05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1687 í B-deild Alþingistíðinda. (1705)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það er rétt, það sem kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ég varð að víkja af fundi, vegna þess að ég var hér á mælendaskrá á þinginu þegar bankaráðsfundurinn var. Ég var látinn vita, þegar það mál, sem ég þurfti hér að flytja, yrði tekið fyrir, og varð að víkja af fundi og af þeim ástæðum var ég ekki viðstaddur, þegar þetta mál var tekið fyrir. En ég verð að segja það, að ég er hryggur yfir því, að heyra orð bankaráðsformannsins, hv. síðasta ræðumanns, á þá leið að hann telji þá lausn á þeim reglum, sem við urðum að setja í fyrra, vera viðunanlega. Ég tel, að það sé ekki viðunanlegt að lána út á framkvæmdir, sem eru að öllu leyti búnar, fyrir þriðjung af þessu fé, sem á að lána, 1/3 af þessum rúmum 50%, t.d. út á fjós og hlöðu, eins og við urðum að gera á s.l. ári, vegna þess að það var ekki fjármagn fyrir hendi, og það kann að vera, að það sé hægt að leysa málið á þennan hátt nú. En það bara tel ég ekki forsvaranlega lausn. I;g veit heldur ekki betur en að eftir þeirri áætlun, sem við gerðum, þá þurfi veðdeild Búnaðarbankans upp undir 20 millj. Ég tel ekki viðunanlegt að hafa ekki helminginn af því, sem er reiknað með, að veðdeildin þurfi. Og ég er alveg viss um það, að hv. síðasti ræðumaður er í raun og veru ekki ánægður með þessa lausn frekar en ég, þó að hann vildi svo láta t.d. hér í ræðustólnum áðan.

Ég ætla ekki að halda hér uppi málþófi, enda er ég tvívegis búinn að tala í þessu máli, en ég vil endurtaka það, að ég skora á hæstv. fjmrh. að leysa þessi mál eða sjá til þess, að þessi mál verði leyst betur en hefur verið gert eða nú er gert ráð fyrir, og það er engan veginn viðhlítandi lausn, að stofnlánadeildin hafi um 180 millj. nú til útlána eins og framkvæmdamáttur hverrar krónu er orðinn lítill, og í sambandi við veðdeildina, til þess að það væri forsvaranlegt í raun og veru, þá þyrfti að hækka sum lánin allt upp í 1/2 millj. úr 200 þús., eins og ég tók dæmið áðan. En miðað við bara 200 þús. kr. hámarkslán þyrftum við að hafa upp undir 20 millj. til þess að geta leyst verkefni veðdeildarinnar sómasamlega.