02.04.1971
Neðri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1622 í B-deild Alþingistíðinda. (1656)

10. mál, Landsvirkjun

Geir Hallgrímsson:

Herra forseti. Ef ég rifja hér upp, að hv. stjórnarandstaða hafi verið mótfallin Búrfellsvirkjun, þá býst ég við, að málsvarar hennar muni hér koma á eftir og taka fram, að það sé ekki rétt, því þeir hafi greitt atkv. með Búrfellsvirkjun á sínum tíma. Ástæðan til þess, að ég hef tilhneigingu til þess að gera það við þessa umr., er sú, að Búrfellsvirkjun hefði í upphafi aldrei komizt í framkvæmd, ef ekki hefði verið til staðar orkusölusamningur við álfélagið, orkusölusamningur, sem treysti fjárhagsgrundvöll Búrfellsvirkjunar en hv. stjórnarandstaða var á móti. Í raun og veru var þetta hvort tveggja svo nátengt og samhangandi, að ekki varð þar sundur slitið á þeim tíma, sem í Búrfellsvirkjun var ráðizt. Þetta rifjast upp sérstaklega núna, þegar augu bv. stjórnarandstöðu hafa opnazt fyrir því betur en áður var, að það er nauðsynlegt, þegar ráðizt er í stórvirkjun, að sjá svo um, að unnt sé að selja orkuna, sem framleidd er í slíkum stórvirkjunum, og sem betur fer finnst mér brtt. og nál. minni hl. iðnn. bera þess vitni, að þessir aðilar hafi meiri og betri skilning á því, að nauðsynlegt er að hafa markað fyrir rafmagnsframleiðsluna, ef örugglega er um hnútana búið varðandi fjárhagsgrundvöll slíkra stórframkvæmda. Á þskj. 285 frá þeim þm. 6. þm. Reykv. og 4. þm. Austf. þá kemur þetta fram, að þeir hyggjast ráða bót á skorti á kaupendum með því annars vegar að auka hitun húsa með rafmagni en hins vegar að hafa það sem varaskeifu, ef ekki reynist unnt að sjá fyrir öruggum innlendum kaupendum, þá að fara út í minni orkuver.

Hv. síðasti ræðumaður nefndi hitunarmálin og í því tilefni má geta þess, að um rúmlega ársskeið hefur verið n. að störfum á vegum Orkustofnunar, sem hefur fjallað um hitunarmál og hvaða hitagjafi væri hagkvæmastur í hverju tilviki eftir aðstæðum. Þótt störf þessarar n. hafi gengið seinna heldur en skyldi, þá er von til þess, að hún muni skila áliti, og þáltill. um þessi efni, sem mun hafa verið samþ. hér fyrr á þinginu, er einnig til þess fallin, að um þessi mál verði nægilega örugglega fjallað, því vissulega er það hagsmunamál í nýtingu vatnsfalla að nýta þau, framleiðslu raforkunnar, í þessum tilgangi. Enn fremur má geta þess í þessu sambandi, að Landsvirkjun og Rafmagnsveita Reykjavíkur hafa sérstaklega í endurskoðun gjaldskrár sínar með tilliti til þess, að unnt verði að auðvelda rafmagnskaupendum að nýta raforkuna á sem hagkvæmastan hátt. Ég tel engan vafa á því, að aðrar rafmagnsveitur munu fylgja í kjölfarið varðandi slíkar gjaldskrárbreytingar, sem auðvitað eru oft á tíðum forsenda fyrir því, að eðlileg þróun takist að því leyti, að rafmagnið sé nýtt til húsahitunar.

Varðandi seinna atriðið um að reisa minni virkjun í stað þeirra, sem frv. gerir ráð fyrir, en það eru allt að 170 MW virkjanir við Sigöldu og við Hrauneyjafoss í Tungnaá, er það að segja, að gert er ráð fyrir 30 MW virkjun við Efstadal. Í því sambandi vitna ég til áætlana, sem lágu hér fyrir Alþingi, þegar ákveðið var að ráðast í Búrfeilsvirkjun. Ef þær kostnaðaráætlanir eru færðar til verðlags í dag, þá má gera ráð fyrir því, að slík virkjun í Brúará við Efstadal mundi verða 50–70% dýrari á orkueiningu heldur en er gert ráð fyrir í Tungnaárvirkjunum. Auk þess er þá ekki miðað við 30 MW virkjun í Brúará, því hún mundi verða hlutfallslega enn dýrari og óhagkvæmari miðað við hverja orkueiningu, heldur er þar aðeins miðað við 22 MW virkjun í Brúará, en það svarar til 2ja ára þarfar fyrir það orkuveitusvæði, sem Landsvirkjun aflar raforku til. Það er þegar af þeirri ástæðu tjaldað til allt of skamms tíma, ef fara ætti eftir þeirri brtt., sem fyrir liggur á þessu þskj.

Ég tel rétt, að það komi fram, að vonir standa til, að raforkuþörf orkuveitusvæðis Landsvirkjunar aukist meira en reynslan hefur sýnt undanfarin ár. En samkvæmt þeim áætlunum er gert ráð fyrir því, að almenn orkuþörf aukist um 10 MW á ári hverju. Það, sem rennir stoðum undir þessa skoðun, er það, að margs konar áform eru uppi um nýjar iðngreinar og til þess að nefna eitthvað af þvílíkum áformum eða hugleiðingum, þótt ekki sé sérstaklega getið um nýja álbræðslu eða nýja keraröð á vegum ÍSALS, sem mundi þurfa 80 eða 100 MW afl, þá má nefna járnblendingsverksmiðju, sem ýmsir hafa sýnt áhuga á, sem þyrfti 30–100 MW, lenging seinni keraraðarinnar hjá ÍSAL, sem þarfnast 20 MW, olíuhreinsunarstöð þyrfti 8–40 MW, stálbræðsla þyrfti 10–20 MW, málmsteypa 5–10 MW og ýmis nýr iðnaður væri ekki of hátt áætlað, að þyrfti um 10 eða 20 MW. Þar sem gerðar hafa verið ýmsar ráðstafanir svo sem stofnun iðnþróunarsjóðs og annað því um líkt til að styðja að nýjum iðngreinum, þá ætti slík áætlun um raforkuþörf nýs iðnaðar ekki að vera of há. Sjóefnaverksmiðja kemur væntanlega síðar til greina, en loks má nefna einnig þær ráðagerðir, sem uppi hafa verið um þungavatnsframleiðslu, þó þær séu óskýrar að sinni. Og húsahitun er hér verulegur þáttur, eins og ég gat um áðan, en þar er ekki óeðlilegt að gera ráð fyrir, að ef einhver veruleg þróun yrði í aukinni húsahitun með rafmagni, væri þar um 20 eða 40 MW þörf að ræða. Ég tel þess vegna ekki of mikla bjartsýni að gera ráð fyrir þessum stórvirkjunum í Tungnaá miðað við þá raforkuþörf, sem fyrirsjáanleg er. Og ég bendi á það, að hafi menn skilyrðislaust samþ. Búrfellsvirkjanir 1965, þegar um það var að ræða að auka vatnsaflsvirkjanir á orkuveitusvæði Landsvirkjunar úr tæpum 90 MW og upp í 200 MW í fyrri áfanga og 300 MW í seinni áfanga, og þegar litið er á það, að við fyrri áfangann var mikið af þeim kostnaði, sem bundinn var seinni áfanga, nauðsynlegur strax á fyrsta stigi, þá er það ekki of mikil bjartsýni núna með þá raforkuþörf og aukningu á raforkuþörf, sem fyrirsjáanleg er, í huga að auka vatnsaflsvirkjun úr tæpum 300 MW, eins og hún verður orðin á vori 1972 eða áður en í Tungnaárvirkjanir verður ráðizt, í fyrri áfanga í 450 MW eða um 50%. Búrfellsvirkjanir voru þannig 100 til 200% aukning á vatnsaflsvirkjunum, þar sem Tungnaárvirkjun verður 50% aukning á vatnsaflsvirkjun. Ég tel nauðsynlegt að þetta komi skýrt fram.

Þá vil ég, áður en ég lýk máli mínu, ræða nokkuð þær brtt., sem fram hafa komið, varðandi heimild Landsvirkjunar til ráðstafana á vatnasvæðum ofan virkjana sinna. En í því efni ítreka ég ummæli hv. 5. þm. Reykv., þar sem hann tók skýrt fram, að þetta frv., sem nú liggur fyrir Alþ., er engan veginn í tengslum við mannvirkjagerð við Norðlingaöldu og þess vegna í engum tengslum við spurninguna um það, hvernig fara muni fyrir Þjórsárverum. Ég tók eftir því, að eftir fyrri hluta 2. umr. í þessari hv. d., sem ég gat því miður ekki hlýtt á, þá birti dagblaðið Þjóðviljinn frásögn af þeim umr. með þeim hætti að 5 dálka fyrirsögn hljóðaði svo: „Verður Landsvirkjun leyft að drekkja Þjórsárverum?“ Þetta kom spánskt fyrir sjónir, þar sem aðalræðumaður þessa dagblaðs, hv. 6. þm. Reykv., hafði á þskj. 285 gert ráð fyrir, að óbreytt stæði sú heimild í landsvirkjunarlögunum, sem heimilaði Landsvirkjun að gera þær ráðstafanir á vatnasvæðum virkjana sinna, sem nauðsynlegar þykja til að treysta, — tryggja rekstur þeirra á hverjum tíma. Að vísu kemur fram, að hv. 6. þm. Reykv. hafði talið sig ekki hafa tekið eftir því við fyrri umr. málsins, að óbreytt mundi þessi málsgrein, sem hann tekur upp í brtt. sína og hann telur veita Landsvirkjun heimild til mannvirkjagerðar á efra Þjórsársvæðinu. Látum svo vera, þótt hann sé eða hafi verið í vafa um það hvort umrædd lagagrein veiti slíka heimild eða ekki. Og látum svo vera, þótt honum hafi yfirsézt um þetta efni, eins og mér skildist hann sjálfur hafa látið í ljós. En hitt finnst mér öllu merkilegra að leyfa blaði sínu að gera slíkan úlfalda úr þeirri mýflugu, sem raun ber vitni, að birta 5 dálka fyrirsögn á forsíðu, þar sem verið er að reyna að telja lesendum blaðsins trú um, að hér séu voðamenn á ferð, sem bruggi launráð náttúruverðmætum landsins og hagsmunum alþjóðar. Ég vil taka það fram, að það er fjarri öllu lagi, að líta svo á, að þessi heimild í lögum um Landsvirkjun, sem hefur staðið í þeim frá upphafi og er nú í landsvirkjunarlögunum í 6. gr., að hún veiti Landsvirkjun heimild til hvaða mannvirkjagerðar sem er á svæðum ofan virkjana sinna. Það er skýrt tekið fram, bæði í hinum upprunalegu lögum og í því frv., sem fyrir liggur, að þessi heimild er takmörkuð við nauðsynlegar aðgerðir til þess að tryggja rekstur þessara virkjana á hverjum tíma. Og það er ljóst mál, að engin mannvirki við Norðlingaöldu eða á efra Þjórsársvæðinu eru nauðsynleg til að tryggja rekstur núverandi Búrfellsvirkjunar. Í öðru lagi gerir svo frv. það, sem hér er til umr., ráð fyrir því, að þróun orkuöflunar færist yfir á Tungnaársvæðið, þannig að gera má ráð fyrir því, að mannvirkjagerð á efra Þjórsársvæði frestist um allmörg ár, jafnvel þennan áratug. Og loks er svo þess að geta, að það er skýrt tekið fram í því frv., sem fyrir liggur, að ábyrgðarheimildir og lánsheimildir eru takmarkaðar við Þórisvatnsmiðlun og Köldukvíslarstíflugerð, svo og aðra þá virkjun í Tungnaá, sem heimild er veitt til með þessum lögum, þ.e.a.s. annaðhvort virkjunar við Hrauneyjafoss eða virkjunar við Sigöldu. En ljóst er, að mannvirkjagerð á efra Þjórsársvæðinu, sem drekkir Þjórsárverum, er langtum stórfenglegra mannvirki en svo, að ekki þurfi til að koma heimild Alþingis,. þó ekki væri nema að því er snertir lánsheimild og ábyrgðarheimild, til þess að ráðast í slíkt mannvirki, þannig að hér er verið bersýnilega af mikilli málefnafátækt að gera úlfalda úr mýflugu.

Hv. 5. þm. Reykv. gerði grein fyrir brtt. á þskj. 679 og tók það skýrt fram, að að hans áliti væri fyrirliggjandi frv. ekki á þann veg háttað, að það snerti á nokkurn hátt hættuna á, að Þjórsárver væru að einu eða neinu leyti skert, en samt sem áður taldi hann rétt að bera fram brtt., sem fram kæmi á þskj. 679. Ég tek það fram með tilvísun til þess, sem ég hér hef áður sagt, að ég tel þessa brtt. að vísu ónauðsynlega, en þar sem hún er skaðlaus og breytir efni málsins ekki að einu né neinu leyti þá er engin ástæða til annars en fallast á hana, að vísu með þeirri breytingu, sem ég hef lagt til að á henni yrði gerð og er á þá leið, að heimild Landsvirkjunar taki einnig til þess hluta vatnasvæða ofan Búrfellsvirkjunar í Þjórsá, sem er að ármótum Tungnaár og Þjórsár og frá þeim ármótum að Hrauneyjafossi og síðan, eins og hin brtt. raunar gerir ráð fyrir, svæðunum ofar við Tungnaá. Þetta er nauðsynlegt, þar sem verið getur, að Landsvirkjun þurfi, til þess að minnka yfirborð árinnar og draga úr kælifleti hennar, að stífla kvíslar og setja garða út í Þjórsá og Tungnaá á þessu svæði milli Búrfellsvirkjunar og Tungnaárvirkjunar. Vænti ég þess fastlega, að hv. þm. geti fallizt á þá brtt.

Ég endurtek: Ég tel ekki þessa brtt. nauðsynlega, en hún er skaðlaus, breytir ekki efni þess frv., sem fyrir liggur, ef mín brtt. nær fram að ganga, sem ég vænti að verði, en á hinn bóginn hlýt ég að lýsa undrun minni á málsmeðferð hv. 6. þm. Reykv., ef trúa má blaði hans, því slík gífuryrði eru ekki til annars fallin heldur en að lýsa málefnafátækt hv. stjórnarandstöðu og rifja um leið upp andstöðu hv. stjórnarandstöðu við stórvirkjanaleið í raforkumálum, sem Alþ. valdi þegar á árinu 1965 og sem ég vænti, að Alþ. staðfesti og ítreki með samþykkt þessa frv.