18.03.1971
Efri deild: 67. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1654 í B-deild Alþingistíðinda. (1678)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég vil nú ekki bregða þeim vana að segja nokkur orð við 1. umr. um þetta mál, heimild ríkisstj. til að taka lán vegna framkvæmdaáætlunarinnar, að þessu sinni fyrir árið 1971. Eins og fram kom raunar af máli hæstv. fjmrh. þá er hér ekki um nema hluta af þeirri fjáröflun og ráðstöfun framkvæmda að ræða, sem aðallega er fjármagnað af innlendu fé. Hér er farið fram á heimild Alþ. til þess að afla 437.6 millj. kr. með einum og öðrum hætti, eins og ég skal koma að, en þar fyrir utan er svo aflað til Framkvæmdasjóðs 340 millj. kr. og ráðstafað án þess að Alþ. hafi þar nokkra hönd í bagga með. Ég hef nú áður látið í ljós óánægju yfir þessari tilhögun og geri það enn, því það er mín skoðun að þingið eigi að hafa æðsta vald í úthlutun þessa fjármagns, en þessi háttur hefur verið viðhafður um nokkurt skeið og er svo lagt til eins og hér kemur fram. Þess fjár, sem hér er um að ræða, 776.6 millj. kr., er ráðgert að afla á eftirfarandi hátt: Að selja ný spariskírteini ríkissjóðs fyrir 75 millj. kr., að selja spariskírteini ríkissjóðs samkvæmt eldri heimildum 282.6 millj. kr., að taka 10% af sparifjármyndun bankanna á yfirstandandi ári, sem hér er áætluð 110 millj. kr. og ég mun aðeins víkja að síðar, að taka lán í Bandaríkjunum, svokölluð PL-480 lán, upp á 80 millj. kr. og aðrar tekjur Framkvæmdasjóðs eru 230 millj. kr. Samkvæmt þessu yfirliti er það um helmingur þess fjár, sem hér er um að tefla, sem með einum og öðrum hætti er tekið undan ráðstöfun bankanna í landinu og falið opinberum aðilum að ráðstafa. Það er ljóst, að eins og spariskírteinin eru úr garði gerð, hafa verið úr garði gerð og enn þá er ráðgert að gera þau, þá seljast þau jafnóðum og þau eru auglýst föl. Því valda þau kjör, sem orðin eru, þ.e. að vextirnir og afborganirnar eru bundin vísitölu og er það eina fjárfestingin, sem fólk á völ á með þeim kjörum og enginn banki hefur nokkra möguleika á að keppa við með núgildandi lögum. Auk þess eiga svo spariskírteinin, eins og verið hefur, ekki aðeins að vera undanþegin skattlagningu á sama hátt og sparifé heldur einnig undanþegin framtalsskyldu. Þessi ákvæði gera það að verkum, að ný skírteini seljast eins og heitar lummur og fjöldi, yfirgnæfandi hluti þess fólks, sem fest hefur fé sitt í spariskírteinum, innleysir þau ekki heldur kaupir ný skírteini, þegar þau falla til útborgunar. Hæstv. fjmrh. sagði áðan, að endurskoðun skattalaga, sem yfir stendur, væri ekki svo langt komið, að ástæða væri til að breyta kjörum þessara skuldabréfa nú, en gerði ráð fyrir því sem hugsanlegum möguleika, að það kynni að verða gert síðar. Ég vil nú segja það sem mína skoðun, að á meðan ríkissjóður þarf á fjármagni að halda og fjáröflun að halda með þessum hætti þá tel ég sanngjarnt, að þessi skírteini séu undanþegin skattlagningu eins og sparifé. Og ég vil bæta því við, að ég tel það mjög háskalega braut að skattleggja sparifé. Sparifjármyndunin, frjáls sparifjármyndun er það, sem stendur undir fjármögnun flestra framkvæmda hér, sem innanlands er aflað fjár til og ég held, að það sé óráðlegt að breyta lögum um það frá því sem nú gildir. Allt öðru máli finnst mér gegna um framtalsskyldu og satt að segja skil ég ekki, að hæstv. fjmrh., sem hefur þó gengið talsvert myndarlega fram í skattaeftirliti og hert það, að hann skuli ekki grípa þann möguleika fegins hendi til auðveldunar eftirlits með skattlagningu og skattframtölum að gera þessi skírteini framtalsskyld. Það hefur verið bjargföst sannfæring mín, að það mundi ekki draga úr sölu þeirra svo neinu næmi. Það yrðu kannske einhverjir aðrir, sem keyptu þau, heldur en gera það nú, en þau mundu áreiðanlega öll seljast. Önnur kjör á bréfunum eru með þeim hætti, að fólk kaupir þetta fyrir það fjármagn, sem það getur við sig losað og fyrningartíminn er ekki það langur, að hann sé talinn frágangssök í langflestum tilvikum. Ég mun þess vegna eins og undanfarið freista þess að fá breytingu á þessu frv. síðar í þá átt að gera spariskírteinin framtalsskyld.

Þá langar mig til þess að vekja athygli á því, að á bls. 10 í skýrslu fjmrh. um framkvæmda- og fjáröflunaráætlun og raunar viðar í áætluninni er gert ráð fyrir því, að lántaka hjá viðskiptabönkunum á árinu 1971 nemi 110 millj. kr., en verði þó miðuð við 10% af aukningu innlánsfjár bankanna. Nú er ég auðvitað enginn spámaður um það, hver innistæðuaukning í bönkunum á þessu ári kann að verða, en ég tel, að hér sé vægt í sakir farið í áætlun og dreg þær áætlanir af því, að á s.l. ári nam heildarsparifjáraukning í þessum stofnunum, þ.e. bönkunum, 2517 millj. kr. Það má vel vera, að þróunin verði sú, að heildarsparifjáraukningin verði nú ekki nema 1100 millj. kr., en það finnst mér satt að segja heldur lágt áætlað og heldur vonleysisleg tala, þegar það er haft í huga, að heildarsparifé í viðskiptabönkunum var eða heildarinnlán voru við árslokin 1970 13 153 millj. kr., þannig að 9% vextir af þessari fjárhæð eru þá um það bil það, sem hér er áætlað að sparifjáraukningin verði. Sem sagt, að hún verði ekki nema vaxtaviðbótin.

Á s.l. ári var reiknað með lægri fjárhæð til Framkvæmdasjóðs af 10% sparifjáraukningu, en hún varð eins og ég áðan sagði 251 millj. og um það segir í framkvæmdaáætluninni, að það hafi gert Framkvæmdasjóði kleift að styrkja stöðu sína. Þessu mótmælir sjálfsagt enginn, að þetta hafi gert Framkvæmdasjóði mjög svo kleift að styrkja stöðu sína, en ég vil spyrja hæstv. fjmrh.: Gerir þessi mikla sparifjáraukning á s.l. ári það ekki kleift að sleppa því að taka að láni, sem kallað er, 10% af sparifjáraukningunni á þessu ári og leyfa viðskiptabönkunum í fyrsta skipti í mörg ár, ég man ekki nákvæmlega í hvað mörg, að hafa yfir því fjármagni að segja einu sinni, sem landsfólkið trúir þeim fyrir? Þegar það er haft í huga, að viðskiptabankarnir eru að miklum meginhluta til eign ríkissjóðs og stjórnað af mönnum, sem ríkisstj. hlýtur að bera tiltrú til og getur raunar sagt fyrir verkum í mörgum tilfellum, þá sýnist það ekki vera nein goðgá, þótt væri farið fram á það svona í eitt skipti, að þeir fengju ráðstöfun þessa fjármagns, þegar svo heppilega hefur tekizt til, að fjáröflunin á árinu 1970 var langt umfram það, sem reiknað var með.

Um hina hlið málsins, þ.e.a.s. þá, sem Alþ. gefst kostur á að fjalla um af ráðstöfun þessa fjármagns, hef ég ekki margt að segja. Það er auðvitað svo, að óskalistinn er lengri heldur en kemst fyrir í þessu frv. eins og því er stakkur sniðinn. Ég skal ekkert fara út í það nú að telja upp þá hluti, sem mundu hafa verið kannske á mínum óskalista frekar heldur en það, sem þarna er talið. Við fljótan yfirlestur og athugun þessa frv. þá hef ég ekki fundið neitt svo sem, sem ég tel að ekki eigi þarna heima og mætti fella út fyrir annað í staðinn. Það er að vísu rétt, sem hæstv. fjmrh. sagði, að allt er í nokkurri óvissu um Laxárvirkjun eins og mál hafa skipazt, en ég tel þó eins og hann, að það sé ekki ráðlegt fyrir Alþ. að fella fjárveitingu til framkvæmda þar algerlega niður, því með einum eða öðrum hætti hlýtur að verða að leysa þau viðfangsefni, sem þar er um að tefla, og skal ég ekki fremur en hann gera það hér að umtalsefni, þó vissulega væri freistandi að segja nokkur orð um þá miklu og raunar hatrömmu og allt of harðvítugu deilu, sem að mínum dómi hefur verið stofnað til þarna um þetta tiltekna mál. Til þess að spara tíma, þá skal ég ekki fara að gera að umtalsefni einstök atriði í þessari framkvæmdaáætlun umfram það, sem ég hef þegar gert, það er þó auðvitað sitthvað um þau að segja, og ég skal svo ljúka þessum fáu orðum með þeirri heitstrengingu, að ekki skal standa á okkur framsóknarmönnum í hv. fjhn., að þetta mál megi afgreiða með skjótum hætti, því það er þó ljóst, að þetta mál verður að ná fram að ganga á þessu þingi, þó að sama virðist ekki eiga eftir að liggja fyrir öllum þeim stjfrv., sem borin hafa verið fram síðustu daga.