23.03.1971
Efri deild: 72. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1669 í B-deild Alþingistíðinda. (1686)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð í tilefni af þessum tveimur brtt., sem hér liggja fyrir. Sú till., sem hv. 11. þm. Reykv. hér mælti fyrir þess efnis, að skuldabréfin eða spariskírteinin skyldu vera nafnskráð, hefur verið flutt á undanförnum þingum, að ég hygg nokkrum sinnum, í sambandi við þetta spariskírteinaútboð. Ég hef þá látið í ljós þá skoðun, að út af fyrir sig væri margt réttmætt við það að hafa framtalsskyldu á skuldabréfum eða spariskírteinum sem þessum á sama hátt og ég er þeirrar skoðunar, að vel gæti komið til álita að hafa almenna framtalsskyldu á sparifé. Það er rétt, sem hv. þm. sagði og hv. 10. þm. Reykv. einnig ræddi um í ræðu sinni hér áðan, að samkv. gildandi skattal. er sparifé framtalsskylt í mörgum tilfellum, en því miður mun reyndin hafa orðið sú vegna þessara undanþáguákvæða, sem eru þó í skattal., að sparifé hefur yfirleitt ekki verið talið fram. Og það mál, jafnhliða athugun á því, hvað gilda skuli um önnur sparnaðarform og þ. á m. spariskírteinin, er eitt af því, sem er með mörgu öðru í athugun í sambandi við framhaldsrannsókn skattamálanna, og ég gat um það í framsöguræðu minni hér fyrir þessu máli, að það væri lagt til, að óbreytt ástand yrði varðandi útgáfu spariskírteina í þetta sinn, þar eð þess mætti vænta, að á þessu sumri og fyrir næsta þing yrði gengið frá till. varðandi skipan þessara mála í framtíðinni, þ.e.a.s. almennar reglur settar varðandi bæði spariskírteini og önnur sparnaðarform. Af þessum ástæðum mundi ég telja það óheppilegt, að gerð væri breyting á þeim reglum, sem gilt hafa um þessi bréf. Það er gert ráð fyrir því, að meginhlutinn af spariskírteinunum, sem nú verða gefin út, séu endurútgáfa skírteina til þeirra, sem áður hafa átt þau, og ég teldi það vera óheppilegt og geta haft slæm áhrif varðandi sölu þeirra, ef ætti að fara að breyta þeim kjörum, sem á þeim bréfum eru. Það er aðeins reiknað með 75 millj. sem raunverulega nýjum spariskírteinum, hitt væri endursala og eins og ég segi, þó að ég geti fallizt á það, að það eigi að vera frambúðarskipan mála, að þessi bréf séu framtalsskyld, þá mundi ég samt telja það miður farið, að það yrði farið að breyta þessum skilmálum nú. Og mundi ég því mjög vilja óska eftir því, að hv. þd. féllist á það að breyta ekki frv. að þessu leyti.

Varðandi 1 millj. kr. til neyzluvatnsleitar, þá er vissulega hægt að taka undir það, að það er mjög hófsamleg till. miðað við þær háu upphæðir, sem hér er um að ræða, og mundi vitanlega ekki skipta miklu máli til eða frá, hvort 1 millj. yrði veitt í þessu eða öðru skyni eða ekki. En hins vegar fylgir hér nokkur böggull skammrifi, sem veldur því, að ég teldi það óheppilegt að samþykkja þessa till. Og þessi galli er einfaldlega fólginn í því, að um vatnsleitarmálin eru enn þá ekki til neinar almennar reglur, hvernig að þeim skuli vinna. Um jarðhitaleitina gegnir allt öðru máli. Það eru sérstök lög, sem þar um gilda. Ýmist greiðir ríkið það að fullu eða það er lánað að hluta til sveitarfélögunum, þannig að sú 10 millj. kr. fjárveiting, sem gert er ráð fyrir til jarðhitaleitar, fellur alveg innan ramma löggjafar eða reglna, sem Alþ. hefur þegar sett um það, hvernig vinna skuli að þessum málum. Neyzluvatnsrannsóknunum, sem ég er hv. frsm. till. algerlega sammála um, að eru mjög þýðingarmiklar og þarf að sjálfsögðu að gefa vaxandi gaum ýmsum þeim rökum, sem hann tilgreindi, þeim er hins vegar þann veg háttað, að það er ekki um neina aðild ríkisins, eins og nú standa sakir, að slíkum rannsóknum að ræða, þannig að þó að það yrði veitt nú heimild til þess að afla 1 millj. kr. eða hver sem sú fjárhæð yrði til þeirra rannsókna, sé ég á því margvíslega annmarka að nota slíkt fé. Það eru til dæmi þess, að það hefur verið varið fé til neyzluvatnsrannsókna, þ.e.a.s. í fjárlögum hefur árlega um alllangt árabil verið veitt fé til leitar að neyzluvatni. Aðallega hefur það verið fyrir einstaka bæi eða byggðahverfi, þar sem hefur verið erfitt um neyzluvatnsöflun, og þá hefur jafnframt verið sett af hálfu fjvn. ákveðin regla um það, hvaða kröfur væru gerðar í því efni, þ.e.a.s. hvaða mótframlög kæmu til greina. Nú veit ég, að vakir fyrir hv. þm. það, sem hann sagði í sinni framsöguræðu, að hér verði um grundvallarrannsóknir að ræða svipað og í jarðhitamálum, en þó að sé reiknað með því, þá kemur það í einn stað niður, að það eru ekki fyrir hendi nein lög um það eða fyrirmæli, hvernig ríkið skuli standa að slíkum rannsóknum og hvaða bagga það tekur þá á sig í því efni. Þannig að ég teldi það með öllu útilokað að fara að hefja framkvæmdir á þessu sviði án þess að væru settar almennar reglur um það, hver á að vera hlutdeild ríkisins í því, hver hlutdeild sveitarfélaga eða einkaaðila, sem að þessu máli standa. Af þessum sökum einum saman, en alls ekki af því, að ég sé málefnalega á móti till. sem slíkri eða röksemdum hv. frsm. fyrir henni, þá mundi ég vilja mæla gegn því, að þetta mál yrði leyst með þessum hætti, í sambandi við framkvæmdaáætlun, heldur verði Alþ. fyrst að taka ákvörðun um það, hvort sem það verður með samþykkt hans þáltill., sem hann gat um, eða með einhverjum öðrum hætti, hvernig að þessum neyzluvatnsrannsóknum verði staðið.