02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1619 í B-deild Alþingistíðinda. (1654)

10. mál, Landsvirkjun

Birgir Kjaran:

Herra forseti. Aðeins fáein orð um eitt atriði frv., sem ég er annars samþykkur í heild. En fyrst vildi ég þó nota tækifærið til þess að leiðrétta misskilning, sem fram hefur komið við umr. hjá einum hv. þm. varðandi hugsanleg náttúruspjöll og tortímingu sérstæðra náttúrufyrirbæra af völdum þessara virkjana. slíkt er sem betur fer algerlega á misskilningi byggt, þar sem virkjanir í Tungnaá við Sigöldu og Hrauneyjafoss munu aðeins raska landi, sem í raun og veru er nánast eyðimörk og bændum til lítils gagns og frá náttúruverndarsjónarmiðum ekki neins sérstaks eðlis. Það er fyrst, ef til virkjunar kæmi við Norðlingaöldu, sem þessi atriði kæmu í brennidepilinn, ef svo mætti segja, því að af síðari virkjunum kynni heiðargæsastofninum að stafa hætta og sérkennilegt og einstætt landslag, eina túndran eða freðmýrarsvæði landsins þar með fara í kaf. En um það er sem sagt ekki að ræða í þessu frv. og því ástæðulaust að deila um það á þessari stundu. Um eitt atriði frv. finnst okkur sumum ekki nógu fast á kveðið og til þess að taka af allan vafa höfum við 4 þm. flutt brtt. á þskj. 679. Hér er vissulega ekki um neina efnisbreytingu á frv. að ræða heldur aðeins orðalagsbreytingu, sem taka á, eins og ég segi, af allan vafa og þar með að koma í veg fyrir hugsanleg eftirmál og tvíræða túlkun heimildar. Með leyfi hæstv. forseta leyfi ég mér að lesa þessa brtt. upp og orðalag frv. til samanburðar. Í síðasta málslið 3. gr. frv. segir svo, orðrétt tilfært:

„Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna, samkvæmt 1. málsgrein,“ — sem mun vera prentvilla eins og á hefur verið bent og á trúlega að vera 1. gr., — „sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra á hverjum tíma.“ Við þetta orðalag viljum við gera þá breytingu, sem fram kemur á þskj. 679, með leyfi hæstv. forseta:

„Landsvirkjun er jafnframt heimilt að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum ofan virkjana sinna í Tungnaá, sem nauðsynlegar þykja til að tryggja rekstur þeirra á hverjum tíma.“

Ég vona, að hv. dm. geti fallizt á þessa brtt. okkar, sem aðeins miðar að því að taka af allan vafa og tvímæli.