06.04.1971
Neðri deild: 89. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1666)

10. mál, Landsvirkjun

Forsrh. Jóhann Hafstein):

Herra forseti. Ég gat þess hér við 2. umr. málsins, að ég vildi athuga að koma til móts við þær óskir, sem fram hefðu komið frá fleiri þm. í till.-flutningi, að lögð væri sérstök áherzla á að hagnýta raforku frá stórvirkjunum til húsahitunar. Af því tilefni hef ég flutt brtt. á þskj. 845 og meginefni þeirrar brtt. hnígur að þessu, en formsins vegna hef ég kosið, að brtt. væri flutt við landsvirkjunarlögin sjálf, 2. gr., en í henni eru ákvæði um tilgang Landsvirkjunar. En þar er tilgangur Landsvirkjunar markaður þannig:

„1. Að byggja og starfrækja mannvirki til vinnslu og flutnings á raforku til almenningsnota og iðnaðar. 2. Að selja raforku í heildsölu til rafmagnsveitna sveitarfélaga, rafmagnsveitna ríkisins og iðjufyrirtækja, að svo miklu leyti sem héraðsrafmagnsveitur eða rafmagnsveitur ríkisins hafa ekki milligöngu um raforkusölu til slíkra iðjufyrirtækja. 3. Að annast í samráði við raforkumálastjóra áætlanagerð um nýjar aflstöðvar og aðalorkuveitur á orkuveitusvæði Landsvirkjunar.“

Í a-lið brtt. er lagt til að breyta orðinu „raforkumálastjóra“ í Orkustofnun í samræmi við þær breytingar, sem að lögum hafa orðið að þessu leyti. En þá kemur efni brtt., sem hnígur að húsahituninni, að hér verði tekinn upp 4. liður 2. gr. landsvirkjunarlaga í tilgangi Landsvirkjunar, sem hljóði þannig: „Að vinna að því í sámvinnu við rafveitur á orkusvæði sínu, að raforka komi í stað annarra orkugjafa til hitunar húsa og annarra þarfa, eftir því sem hagkvæmt er talið.“ Með þessu móti er áherzla lögð sérstaklega á upphitun húsa með raforku, þar sem það er þá orðinn 4. liður í tilgangi Landsvirkjunar samkv. 2. gr. landsvirkjunarlaga. Um aðrar brtt. vil ég aðeins segja það, að ég er andvígur því, að þær séu samþykktar af þeim sömu sökum, sem ég gerði grein fyrir við 2. umr., að ég tel það fyrst og fremst ekki tímabært.