03.04.1971
Neðri deild: 85. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1638 í B-deild Alþingistíðinda. (1663)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Hæstv. ráðh. gerir nú að umræðuefni brtt. þær, sem minni hl. iðnn. mælir með á þskj. 323. Vissulega get ég verið ánægður með það, sem hæstv. ráðh. sagði síðast í sinni ræðu, þar sem hann lét í ljós, að í rauninni greindi hann ekki efnislega á við okkur flm. um nokkur meginatriði till., og þessu hafði ég raunar búizt við, að hann greindi ekki efnislega á um nokkur helztu atriði till. Hins vegar segist hæstv. ráðh. ekki vera tilbúinn til að styðja till. að þessu sinni, þ.e.a.s. að hafa forystu í málinu, og auðvitað veldur það mér nokkrum vonbrigðum, að hann skuli ekki vilja hafa þessa forystu.

Ég skal aðeins víkja að örfáum atriðum, sem hæstv. ráðh. drap á í þessu sambandi og felst í brtt. Hann sagði m.a., að það væri eðlilegt, að sérfræðistofnanir gerðu áætlanir um virkjanir og þá fyrst yrðu virkjanir heimilaðar, þegar slíkar áætlanir lægju fyrir. Það er að vísu svo, að ýmsar virkjunarheimildir hefur borið að með þessum hætti og er ekki óeðlilegt, að fyrir hafa legið áætlanir sérfræðinga um virkjun, en þær áætlanir hafa verið á mjög mismunandi stigum og ég minnist þess t.d., að sumar virkjunarheimildirnar, sem samþykktar voru fyrir um það bil 10–15 árum, voru samþykktar, án þess að ýtarlegar athuganir hefðu farið fram, en þegar um er að ræða hinar fyrirhuguðu virkjanir í Tungnaá og t.d. Dettifossvirkjunina, sem lá fyrir í till. okkar, þá held ég að megi segja, að á öllum þessum stöðum liggi fyrir rannsóknir. En ég efast um, að þær rannsóknir, sem farið höfðu fram við Tungnaá, þegar þetta frv. var lagt fyrir, hafi verið meiri eða ýtarlegri en rannsóknirnar, sem farið hafa fram við Dettifoss. Í grg. frv. sjálfs er þannig að orði komizt, að mig minnir, eða a.m.k. kom það fram snemma við meðferð þessa máls, að ekki væri hægt að ákveða að svo stöddu, hvor virkjunin yrði reist fyrr, Hrauneyjafossvirkjun eða Sigölduvirkjun. Og það stafaði af því, að samanburðarrannsóknum á þessum virkjunum var ekki það langt komið, að það væri talið rétt að gera þarna upp á milli. Hins vegar hlýtur hæstv. ráðh. að muna það og það gerðist fyrir 5–6 árum, af því að hann var forystumaður í nefnd, sem fjallaði þá um stórvirkjanir og stóriðju, að þá lágu fyrir mjög ýtarlegar rannsóknir á virkjun Dettifoss og áætlanir um Dettifossvirkjun og meira en áætlanir, það lágu einnig fyrir útreikningar á væntanlegu orkuverði pr. kw.-stund frá Dettifossvirkjun og var þá gert ráð fyrir í þeim áætlunum, að orkan yrði flutt vestur til Eyjafjarðar. Sú áætlun var það langt komin, að verkfræðingar töldu sig geta reiknað út verðið pr. kw.-stund á orkuverði frá Dettifossi og borið það saman við orku frá Búrfellsvirkjun. Og á grundvelli þessara útreikninga var sá úrskurður kveðinn upp af raforkumálastjórninni, að Búrfellsvirkjun væri hagstæðari. Áætlanirnar, sem höfðu verið gerðar um Dettifoss, voru þetta ýtarlegar, að það var talið fært á grundvelli þeirra að gera svona samanburð og ákvörðun. Það voru ekki eingöngu íslenzkir verkfræðingar, sem fjölluðu um Dettifossvirkjun og áætlanirnar þar, heldur var það einnig verkfræðifirma í New York, sem fjallað hefur um íslenzkar stórvirkjanir, Harza Engineering Company, sem einnig gerði slíka áætlun, og því var þá lýst yfir af hálfu þessa verkfræðifirma, sem hefur nú verið tekið mjög alvarlega af raforkumálastjórninni hér á landi og það sjálfsagt með réttu, að virkjun við Dettifoss væri hagstæðasta virkjunin norðanlands. Hún væri mjög álitleg til framleiðslu á raforku með stóriðju fyrir augum, t.d. alúminíumvinnslu. Ég hef að vísu ekki séð þessi ummæli nema í skýrslu á ensku, en merkingin var þessi. Það er þess vegna alveg fjarri lagi, ef á að halda því fram, að með því að leggja það til, að veitt sé heimild til að virkja Dettifoss, þá sé verið að veita heimild til að framkvæma virkjun þar sem ekki sé búið að rannsaka skilyrðin til framkvæmda. Því fer svo víðs fjarri, að það sé rétt. Það er mesti misskilningur, ef því er haldið fram. Hitt er svo annað mál, að nú s.l. tvö ár eða svo virðist Orkustofnun ekki hafa haft verulegan áhuga fyrir Dettifossi og á því eru skýringar, sem allir þekkja, sem er, að það hafa komið upp hugmyndir um það að veita Jökulsá á Fjöllum austur á land og safna saman vatninu úr henni ásamt fleiri stöðum í miklu falli niður í Fljótsdal á Héraði, reisa þar stærstu virkjun á Íslandi og ef til vill í Evrópu, sem myndi hafa aðstöðu til að framleiða raforku fyrir svo sem 15 alúminíumverksmiðjur, og verkfræðingar og sérstaklega jarðfræðingar virðast hafa haft nokkuð mikinn áhuga fyrir þessari hugmynd. En rannsóknir við Dettifoss hafa engar farið fram á vettvangi a.m.k. síðan á árunum 1962–1963, þegar Dettifossáætlunin var gerð og endurskoðuð af Harza.

Um Skjálfandafljót við Íshólsvatn má segja það, að þar hafi ekki farið fram rannsóknir á borð við þær, sem gerðar hafa verið við Dettifoss, og kannske ekki heldur á borð við þær, sem gerðar hafa verið við Tungnaá, en nokkrar athuganir hafa farið fram á virkjunarmöguleikum þarna, það miklar, að fróðir menn um raforkumál hafa talið sér fært að bera hugsanlegt orkuverð við Skjálfandafljót saman við orkuverð frá öðrum virkjunum. Áætlanir hafa verið gerðar um þessa virkjun, en það er alveg rétt, að þær eru ekki eins langt komnar eins og áætlanirnar við Dettifoss voru. Hins vegar hefur verið sums staðar á Norðurlandi mikill áhugi fyrir því, að gengið væri úr skugga um það, hvaða möguleikar væru til þess að virkja þetta fallvatn og, að það yrði gert, ef álitið væri að möguleikar væru fyrir hendi, og mér finnst, að alveg eins og það er ekki alveg ákveðið af forystumönnum Landsvirkjunar í öndverðu, hvort virkja skuli við Hrauneyjafoss eða Sigöldu, þá megi eins vera heimildir til að velja um kosti á Norðurlandi.

Hæstv. ráðh. lét líka jákvæð ummæli falla um tengingu raforkukerfanna, en sagði, að eins og sakir stæðu væru ekki skilyrði til þess að tengja saman raforku sunnanlands og norðan. Ég veit ekki alveg, hvað hæstv. ráðh. hefur átt við með þessu. Í brtt. á þskj. 323 eru engin fyrirmæli um það, að slík tenging skuli fara fram nú þegar við gildistöku laganna, heldur að Landsvirkjun verði gert skylt að framkvæma hana á sinn kostnað, þegar ráðherra raforkumála ákveður að svo skuli vera og það mundi hann að sjálfsögðu ekki gera fyrr en rannsókn hefði sýnt, að tengingarskilyrði væru fyrir hendi. En það er þó nokkuð síðan farið var að ræða um þessa línu yfir hálendið. Það var mikið um hana rætt árin 1965 og 1966, en þá var enn ekki búið að ákveða álverksmiðjunni stað í Straumsvík. Þá var allmikið um það rætt, að það kæmi vel til mála, að verksmiðja þessi yrði á Norðurlandi og hagnýtti orkuna frá Búrfellsvirkjun, og það var vitanlega ekki hægt öðruvísi en að leggja línu yfir hálendið norður. Hitt er svo rétt, að ekki höfðu þá verið gerðar neinar áætlanir um þetta, enda hafði ég aldrei trú á því að það væri mikill áhugi fyrir þessari tengingu eða verksmiðju á Norðurlandi, en það er a.m.k. svo, að þetta þarf ekki að koma mönnum neitt á óvart, þó um það sé rætt. Og þegar forstöðumenn Landsvirkjunar komu til okkar í iðnn. þá voru þeir m.a. spurðir um það, hvað slík lína norður yfir mundi kosta. Þeir töldu sig ekki geta gefið ákveðin svör um það, en eins og í nál. minni hl. segir, þá töldu þeir líklegt, að um 200 km lína, sem hefði 50 MW flutningsgetu, mundi kosta um 250 millj. kr. á núverandi verðlagi, og ef hún hefði 100 MW flutningsgetu eða helmingi meira, þá mundi hún kosta um 50% meira. Nokkuð hafa menn því hugsað um þessa leið. En ég játa það, að skilyrðin til að framkvæma þessa tengingu eru að því leyti ekki fyrir hendi, að það hafa ekki farið fram nægjanlegar rannsóknir til að byggja framkvæmdir á. En í brtt. er heldur ekki gert ráð fyrir því, að þetta verði gert fyrr en sá grundvöllur er fyrir hendi, að ráðh. geti tekið um það ákvörðun.

Hæstv. ráðh. sagðist ekki telja þörf á n. til þess að endurskoða gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu raforku og um jöfnunarverð á raforku. Ég held nú þvert á móti, að svona ráðstafanir sé ekki hægt að gera, nema þær hafi verið vandlega athugaðar í n., og það komi ekki annað til greina, hvorki nú né síðar, og till. nr. 4 b á þskj. 323 er í raun og veru stefnuyfirlýsing af hálfu Alþ. um það, að skipulagi Landsvirkjunar verði breytt, hún verði raunveruleg landsvirkjun, eins og hæstv. ráðh. sagði, að hún ætti að vera og ég er honum sammála um, og endurskoða skuli gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu raforku, og yfirlýsing Alþ. um það, að það vilji láta vinna að því, að allir landsmenn sitji við sama borð, að þeir geti fengið keypta raforku á sama verði til sömu nota, hvar sem þeir eru búsettir á landinu, eins og tíðkast t.d. í Bretlandi. Það, sem í b-lið 4. till. felst, er í raun og veru till. um slíka stefnuyfirlýsingu, og ég tel, að tíminn til þess að gefa þessa stefnuyfirlýsingu hann sé nú, þegar verið er að veita virkjunarfyrirtækinu Landsvirkjun stórkostlegar heimildir til nýrra virkjana, sem gera þetta fyrirtæki að risafyrirtæki á sviði raforkumála. Ég álít, að rétti tíminn til þess að gefa þessa yfirlýsingu sé nú, því það á ekki að koma fyrirtækinu á óvart síðar, að Alþ. hafi þessa stefnu í þessum málum. En ég tel ekki, að það sé hægt að breyta skipulagi Landsvirkjunar, að því er eignarumráð snertir og slíkt, nema að á því hafi farið fram rannsókn og um það hafi farið fram viðræður milli ríkisvaldsins og Landsvirkjunar, en Landsvirkjun er sameignarfyrirtæki. Og ég tel, að það að koma á því fyrirkomulagi, að raforka verði seld jöfnu verði um allt land, það sé það vandasamt og því alveg óhjákvæmilegt, að nefnd sé falið að gera till. um leiðir í því efni, og ákvörðun ríkisins um þær sé nátengd þessum miklu virkjunarframkvæmdum.

Með þessum orðum hef ég viljað skýra nánar fyrir hæstv. ráðh. og hv. þm., hvað fyrir okkur vakir með till. á þskj. 323 og færa rök að því, að ef það er svo, að hæstv. ráðh. greini ekki í meginatriðum efnislega á við okkur um stefnuna í þessum efnum, þá geri hann rétt í því að veita till. stuðning. Ég er ekki að halda því fram, að það þurfi endilega að samþ. till. nákvæmlega eins og hún er þarna orðuð, en málið er nú statt á þessu stigi í 2. umr., henni er ekki lokið og eftir er 3. umr., og ég er og sjálfsagt við allir flm. till. á þskj. 323 áreiðanlega til viðtals um breyt. á þessari till., að því tilskildu þó, að stefnan, þessi, sem okkur raunar greinir ekki svo mjög á um, að hún komi fram í því, sem samþ. verður.