03.04.1971
Neðri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1629 í B-deild Alþingistíðinda. (1659)

10. mál, Landsvirkjun

Forsrh. (Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja umr., en út af ræðu hv. 6. þm. Reykv. vil ég segja það, að það hefði náttúrlega verið æskilegra, — ég get fallizt á það með honum, — að n., sem hafði málið til meðferðar, hefði tekið til athugunar þau atriði, sem komu fram í brtt., sem snemma voru fluttar. En ég vek líka athygli á því, að þetta er eitt af fyrstu þingmálunum, sem lagt er hér fram, og þó svo væri, að ég væri ekki viðstaddur 2. umr., þá hefði náttúrlega verið miklu æskilegra að fá þessar fsp. fyrr, sem hv. þm. beindi til mín, að hann hefði spurt fyrr um þessa hluti, ef hann óskar eftir því sérstaklega, að þeir séu vandlega upplýstir í þ. Hér er um sérfræðileg mál að ræða, sem ég út af fyrir sig geng nú ekki með upp á vasann, ýmsar upplýsingar, sem innt er eftir.

En ég skal aðeins víkja að þeim spurningum nokkrum, sem hann nefndi, og þá var það fyrst, til hvers orkan ætti að vera notuð. Það er margt, sem kemur þar til álita, og okkar almenna orkuþörf sjálf, sem okkur þm. er sjálfsagt kunnugt um, er mjög vaxandi yfirleitt og þarf að sjá fyrir verulegri endurnýjun orkunnar af þeim sökum einum, það er ýmiss konar iðnþróun, sem til umr. hefur verið og gæti orðið frekar til umr. og ákvörðunar, þegar fyrir lægi, hvenær við teldum að við gætum haft svo og svo mikla orku fyrir hendi og á hvaða verði við gætum endanlega selt hana. Í því sambandi — ég veit ekki, hvort það hefur áður komið inn í umr., þá nefni ég það, að ég hef lengi talið fyrir mitt leyti sennilegt, að um lengingu seinni keraraðarinnar hjá ÍSAL yrði samið á síðara stigi málsins eins og gert var með breyt. á l. eða samningnum við ÍSAL eða Alusuisse, um lengingu fyrri keraskálans frá upphaflegrí ráðagerð. Við þá lengingu bættust við 40 ker 20 MW. Það mundi þá verða, ef af lengingu yrði, um 20 MW orku að ræða og skálarnir yrðu þar al leiðandi jafnlangir báðir, sem sennilega er hagkvæmara fyrir fyrirtækið og kynni að verða hagkvæmara fyrir okkur. Það hefur hins vegar ekki verið rætt neitt um þetta enn þá, þannig hefur verið á s.l. ári, að ekki hefur verið mikill áhugi hjá álbræðslunum eða fyrirtækjunum fyrir aukningu, ál mun hafa lækkað á heimsmarkaðinum síðari hluta ársins og það hefur strax sín áhrif, sumar verksmiðjur í Bandaríkjunum drógu saman seglin, elnstaka lokuðu. Eftir því sem ég bezt veit, þó ég hafi nú ekki nánari upplýsingar, eru horfur í þessu efni betri nú og allt hefur það áhrif á það, hvaða áhuga viðkomandi aðilar hafa fyrir að lengja þessa keraröð og einnig, hvernig okkar aðstaða er til þess. Ef verður af olíuhreinsunarstöð, þá verður að vísu of lítil orka, ef aðeins verður reist lítil olíuhreinsunarstöð fyrir okkur hér á landi, en hugmyndir hafa komið upp og það nýlega hjá sumum aðilum að gerast þátttakendur í að reisa miklu stærri olíuhreinsunarstöð, málið er alveg ókannað, vegna þess að það er svo nýlega til komið, að ég teldi eðlilegt, að það mál færi í hendur þeirrar stjórnar, sem kosin yrði fyrir því undirbúningsfélagi, sem l. hafa verið afgreidd um frá Alþ. En þar gæti verið um að ræða orku frá 8 MW og allt upp í 40 MW, en þetta er algerlega óvitað og gersamlega á frumstigi, því ef stór stöð yrði reist hér, þá yrði það ekki öðruvísi en í samvinnu við aðila, sem gæti tryggt hráefni og markað fyrir framleiðslu stöðvarinnar.

Stálbræðslufyrirtæki hefur lengi verið talað um hér, allt frá árinu 1960 var hér sérfræðingur, sem starfaði á vegum Iðnaðarmálastofnunar Íslands, og síðar hefur Iðnaðarmálastofnun Íslands sjálf endurskoðað áætlanir um stálbræðslu og nú er svo komið, að það er búið að stofna hér eða a.m.k. að mestu leyti stálbræðslufyrirtæki og þar gæti verið um að ræða orku hjá slíku fyrirtæki 10–20 MW.

Það hefur verið talað um málmsteypur, sem menn hafa heyrt um á opinberum vettvangi, t.d. álsteypur eða álvinnslu, sem framleiða vissa hluta í vélar, bíla o.s.frv. Það var minnzt á General Motors hér í blöðum í vetur. Ég hygg, að þeir hafi nú sett sig niður, þeir aðilar, sem séu um það bil að gera samninga við Norðmenn. Aðrir aðilar hafa sýnt áhuga hér, en það er á slíku frumstigi, að ég skal ekki gera það frekar að umtalsefni. Það gæti verið um að ræða 5–10 MW.

Ýmis nýr iðnaður, sem er að þróast hér, hefur sennilega á næstu árum verulega þörf í sambandi við tímabil það, sem þessar heimildir, sem hér er um að ræða, kynnu að koma til framkvæmda á, yrði það áætlað aldrei innan við 10–20 MW. Við vitum um sjóefnavinnsluna. Það er svo óráðið mál, að ekki er hægt að gera sér grein fyrir, hvort af henni verður eða hvenær það yrði. Þungavatnsframleiðslu höfum við verið að athuga, möguleika á þungavatnsframleiðslu í sambandi við erlenda aðila, það eru aðallega Kanadamenn. Þeir tryggja sölumarkað fyrir þungavatn, sem yrði þá framleitt hérna, af því að það reyndist ódýrara úr hveravatninu, heldur en þar sem slíku er ekki til að dreifa, en þetta er flókið mál og erfitt viðureignar og það má segja, að það liggi nokkuð í láginni elns og er og sé ekki á næstunni líklegt, að við gætum fengið öruggan markað fyrir þungavatnsframleiðslu hér, en hins vegar kynni það að skipast fljótt og breytast. Málið hefur verið rannsakað af Rannsóknaráði ríkisins. Við höfum látið sérfræðing rannsaka það hér og hans athuganir benda til hagkvæmni á þessu sviði. Þær athuganir hafa verið yfirfarnar af erlendum sérfræðingum, sem telja þær góðar og gegnar út af fyrir sig sem fyrstu athugun, en í raun og veru yrði alls ekki hægt að ráðast í þetta fyrirtæki, held ég, að áliti sérfræðinga, nema stofnað væri til rannsóknar, við skulum segja hagkvæmnisáætlunar, sem þyrfti að vera það nákvæm, að hún kynni að kosta yfir 8 millj. kr., eftir því sem áætlað var, og við höfum ekki talið tímabært að leggja fé í hana enn, meðan jafnmikil óvissa er á markaðinum. Þar er um töluverða orkuþörf að ræða.

Um húsahitunina, sem var nú aðaláhugamál hv. 6. þm. Reykv. og sem ég svaraði fsp. um í vetur hér í þinginu, er það að segja, að þar gerði ég grein fyrir því, að það mál er í könnun hjá Orkustofnun einmitt sérstaklega, húsahitun bæði í þéttbýli og dreifbýli. Orkustofnun hefur það mál með höndum og ég tel alveg ástæðulaust að setja inn í lög um Landsvirkjun, að Landsvirkjun skuli sérstaklega taka það mál til athugunar. Það leiðir af sjálfu sér, að ef niðurstöður Orkustofnunar að þessu leyti leiða til þess, að unnt væri með hagkvæmni að kaupa raforku af Landsvirkjun til húsahitunar, þá ætti ekki að standa á henni.

Hún fylgist stöðugt, Landsvirkjun, með öllum niðurstöðum þessarar rannsóknar hjá Orkustofnun. Ég mun leggja kapp á það og sagði það hér í fsp.-tíma á Alþ., að mér hefði fundizt þetta ganga of seint og hef síðar látið ýta eftir því hjá rn., að meiri hraði verði á þessari rannsókn, og ég kappkostaði að gera mér grein fyrir því, því að ég er sammála hv. 6. þm. Reykv. um það, að húsahitunin er mjög verulegt atriði. Það er náttúrlega fyrst og fremst, sem raforkan hér hjá okkur kynni að keppa þar við aðra orku, varmaorkuna, jarðvarmann, sem væri ódýrari, en ef hún ætti bara að keppa við olíuna, þá er auðvitað aðstaðan önnur.

Þetta eru heimildarlög, sem hér er um að ræða, og það fer auðvitað eftir því, hvernig málin þróast, hve mikill hraði yrði hafður í þessum málum. T.d. eru þetta nú í fyrsta lagi tveir áfangar, alveg aðskildir áfangar um Sigölduvirkjunina og Hrauneyjafossinn og bilið á milli áfanganna mundi ráðast einmitt af því, hvernig þróun mála verður, en auðvitað hefði ég með ánægju getað gefið miklu ýtarlegri grg. um slíkt, hefði ég vitað, að sérstaklega væri spurt eftir því með því að fá nánari upplýsingar um það frá sérfræðingum, sem að þessu vinna. En það eru að vísu upplýsingar, sem þm. sjálfir hefðu í raun og veru allan þingtímann frá því í október haft aðgang að. Þeir vita það ósköp vel, að ef þeim leikur forvitni á að fá nánari upplýsingar í sérfræðilegum málum, sem snerta þingmál, sem ríkisstj. flytur og heyra undir vissar stofnanir, þá eru rn. ævinlega reiðubúin til þess, að hinar sérfræðilegu stofnanir láti þeim í té þær upplýsingar, nánustu upplýsingar, sem fyrir liggja, og það hef ég margoft tekið fram í mörgum tilfellum svipuðum þessu. Ég vona þess vegna, að þetta þurfi ekki að verða til þess að tefja málið, en mér finnst það, eins og ég sagði í upphafi, að n. hefði náttúrlega eðlilega getað fengið allar þessar upplýsingar. Það má segja, að hún hefði átt að gera það, sérstaklega þar sem tilefni var gefið til þess.

Að öðru leyti skal ég nú ekki fara út í málið um raforkusölu til erlendra aðila o.s.frv., það er nú svo margrætt mál á milli þessa hv. þm. og mín, en Búrfellsvirkjunin, sem selur raforkuna til álversins, hefði bara engan veginn getað verið eins og hún er nema hún öðrum þræði hefði byggt á raforkusölusamningi við mikinn orkuneytanda, sem er álbræðslan. Og þess vegna, vegna þess samnings getur rafmagnið frá Búrfellsvirkjun orðið ódýrara og það verulega ódýrara fyrir okkur Íslendinga heldur en ella mundi vera. Þess vegna er það svo augljós staðreynd, að í slíkum tilfellum, þegar við getum sameinað sölu til erlendra aðila og okkar eigin þörf á þeim grundvelli, verður orkan miklu ódýrari fyrir okkur heldur en ella, vegna sölunnar til hinna erlendu aðila, þá er það mikilvægt að gera það út af fyrir sig og þó að sleppt sé öðru hagræði, sem við höfum af sjálfum iðnaðarfyrirtækjunum, sem ég skal ekki lengja tímann með að fara út í nú.