein fyrir því, hvort þetta væri ekki rétt stefna, og ef niðurstaðan væri sú, að þetta væri ekki rétt stefna, þá hvers vegna.

Ég ætlaði nú ekki að hafa mörg fleiri orð um þetta mál á þessu stigi, en ég vil benda á enn eitt atriði í frv. til l. um breyt. á l. um Landsvirkjun, atriði, sem ég veitti ekki athygli, þegar þetta frv. var lagt fram eða þegar við hv. þm. Lúðvík Jósefsson lögðum fram brtt. okkar. Í 3. gr. stendur: „Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna samkv. 1. mgr., sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra á hverjum tíma. Nær heimildin m.a. til stíflugerðar í Þórisósi og Köldukvísl og að veita Köldukvísl um skurð í Þórisvatn og þaðan um skurð í Tungnaá. Enn fremur er Landsvirkjun heimilt að reisa eldsneytisaflstöðvar þær, sem fyrirtækið telur rétt að koma upp.“

Þarna er sem sé ákaflega víðtæk heimild. Það er heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjananna, sem Landsvirkjun sýnist, þ. á m. ofan Búrfellsvirkjunar. En með þessu móti væri Alþ. að gefa Búrfellsvirkjun heimild til þess að drekkja Þjórsárverum. Ég vil biðja menn að veita þessu athygli. Með orðalaginu á þessu heimildarákvæði er verið að gefa Landsvirkjun heimild til þess að drekkja Þjórsárverum.

Ég geri nú ekki ráð fyrir því, að hæstv. ríkisstj. hafi hugsað sér að fá þessa heimild. Þarna er um að ræða mál, sem vakið hefur miklar deilur og er augljóslega mjög mikið vandamál. Og ég tel víst, að það verði við það staðið, sem þegar er raunar hafið, að þarna verði framkvæmdar umfangsmiklar rannsóknir, áður en nokkrar endanlegar ákvarðanir eru teknar. Ég held, að það væri ekki rétt, að Alþ. gæfi þessa heimild á þessu stigi málsins. Ég held eins og ég sagði áðan, að það hafi ekki verið ætlun ríkisstj. eða Landsvirkjunar að fara fram á þessa heimild og þess vegna mundi ég vilja beina því til hæstv. ríkisstj., — það er nú aðeins einn ráðh. viðstaddur að vísu, — en ég vildi beina því til hæstv. ríkisstj., hvort hún mundi ekki vilja hafa frumkvæði að því að takmarka þessa heimild, þannig að það væri ótvirætt, að það næði ekki til miðlunarframkvæmda efst í Þjórsá, sem mundi hafa það í för með sér, að hægt væri að drekkja Þjórsárverum. Hvað sem mönnum sýnist um það mál, þá held ég, að það sé ekki rétt, að slík ákvörðun sé tekin núna. Ég held, að Alþ. eigi að taka þá ákvörðun síðar á annan hvorn veginn, þegar fyrir liggur næg vitneskja. Það væri hægt að takmarka þessa heimild á einfaldan hátt, án þess að skerða eðlilegar aðgerðir Landsvirkjunar til þess að tryggja öryggi þessara virkjana, en ég teldi eðlilegt, að það yrði ríkisstj. sjálf, sem gengi frá þessari breytingu.

Um till. þá, sem hv. þm. Gísli Guðmundsson gerði grein fyrir hér áðan og sem hann flytur ásamt tveimur öðrum þm. Framsfl., þá er það að segja, að þar er um að ræða miklu viðtækara mál heldur en er þessi ákvörðun um virkjanir í Tungnaá. Þar er um að ræða mál, sem eins og hann sagði snertir raforkuþróunina um landið allt. Ég verð að viðurkenna það, að mig skortir þekkingu til þess að mynda mér skoðun um það á þessu stigi, hvort þær leiðir, sem þessir 3 hv. þm. benda á, eru réttar í þessu efni eða ekki, enda sé ég ekki, að þess gerist þörf að marka slíka heildarstefnu núna á þessu stigi. Ég tel, að það væri hægt að taka þessar ákvarðanir um stórvirkjanir í Tungnaá með þeim fyrirvara, sem ég var með áðan, að um leið verði að tryggja kaupanda að raforkunni, innlendan kaupanda. En ég tel, að það sé hægt að taka þessa ákvörðun án þess að það þurfi að tengja það við heildarákvörðun um þróun raforkumála um land allt.