25.03.1971
Neðri deild: 69. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1675 í B-deild Alþingistíðinda. (1696)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í almennar umr. í sambandi við framkvæmdaáætlun ríkisstj. heldur víkja að einu atriði, er fjárútvegun varðar í áætluninni. Eins og fram kemur hér í 7. gr. frv. á þskj. 522, er áætlað til landshafna fjárhæð að upphæð 6 millj. kr. Fyrir síðustu áramót var stjórn Rifshafnar á fundi, og var þar ákveðið að leita eftir því, að útvegaðar yrðu 20 millj. kr. til framkvæmda í Rifshöfn á árinu 1971. Gert var ráð fyrir því, að framkvæmdir yrðu í Rifshöfn 1970, en þess var þá sérstaklega óskað, að Rifshafnarnefnd drægi það, að sú framkvæmd yrði á árinu 1970, vegna framkvæmda í Þorlákshöfn, sem þá stóðu yfir. Hins vegar var þá gengið út frá því, að þessar framkvæmdir yrðu þá á árinu 1971 og ákveðið verk, sem átti að leysa, sem var þar að ganga frá varnargörðum hafnarinnar, en annar garðurinn a.m.k. er talinn í hættu, og er enn fremur hættulegur vegna innsiglingar inn í höfnina. Það urðu því mér og öðrum, er að þessu máli vinna, mikil vonbrigði, þegar till. kom um það, að 6 millj. kr. yrði varið til landshafna og af því yrðu 4 millj., sem gengju til Rifshafnar.

Stjórn Rifshafnar hefur nú tekið þetta mál upp á ný og m.a. rætt það við hæstv. samgmrh. og hefur ritað honum bréf, þar sem farið er fram á það, að hann beiti sér fyrir því, að aukin verði fjárútvegun til Rifshafnar. Ég treysti því, að hæstv. ráðh. muni verða við þessari beiðni. Farið var þar fram á, að 10 millj. kr. fjárhæðar umfram það, sem hér er gert ráð fyrir, yrði aflað á árinu 1971. Þó það sé minni framkvæmd heldur en stefnt var að í till. stjórnar Rifshafnar, þá mundi það þó bjarga suðurgarðinum og forða honum frá skemmdum og skipum frá því að lenda í hættu við innsiglinguna. Nú er þetta mál komið hér í seinni deild og hefur ekki verið flutt við það brtt. af hálfu hæstv. samgmrh., en ég endurtek, að ég treysti því, að það verði gert hér í þessari d. Ef það kemur ekki fram frá hæstv. ráðh., sem ég þó vona að ekki komi til, þá mundi ég freista þess að flytja brtt. við frv., en umfram allt legg ég áherzlu á það, að málinu verði bjargað svo að hægt verði að vinna að þessari framkvæmd á yfirstandandi sumri. Hér er um þess háttar mál að ræða, að því er stefnt í hættu, ef ekki verður að gert, auk þess sem það var skoðun stjórnar Rifshafnar, að ekki kæmi til mála annað heldur en unnið yrði að framkvæmdum á árinu 1971, fyrst orðið var við þeim tilmælum að fresta framkvæmdum árið 1970. Ég hygg, að hér muni hafa átt sér stað einhver mistök og þess vegna sé till. í frv. eins og hér er greint, en ég treysti því, að úr verði bætt með brtt. við afgreiðslu málsins hér í hv. d.