23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1662 í B-deild Alþingistíðinda. (1683)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft til meðferðar frv. það, sem hér liggur fyrir, og eins og álit hennar á þskj. 594 ber með sér, leggur n. til, að frv. verði samþ., en einstakir nm. hafa áskilið sér rétt til þess að flytja eða fylgja brtt. og hafa tvær slíkar brtt. verið lagðar fram á þskj. 596 og 604.

Varðandi efni frv. um þær framkvæmdir, sem þessi lán eiga að vera tekin til, og fjáröflunina að öðru leyti, leyfi ég mér að vísa til. framsöguræðu hæstv. fjmrh. við 1. umr. málsins og mun ekki fjölyrða um það. En vegna þeirrar brtt., sem flutt er af tveimur hv. fjhnm. á þskj. 604, hún er flutt af þeim hv. 11. þm. Reykv. og hv. 3. þm. Vestf., þá tel ég rétt að fara um þessa till. nokkrum orðum. En efni till. er það, að þau spariskírteini, sem frv. gerir ráð fyrir að út verði gefin, skuli skráð á nafn. Vissulega er hér ekki um stórmál að ræða í sjálfu sér, og þessi till. gengur í rauninni skemmra heldur en svipaðar till., sem fluttar hafa verið áður, þegar sams konar mál hefur verið hér á döfinni, að því leyti, að það er hvorki gert ráð fyrir skattskyldu þessa fjár né framtalsskyldu, heldur aðeins, að þau skuli skráð á nafn.

Eins og ég áðan sagði tel ég þetta ekki stórmál, en þó ástæðu til að segja um það nokkur orð, m.a. vegna þess, að við sams konar tækifæri hér í hv. d. áður, þegar lántökumálið hefur verið til umr., þá hefur skýrt komið fram, að það, sem liggur hér að baki, er angi af þeim hugsunarhætti, að skattfrelsi sparifjár torveldi eftirlit með skattframtölum. En að mínu áliti skapar þetta hættu á því, að þessi mikilvægasti varnargarður okkar gegn óðaverðbólgu verði brotinn. Nú er rétt að taka það fram, að það kom fram bæði í ræðu hv. 11. þm. Reykv. við 1. umr. málsins og einnig í framsöguræðu hæstv. fjmrh., að þeir höfðu fullan skilning á nauðsyn þess að vernda sparifé og sparifjáreigendur, og gladdi það mig. En eins og ég sagði áðan, þá er það sennilega engin einstök ráðstöfun, sem það hefur verið meira að þakka en þeirri, sem gerð var nú fyrir 18 árum, af ríkisstj. þeirri, sem þá sat, en það var samstjórn Sjálfstfl. og Framsfl., að ákveða, að sparifé skyldi hvorki vera framtalsskylt né skattskylt. Sennilega er það engri einni ráðstöfun meira að þakka en þessari, að þrátt fyrir tíðar gengisfellingar og meira og minna stöðuga verðbólguþróun undanfarna þrjá áratugi, þá hefur þó hingað til tekizt að afstýra óviðráðanlegri verðbólgu. Oft hefur slíkt þó verið yfirvofandi, og eins og ég áður hef látið í ljós fyrr í vetur hér í hv. d. og síðast var vitnað til í gær, að vísu í umr. um annað mál, af hv. 11. þm. Reykv., þá tel ég yfirvofandi meiri hættu í þeim efnum en e.t.v. nokkru sinni áður, þegar verðstöðvunartímabilinu lýkur 1. sept. n.k. Út af þessum ummælum mínum fyrir rúmum mánuði hefur að vísu orðið allmikið fjaðrafok, en því niður, verð ég að segja, hefur ekkert það komið fram, sem gefi mér ástæðu til þess að taka eitt orð aftur af því, sem ég sagði þá. En einmitt ekki sízt með tilliti til þessa tel ég nauðsynlegt að grípa þetta tækifæri til þess að kveða niður, ef unnt má vera, þá meinloku, vil ég kalla það, að skattfrelsi sparifjár torveldi eftirlit með framtölum. Sú meinloka er vissulega ekki komin upp í höfðum hv. flm. þeirrar till., sem hér er um að ræða, heldur hjá þeim embættismönnum, sem annast um skattamál, og mér hefur skilizt, að ástæðan til þess, að þessi hugsunarháttur virðist svo útbreiddur og jafnvel ríkjandi hjá þeim embættismönnum, sem um skattamál fjalla, sé sú, að það muni vera ein leiðin til þess að lita eftir því, hvort skattaframtöl séu í sjálfu sér samkvæm, að bera saman eignaraukningu, sem orðið hefur samkv. skattframtölunum, og hins vegar tekjurnar, þannig að eignaaukningin er dregin frá framtöldum tekjum, og ef afgangurinn af því þykir grunsamlega lítill, þá er auðvitað eðlilegt, að spurt sé, á hverju viðkomandi hefur lifað. Nú er auðvitað sjálfsagt af skattyfirvöldum að gera þetta og ég skal ekki taka fyrir það, að einstöku sinnum hafi tekizt að góma þannig einstaklinga, sem kunna að hafa verið með tilburði til þess að koma tekjum sínum undan skatti, án þess að kunna þó til þeirra verka. En oftast held ég, að það sé nú samt þannig, þegar þetta hefur átt sér stað, að það þurfi ekki beinlínis að vera um það að ræða, að menn hafi svikið tekjur undan sköttum. Verið getur, að menn hafi viljað leiðrétta eignaframtal sitt frá því, sem áður var, og ekki þá gætt að því, að það kom í bág við tekjuframtalið, auk þess sem möguleiki er á því, að mönnum tæmist arfur eða eignaaukningin eigi sér stað með öðru móti, þannig að það þarf ekki að vera um það að ræða, að tekjur hafi verið sviknar undan skatti. En aðalatriðið er þó, að í rauninni er það að mínu áliti blindgata í þessum efnum að ætla sér að framkvæma eftirlit með tekjuframtölum með eftirliti með eignaraukningu. Þetta stafar nú fyrst og fremst af því, að eins og við vitum er það hvað allan almenning snertir aðeins litið brot af tekjunum, sem kemur fram sem eignaraukning.

Mér er ekki kunnugt um það, að nein rannsókn hafi verið gerð á því hér á landi, hve stór hluti af tekjum einstaklinga sé sparaður. Hins vegar er mér kunnugt um, að athuganir hafi verið gerðar á þessu í nágrannalöndunum, löndum þar sem lífskjör fólks og tekjur eru mjög svipaðar og hér er, og niðurstaðan hefur orðið sú, að þetta væri í kringum 5%. Það er ekki ástæða til að ætla, að fólk sé yfirleitt sparsamara hér heldur en þessar nágrannaþjóðir okkar. Verðbólgan ætti að benda til hins gagnstæða, en af þessu má sjá, hvað afarlítill hluti það er af tekjunum, sem að jafnaði er sparaður. En jafnvel þó að menn spari eitthvað af tekjum, sem sviknar eru undan skatti, er engin ástæða til þess að ætla, að það sé stærri hluti af þeim heldur en af öðrum tekjum, sem er sparaður. Þá er auðsætt mál, að aðra leið væri hægt að fara heldur en þá að leggja peninga inn í banka, það væri tilvalið að kaupa þá innbú fyrir þetta, einhverja muni, sem skattyfirvöld geta ekki eftir neinum leiðum fengið upplýsingar um, að viðkomandi eigi. Og einmitt varðandi þetta, hættuna á því, að menn feli tekjur með því að leggja peninga inn á banka, þá vil ég nú leyfa mér að vekja athygli á því, að ég held, að þetta sé meira vegna þess, að núgildandi l. er ekki framfylgt, heldur en af því, að skattfrelsið út af fyrir sig skapi mönnum þarna möguleika. Vegna þess að skattyfirvöld hafa undan slíku kvartað, þá hefur einmitt verið lögð áherzla á það að setja undir þennan leka. Og þar má nefna fyrst og fremst, að það er ekki öllum heimilt að telja ekki fram sparifé. Menn mega ekki skulda nema að ákveðnu marki og aðeins veðskuldir í íbúðarhúsnæði. Það þýðir aftur á móti, að allir þeir, sem hafa einhver umsvif, það má telja víst, að þeir skuldi umfram þetta og þeim sé því skylt samkv. núgildandi l. að telja fram sparifé sitt. Þetta mundi þá fyrst og fremst ná til launþega, en tekjur launamanna teljast að jafnaði fram eins og kunnugt er, ekki vegna þess, að þeir þurfi að vera heiðarlegri skattgreiðendur upp og ofan heldur en þeir, sem hafa sjálfstæðan atvinnurekstur, heldur vegna þess, að atvinnurekandi þeirra verður að telja launagreiðslurnar fram, ef hann ekki vill borga skatta af þeim sjálfur.

Stundum hefur það verið nefnt, að þetta skapaði mönnum möguleika á því að taka lán t.d. fyrir áramót, reikna sér vexti af slíkum skuldum, en njóta þess svo að hafa skattfrjálsa vexti af sparifé, en ef menn gera það, þá er samkvæmt þeim lögum, sem nú gilda, skylt að telja spariféð fram, því þá er þarna um skuld að ræða, sem ekki fellur undir þá undanþágu, sem lögin ákveða. Enn fremur má vekja athygli á því í þessu sambandi, ég man, að það bar einu sinni á góma í n., sem fjallaði um skattamál og ég átti sæti í, hvort nauðsyn bæri að gera sérstakar ráðstafanir, þannig að skattayfirvöld gætu fengið aðgang að bankareikningum manna, ef um rannsókn á skattframtölum væri að ræða. Þessi n. féll frá því, vegna þess að við litum þannig á, að slík heimild væri þegar í lögum, og eftir því sem ég bezt veit hefur beinlínis síðan verið skorið úr því með dómum, að bönkum og lánastofnunum er skylt að gefa slíkar upplýsingar. Þannig hefur á margvíslegan hátt einmitt verið sett undir þann leka, sem hér er um að ræða, og er einkennilegt, að menn skuli svo, þrátt fyrir þær ströngu hömlur, sem þarna hafa verið settar, einblína svo mjög á það, en hins vegar hafði enginn við það að athuga, þegar það var ákveðið hér á hv. Alþ. fyrir ekki löngu síðan, að innbú væri hvorki skattskylt né framtalsskylt, en ólikt auðveldara er auðvitað að fela eignaraukingu á þann hátt, heldur en þann, sem hér er um að ræða. Nei, en það versta við þetta er e.t.v., að mínu áliti, fyrir utari þá hættu, sem þetta skapar fyrir vernd sparifjárins, sem kannske hefur aldrei verið nauðsynlegri en nú, að það torveldar einmitt að mínu áliti mjög eftirlit með skattframtölum almennt, að keyrt er í þessari blindgötu, ef svo mætti segja. Í stað þess að reyna að hafa sem bezt eftirlitið með tekjunum þá er einblint á eignirnar og eignaaukningu, en það er annað atriði, sem benda má á í þessu sambandi, og ætli hundurinn liggi ekki frekar grafinn þar, ef maður vill gera sér grein fyrir orsökunum til ófullkominna skattframtala, að það var fyrir ekki löngu síðan, sem það var upplýst af skattyfirvöldum, að það væru aðeins 10% fyrirtækja, sem hefðu viðunanlegt bókhald, álíka stór prósenta hafði bókhald, sem e.t.v. uppfyllti að nokkru þær kröfur, sem gera bar, en 80% af bókhaldsskyldum fyrirtækjum væru talin hafa algerlega ófullnægjandi bókhald. Ætli það sé ekki þarna sem hundurinn er grafinn? En ég get ekki látið hjá líða að ræða þetta, og vegna hins almenna ástands í efnahagsmálum þá tel ég sérstaka ástæðu til þess að drepa á þetta.

Eins og ég áðan sagði þá er þetta í rauninni smámál, en ég get ekki látið hjá líða, að minnast á annað, sem skotið hefur upp hér á hv. Alþ., sem að mínu áliti skapar ólíkt meiri hættu í þessum efnum heldur en hin tiltölulega meinlausa till., sem hér er um að ræða, og það er, að í skattafrv. því, sem nú liggur fyrir, er till. um það, að arður af hlutabréfum skuli að vissu marki verða skattfrjáls og látum það út af fyrir sig vera, en fyrir þessu eru þau meginrök færð fram, að þetta beri að gera til þess að skapa arði af hlutabréfum samsvarandi aðstöðu eins og vöxtum af sparifé. Hér er verið að blanda saman annars vegar vöxtum af sparifé, sem verðbólgan eyðir að jafnaði og meiru til, og það hljóta að vera aðalrökin fyrir skattfrelsi sparifjárins, og arði eða gróða af verðtryggðum eignum. Þetta hlyti, ef þessi hugsunarháttur er færður út í æsar, að leiða til þeirrar niðurstöðu, sem mér mundi finnast alveg fráleit, að það beri að leggja allt í þessu efni að jöfnu, afnema með öllu skattfrelsi sparifjárins. Þegar við erum öruggir um það, að hafa stöðvað verðbólguna, þá gæti slíkt komið til greina, en ég er nú hræddur um, að það eigi ákaflega langt í land. Ég er ekki að mæla gegn því, að fólk fái hvatningu til þess að leggja peninga sína í hlutabréf með skattalagaákvæðum eða á annan hátt. Ef það er, vel að merkja, þá hægt að koma því þannig fyrir, að þetta skattfrelsi arðs af hlutabréfum verði ekki til þess að einstaklingsrekstri verði í stórum stíl breytt í hlutafélagarekstur. Undir þann leka er nú e.t.v. hægt að setja og jafnvel þegar búið að því. Ég hef ekki enn þá getað kynnt mér brtt. við skattafrv., sem nú liggja fyrir, en þetta kemur auðvitað til umr. á sínum tíma, þegar það kemur til hv. d. í þeirri mynd, sem Nd. hefur afgreitt það. Ég vil taka það fram í sambandi við þetta, að það er ekki umhyggja fyrir sparifjáreigendum, sem fyrir mér vakir. Auðvitað eiga þeir eins og aðrir borgarar þjóðfélagsins siðferðilegan rétt á því, að eignir þeirra séu verndaðar, en hvorki meiri eða minni rétt heldur en aðrir borgarar þjóðfélagsins. Og hvað mig snertir persónulega hef ég nú lengst af verið í þeirri aðstöðu að vera frekar skuldari en sparifjáreigandi og þannig persónulega átt hagsmuna að gæta, sem hafa verið andstæðir við þeirra, og alltaf verður það svo, ef menn verða hreinskilnir, að persónulegir hagsmunir hafa jafnan viss áhrif á afstöðu manna. Nei, það er hitt sem fyrir mér vakir, að eins og ég sagði tel ég þetta einhverja öruggustu vörnina, sem við til þessa höfum haft, gegn því, að verðbólgan leiddi til þess, að menn misstu alveg trúna á verðgildi peninganna og verðbólgan yrði þannig óviðráðanleg, og væri því mjög verr farið, ef þessu væri skipt upp. Þetta er nú ástæðan til þess, að ég geri þetta að umtalsefni.

Um aðra brtt., sem hér liggur fyrir, um að taka neyzluvatnsleit upp sem einn lið í framkvæmdaáætluninni, hef ég ekki neitt sérstakt að segja. Hér er ekki um stóra fjárhæð að ræða, og ég dreg ekki í efa, að hér mundi vera um nytsamar framkvæmdir að ræða, en því vil ég nú að öðru leyti skjóta til hæstv. fjmrh., hvort hann mundi telja fært að breyta áætluninni þannig, án þess að séð væri þá sérstaklega fyrir aukinni tekjuöflun.

Herra forseti. Fjhn. leggur að öðru leyti til, að þetta frv. verði samþ. og vísað til 3. umr.