06.04.1971
Neðri deild: 89. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1643 í B-deild Alþingistíðinda. (1667)

10. mál, Landsvirkjun

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Eins og hæstv. iðnrh. minntist á, beindi ég til hans þeirri fsp. hér fyrir helgi, hvort hann gæti ekki fallizt á það sjónarmið okkar hv. þm. Lúðvíks Jósefssonar, að áformin um stórvirkjanir í Tungnaá yrðu tengd við hugmyndir manna um stóraukna upphitun íbúðarhúsa á Íslandi með raforka. Ég tel, að hæstv. iðnrh. hafi komið til móts við þetta sjónarmið með þeirri brtt., sem hann hefur nú gert grein fyrir. Hæstv. ráðh. leggur að vísu til, að þessi fyrirmæli verði sett inn í l. á öðrum stað en við lögðum til, og tel ég, að það sé í sjálfu sér fullt eins eðlilegt, að þetta sé tekið inn í 2. gr., þar sem fjallað er um tilgang Landsvirkjunar. En með því að bæta þessu ákvæði inn í l., að nýr tilgangur Landsvirkjunar sé að vinna að því, að raforka verði notuð í stað annarra orkugjafa til hitunar húsa á sama tíma og aukin er heimild Landsvirkjunar til þess að ráðast í nýjar stórvirkjanir, tel ég, að það hafi verið komið til móts við þetta sjónarmið okkar. Við munum því draga til baka brtt. okkar á þskj. 792. Í þeirri till. er að vísu annað atriði. Þar var lagt til, að hæstv. ríkisstj. fengi einnig heimild til að ráðast í smærri virkjun, ef svo skyldi fara, að ekki tækist nægilega snemma að tryggja eðlilegt samhengi milli orkuframleiðslu frá stórvirkjunum og orkunotkunar. Hæstv. ríkisstj. hefur ekki lýst neinum áhuga á því að fá þessa heimild, og sé ég því ekki ástæðu til að halda því til streitu, að hún fái það, enda munu verða nægileg tækifæri til þess að afla þeirrar heimildar, ef á þarf að halda og ef þetta ástand kemur upp.

Sem sagt, till. okkar á þskj. 792 er dregin til baka vegna þess að fallizt hefur verið á meginefni hennar.