03.04.1971
Neðri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1625 í B-deild Alþingistíðinda. (1658)

10. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Þetta frv. er að minni hyggju eitt stærsta málið, sem nú liggur fyrir Alþ., og því tel ég miklu máli skipta, að alþm. hafi sem gleggsta vitneskju. um þetta mál, áður en það verður endanlega afgr. Á það finnst mér nokkuð skorta ennþá. Að vísu vænti ég þess, að hv. iðnn. hafi fjallað mjög gaumgæfilega um málið og hafi fengið þar margvíslega vitneskju, en hún hefur þá legið á þeirri vitneskju gagnvart okkur óbreyttum þm. Þegar málið kom hér til annarrar umr. og umr. hófst, þá var hæstv. iðnrh. ekki staddur á fundi, og því fórum við fram á það nokkrir þm., að umr. yrði frestað þar til hæstv. ráðh. hefði tök á að vera hér, og hann er staddur hér núna og ég hafði hug á því að biðja hann um nokkrar viðbótarupplýsingar.

Það, sem fyrir mér vakir, er ekki virkjanirnar sjálfar í Tungnaá, ég held að um þær séu aðstæður svo ljósar, að mjög auðvelt sé fyrir þm. að meta þær í sjálfu sér, en það, sem máli skiptir, er vitneskja um það, hvað á að gera við þá miklu raforku, sem þarna yrði framleidd. Í sjálfu sér er það tilgangslítið að taka ákvörðun um stórvirkjun án þess að vita um leið, hvað gera skal við raforkuna. Því það er sú raunverulega ákvörðun, sem verið er að taka, hvernig á að nýta þessa miklu orku. Og því vildi ég mjög gjarnan beina því til hæstv. ráðh., að hann skýrði Alþ. frá því, hvaða hugmyndir eru uppi um það atriði innan hæstv. ríkisstj. Um það hafa heyrzt lausafregnir eða mjög almenn ummæli, að hæstv. ríkisstj. stæði í undirbúningsathugunum við ýmsa erlenda aðila um að kaupa raforku frá þessum nýju stórvirkjunum og koma upp stórum verksmiðjum til þess að nýta þessa orku. Ég mundi telja það algerlega nauðsynlegt, að hæstv. ráðh. greindi frá því hér á þ., hvernig þau mál standa, hversu langt slíkir samningar eru komnir, hvaða líkur eru á því að þar nái endar saman, hvaða verð sé verið að ræða um, hversu hátt verð á kw erlendir aðilar hugsanlega muni greiða. Ég tel víst, að hæstv. ríkisstj. hafi um þetta talsverða vitneskju nú þegar, fyrst hún leggur áherzlu á, að ákvarðanir um þessar virkjanir verði teknar nú, því hún hefur marglýst því yfir, að hennar hugmyndir um stórvirkjanir séu einmitt tengdar slíkum viðskiptum. Það hefur oft komið fram, að vandi okkar Íslendinga í sambandi við stórvirkjanir sé einmitt þessi að finna markað fyrir þá miklu raforku, sem framleidd er. Nú er það hins vegar svo, að innanlands er slíkur markaður til, og það er að nota raforkuna til húsahitunar. Eins og nú standa sakir, þá er um það bil helmingur húsakynna á Íslandi hitaður upp með olíu og til þess þarf orku, sem nemur um það bil 1000 GWst. Þetta er mjög stór markaður. önnur þessi stórvirkjun í Tungnaá framleiðir 800–900 GWst. þ.e.a.s. minna orkumagn en við notum nú þegar með því að kaupa olíu og kynda upp húsakynni okkar. Þannig er þarna markaður, sem nægir til að kaupa alla orku frá annarri þessari stórvirkjun í Tungnaá. Og þetta er mjög hagkvæmur markaður. Olían, sem notuð er til húsahitunar, er mjög dýr og það er hægt að nota raforku, án þess að það auki tilkostnað manna, þó að kw.-stundin sé seld á meira en Í kr. Fyrir þessu hefur Gísli Jónsson, framkvæmdastjóri Sambands ísl. rafveitna, gert skýra grein, og hann hefur komizt að þessari niðurstöðu. En það þýðir það, að þessi markaður getur greitt fjórum til fimm sinnum meira en álbræðslan greiðir fyrir raforku um þessar mundir. Þannig, að þarna er einnig um að ræða mjög hagkvæm viðskipti. Og þarna er einnig um að ræða gjaldeyri, vegna þess að við verðum að greiða gjaldeyri fyrir olíuna. Við þetta bætist það, að notkun raforku til húsahitunar er mjög vaxandi í löndunum umhverfis okkur, vegna þess að hún þykir hagkvæm af mörgum ástæðum. Og hún þykir mjög þægileg fyrir neytandann.

Hér er á Íslandi ákaflega mikill áhugi fyrir þessu máli, eins og fram hefur komið á þessu þ. í þáltill., sem samþ. hefur verið, og raunar yfirlýsingu frá hæstv. iðnrh. Ég hef ásamt hv. þm. Lúðvík Jósefssyni lagt fram till. um þetta efni, að áform um að nota raforku til húsahitunar verði tengd heimildinni til nýrra stórvirkjana í Tungnaá. Að þarna verði gert samhengi í milli. Að Alþ. lýsi sem sé yfir þeirri stefnu af sinni hálfu, að æskilegt sé að nota orkuna á þennan hátt. Við lögðum þessa till. fram skömmu eftir að frv. kom til okkar hér í Nd., og hugmynd okkar með því var sú, að hv. n., sem um málið fjallaði, hún fjallaði einnig um þetta atriði, vegna þess að þetta atriði er ákaflega veigamikið. Þetta gerði n. því miður ekki. Hins vegar held ég, að hæstv. ríkisstj. hljóti að hafa velt þessu atriði fyrir sér einnig. Og því þætti mér mjög forvitnilegt, ef hæstv. ráðh. vildi skýra frá afstöðu ríkisstj. til þessarar hugmyndar einnig, hvort hæstv. ríkisstj. sé nokkuð á móti því, að þessu atriði verði bætt inn í frv.

Við bættum einnig öðru atriði inn í brtt. okkar, við hv. þm. Lúðvík Jósefsson, það var að bæta við heimild til minni virkjunar, ef ekki tækist nægilega snemma að tryggja eðlilegt samhengi milli orkuframleiðslu frá stórvirkjunum og orkunotkunar, sem er náttúrlega grundvallaratriði. Ef slíkt tækist ekki þá lögðum við til, að ríkisstj. hefði heimild til að ráðast í smærri virkjun, til að tryggja sér lengri tíma og við bentum þar á raforkuver í Brúará við Efstadal. Nú vil ég taka það skýrt fram, að þó þessi staður væri nefndur af okkar hálfu þá felst það ekki í því, að við teljum okkur hafa nokkra örugga vissu um það, að þessi staður sé í sjálfu sér betri en aðrir staðir til slíkrar framleiðslu, við viljum aðeins benda á þennan möguleika. Þarna eru fleiri möguleikar til, t.d. varaaflsvirkjunin í Hveragerði, sem ekki hefur verið undirbúin verulega, þó það gæti verið fróðlegt af ýmsum ástæðum. En þegar við bárum þessar till. fram, þá ætluðumst við einnig til að þessi hugmynd yrði athuguð, og ef mönnum litist betur á aðra kosti þá erum við að sjálfsögðu til viðtals um það. Hins vegar er hin till., um að tengja þessar stórvirkjanir við áform og framkvæmdir í sambandi við hitun húsa það langsamlega meginatriði í okkar till. Og að minni hyggju er sú till. mikið stórmál.

Hv. þm. Geir Hallgrímsson flutti hér ræðu í gær og gerði þar aths. við það, sem ég benti á hér á dögunum, að heimild sú, sem gert er ráð fyrir í frv. til ráðstafana á vatnasvæðum ofan virkjana Landsvirkjunar þ.e.a.s. bæði í Þjórsá og Tungnaá, hún væri svo viðtæk, að hún næði til vatnasvæðisins ofar Búrfellsvirkjun og uppúr. Ég benti á þetta, að mér fyndist það óeðlilegt að hafa þessa heimild svona rúma, ég tók það fram, að ég teldi mjög ólíklegt, að það hefði vakað fyrir hæstv. ríkisstj. að tryggja svo rúma heimild og beindi því raunar til hennar, að ég legði til, að hún breytti sjálf orðalagi á þessu, til þess að það næði aðeins til þess svæðis, sem þarna væri um að ræða næst virkjununum. Hv. þm., Geir Hallgrímsson, hann taldi, að þessi túlkun mín væri ástæðulaus og byggð á misskilningi og hafði um það fleiri orð, sem ég hirði ekki að rekja, enda er það gersamlega ástæðulaust, því þessi sami hv. þm. hefur fallizt á þetta sjónarmið með því að flytja sjálfur brtt. um að takmarka þessa heimild einmitt við þetta svæði, hann hefur fallizt gersamlega á það sjónarmið, að rétt sé að orða heimildina þannig, að ekki fari milli mála, að hún eigi þar aðeins við svæðið næst virkjununum og hefur þannig fallizt á sjónarmið mitt. Og ég kom með aths. mína til þess að koma þessu sjónarmiði á framfæri, og þegar á það er fallizt er ástæðulaust að hafa um það frekari deilur. Hins vegar kryddaði þessi hv. þm. mál sitt með ýmsum almennum aths. um það, að stjórnarflokkarnir væru stórhuga í virkjunarmálum, en við stjórnarandstæðingar vildum lúta að minnu. Ég ætla ekki hér að fara út í neinar almennar umr. um þetta mál og mun ekki gera það í löngu máli, en ég get ekki á mér setið að mótmæla gjörsamlega þessari staðhæfingu, því hún stangast gersamlega á við staðreyndir. Það er ekki stórhugur í virkjunarmálum að ráðast í virkjanir í því skyni að selja orkuna erlendum aðilum sem hráorku á verði, sem er svo lágt, að það stendur ekki undir tilkostnaði, nema stöðvarnar séu afskrifaðar á ákaflega löngum tíma. Þetta er ekki stórhugur, þetta er að lúta að lágu. Okkar afstaða er sú, að við eigum að nýta orkulindir okkar í þágu íslenzku þjóðarinnar sjálfrar. Og það verði að vera samhengi á milli orkuvinnslu og orkunotkunar í landinu, að við tryggjum þjóðfélagi okkar hámarksarð af þeirri orku, sem við getum framleitt. Þetta er miklu stærra viðhorf í virkjunarmálum heldur en viðhorf hæstv. ríkisstj.

En sem sagt, erindi mitt hingað í dag var fyrst og fremst, eins og ég gat í upphafi, að ég hafði hug á því að biðja hæstv. iðnrh. að flytja hér skýrslu um það, hverjar eru hugmyndir hæstv. ríkisstj. um það, hvernig eigi að hagnýta orkuna frá hinum nýju stórvirkjunum, og enn fremur, hvort hæstv. ríkisstj. sér nokkuð athugavert við, að í frv. verði bætt þessu ákvæði um að stefnt skuli að því að nota sem mest af þessari orku til húsahitunar á Íslandi.