23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1666 í B-deild Alþingistíðinda. (1684)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Steingrímur Hermannsson:

Herra forseti. Það er vitanlega svo, að um þetta mál og skiptingu þess fjármagns, sem talið er vera til ráðstöfunar, hefur verið ýtarlega fjallað af sérfræðingum hæstv. ríkisstj. Ég er ekki að efa, að þeir hafa gert það eftir beztu vitund. Engu að síður leyfum við okkur að flytja brtt. og gerum ráð fyrir því, að bætt verði við einum litlum lið, til neyzluvatnsleitar, 1 millj. kr., og komi það inn á eftir jarðhitaleit. Okkur flm. þessarar brtt. sýnist, að áætlun um fjáröflun sé þannig, að auðveldlega geti fjármagnið orðið 1 millj. kr. meira eins og 1 millj. kr. minna og því ekki ástæða til þess að óttast það.

Ég hef áður flutt þáltill. hér í hv. d. um neyzluvatnsleit og þarf því ekki að fara mörgum orðum um þörfina, en þó vil ég aðeins draga fram fáein meginatriði.

Eins og hv. þm. er kunnugt, þá standa fyrir dyrum mjög viðtækar endurbætur á íslenzkum hraðfrystiiðnaði. Í því sambandi ber neyzluvatnið mjög á góma. Það er að vísu svo, að við Íslendingar beygjum okkur niður að næsta fjallalæk og fáum okkur sopa og okkur verður ekki meint al og þannig verður vonandi um langa framtíð.

En neyzluvatnið er þarft til margra annarra hluta, eins og t.d. til matvælaframleiðslu. Í því sambandi hafa okkar viðskiptaþjóðir nú sett eða eru að setja hinar ströngustu kröfur og gera sér ekki að góðu það, sem við teljum jafnvel ágætt. Og við erum heldur ekkert að kvarta undan því, þó að kalda vatnið í krönum okkar verði einstöku sinnum eftir leysingar dálítið mórautt, en það mun ekki verða kallað gott í frystiiðnaðinum. Staðreyndin er þó sú, að svona er ástandið mjög víða, eins og komið hefur fram af athugunum fjölmargra sérfræðinga, sem um þetta mál hafa fjallað og við hefur verið rætt. Ég nefndi það síðast, að af 58 stöðum voru 16 taldir, þar sem mikil þörf er rannsókna til endurbóta á neyzluvatni. Þetta eru staðir, sem yfirleitt eru frá Suðvesturlandi um Vesturland og allt til Akureyrar og svo um Austfirði. Það eru staðir eins og Akranes, Hellissandur, Stykkishólmur, Patreksfjörður, Bíldudalur, Suðureyri, Ísafjörður, Súðavík, Skagaströnd, Sauðárkrókur, Siglufjörður, Akureyri, Seyðisfjörður, Norðfjörður, Eskifjörður, Djúpivogur, svo að þeir helztu séu nefndir. Við þetta má bæta ýmsum stöðum, þar sem engu að síður er jafnframt þörf rannsókna, þótt vatn sé viðunandi mestan hluta ársins.

Stundum er það nefnt, að neyzluvatnið megi bæta með því að bæta klóri í það. Það er rétt gagnvart gerlum, en eins og ég sagði áðan er það víða svo, jafnvel hygg ég í kjördæmi hæstv. fjmrh. t.d. á Akureyri eftir leysingar, a.m.k. hef ég séð það þannig þar, að það verður þannig í krönum, að ónothæft er a.m.k. til matvælaframleiðslu. Þannig hef ég einnig séð það á Sauðárkróki og á fjölmörgum stöðum öðrum.

Það þarf ekki að fara mörgum orðum um þau vandræði, sem slíkt veldur. Það er einróma álit þeirra sérfræðinga, sem leitað hefur verið til í þessu sambandi, að illmögulegt sé að benda sveitarfélögum, sem eiga að sjá fyrir bættu neyzluvatni, á staði til að bora án þess að fram fari nokkur ýtarleg jarðfræðileg grundvallarrannsókn. Og ég hygg, að allir muni vera sammála um það, að slík rannsókn er í verkahring hins opinbera. Hún er það í sambandi við jarðhitaleit, en til jarðhitaleitar eru ætlaðar 10 millj. kr. í frv. þessu til framkvæmdaáætlunar. Hafa þeir menn, sem ég hef rætt við um þetta málefni síðan ég flutti þáltill. í þessari hv. d., allir tekið undir þau orð Jóns Jónssonar, sem ég vísaði til þá, að grundvallarjarðfræðirannsóknir eru nauðsynlegar. En því hef ég kosið að draga þetta mál sérstaklega fram, að grundvallarrannsóknir taka nokkurn tíma og það má engan tíma missa, því að frestur er skammur, þar til frystihúsin okkar verða að vera komin í viðunandi ástand. Legg ég því áherzlu á, að fjármagns verði aflað, jafnvel með lánsfé, þannig að rannsóknir geti hafizt á þessu ári, enda verði það að sjálfsögðu endurgreitt á fjárlögum næsta árs.

Það er eðlilegt, að spurt sé, hverjir mundu framkvæma slíka athugun. Ég hef bent á jarðkönnunardeild Orkustofnunar í því sambandi. Jarðkönnunardeildin annaðist leit að jarðefnum á s.l. sumri og var stofnuð með samþykki iðnrh. upp úr því. Deildin mun fá í sínar hendur mikið af verðmætum tækjum á næstu vikum, sem fengizt hafa fyrir fjárstyrk frá Sameinuðu þjóðunum. Einnig hafa tveir ungir jarðfræðingar fengið styrki frá Sameinuðu þjóðunum og eru nú að leggja stund á nám í svokallaðri hagnýtri jarðefnaleit og jarðfræði og mundu þeir vinna að verkefni sem þessu í sumar ásamt öðrum sérfræðingum þeirrar stofnunar. Stofnunin er þannig vel búin, bæði að tækjakosti og mannafla, til þess að sinna þessu verkefni, sem hefur í samanburði við fjölmörg önnur mikilvæg verkefni þeirrar deildar verið talið, al þeim, sem til hefur verið leitað, einna mikilvægast.

Eins og ég sagði áðan hef ég rætt það mikið um neyzluvatn, að ég ætla ekki að þreyta hv. d. með ýtarlegri ræðu hér um það mál, og vísa til þess, sem ég hef sagt áður, en ég vil að lokum þakka hv. frsm. fyrir þann stuðning, sem hann veitti þessari till. með sínum orðum hér áðan.