06.04.1971
Neðri deild: 89. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1644 í B-deild Alþingistíðinda. (1668)

10. mál, Landsvirkjun

Frsm. minni hl. (Gísli Guðmundsson):

Herra forseti. Ég skal ekki ræða þá brtt., sem hæstv. forsrh. hefur flutt á þskj. 845. Ég vil ekki vera henni andvígur, en annars sýnist mér, að hún sé allt annars efnis en till., sem fluttar voru á þskj. 323 og felldar voru við 2. umr., og annars efnis en till. þær, sem hv. 6. þm. Reykv. og hv. 5. þm. Austf. hafa flutt, en ég skal ekki fjölyrða um það efni og ekki er ég því andvígur, að þessi till. hæstv. ráðh. og hið almenna orðalag hennar verði samþykkt. En við 2. umr. flutti ég sem minni hl. iðnn. till. á þskj. 323 eða réttara sagt, minni hl. iðnn. mælti með till., sem fluttar höfðu verið af þrem þm. á þskj. 323. Þessar brtt. voru felldar við 2. umr. Nú hef ég enn, sem minni hl. téðrar n., leyft mér að flytja brtt. í sömu átt og þær till., sem felldar voru við 2. umr., en samt nokkuð annars efnis og færri till. heldur en fluttar voru við 2. umr. Ég vil biðja hæstv. forseta og hv. þm. að athuga, að það hefur orðið villa á þskj. 851 og 852. Þar stendur allshn., en á að vera iðnn., og hefur það þegar verið leiðrétt í prentun. (Gripið fram í.) Það er búið að leiðrétta það. Þá þarf ekki að ræða um það frekar.

Brtt., sem ég flyt, eru af sérstökum ástæðum á tveimur þskj., eins og ég sagði áðan, 851 og 852, og mun ég gera grein fyrir till. á þessum tveim þskj. í sömu röð og þær mundu koma inn í frv., ef samþ. yrðu.

1. till. á þskj. 852 er við 3. gr. l. Við 2. umr. lagði ég til, að sú gr. yrði algerlega umorðuð, en nú legg ég til, að inn í hana komi nýr tölul. um 130 MW raforkuver í Jökulsá á Fjöllum við Dettifoss eða raforkuver í Skjálfandafljóti við Íshólsvatn, en þessi brtt. fjallar ekki um aðrar breytingar á r., eins og hin brtt. gerði, sem flutt var við 2. umr. Ég legg til í öðru lagi, að á eftir þessari gr., þ.e.a.s. á eftir 3. gr., komi brtt. um það, að heimildirnar í 1. gr. verði bundnar því skilyrði, að Landsvirkjun skuldbindi sig til gegn tilsvarandi hækkun ríkisábyrgðar að tengja saman með aðalorkuveitu raforkukerfin á austanverðu Norðurlandi og Suðurlandi, ef ráðh. mælir svo fyrir að fengnum meðmælum Rafmagnsveitna ríkisins og á þann hátt og á þeim tíma, sem ráðh. ákveður með hæfilegum fyrirvara, enn fremur að selja raforku sama verði til allra almenningsrafveitna, sem kaupa orkuna frá aðalorkuveitu Landsvirkjunar. Till. mjög svipaðs efnis var flutt við 2. umr., en þessi till. er orðuð nokkuð á annan hátt, þar sem m.a. er talað um samtengingu raforkukerfa í staðinn fyrir samtengingu virkjana og fleira er á annan veg í till. Þessi brtt. er á þskj. 851.

Þá kem ég að 2. og 3. brtt. á þskj. 852. Þessar brtt. voru fluttar við 2. umr. og þá teknar aftur til 3. umr., en þær standa í beinu sambandi við 1. till. á þskj. 852. Þá legg ég að lokum til, að á eftir 5. gr. komi þrjár nýjar gr. Fyrsta gr., nefnd a, hljóði svo:

Ríkisstj. lætur endurskoða gildandi löggjöf um framleiðslu og dreifingu raforku, og skulu till. um breytingar á þeirri löggjöf lagðar fyrir Alþ. eigi síðar en í árslok 1972.“

Önnur gr., hér nefnd b, hljóðar svo:

„Að því skal stefnt, að fyrirtækið Landsvirkjun verði annaðhvort ríkiseign eða sameign ríkisins og þeirra sveitar- og sýslufélaga, er þess óska, í réttu hlutfalli við fólksfjölda.“

Og 3. gr., sem hér er merkt c:

„Að því skal stefnt, að raforka til sams konar nota verði sem fyrst seld á sama verði um land allt.“ Þessi brtt. um þrjár nýjar gr. er svipaðs efnis eins og b-liður 4. till., sem flutt var á þskj. 323 og felld, en hins vegar er þessi b-liður, sem var hér greindur í sundur, atriðin eru greind sundur og eitt atriði í hverri gr., þannig að það er hægt að greiða atkv. um hvert atriði út af fyrir sig, og ég vil óska þess, herra forseti, að þessir stafl. undir 4. tölul. verði bornir upp hver út af fyrir sig við atkvgr.