05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1688 í B-deild Alþingistíðinda. (1706)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Hæstv. fjmrh. vék að því hér áðan, að sú till., sem ég flyt við 7. gr. frv. ásamt 2 hv. nm. í fjhn., fái tæplega staðizt, vegna þess að ekki sé aflað sérstaks fjár á móti, þannig að það standist nokkurn veginn á, að mér skilst að hans mati, þær fjárveitingar, sem eru ákveðnar í 7. gr., og sú fjáröflun, sem er ákveðin sérstaklega í gr. þar á undan, eða þær lántökur, sem eru heimilaðar í gr. þar á undan. Það mun vera rétt hjá hæstv. ráðh., að þetta stenzt nokkurn veginn á eins og frv. er nú. Ég hygg, að það sé þannig, ég hef nú ekki athugað það nákvæmlega, en hins vegar hafa þessi frv. eða lög iðulega verið afgreidd þannig, að þetta hefur ekki staðizt á, t.d. upplýsti hagsýslustjóri á fundi, sem hann var á í fjhn. í morgun, að lögin um framkvæmdaáætlun eða lán vegna framkvæmdaáætlunar, sem hefðu verið afgreidd á s.l. þingi, hefðu verið afgreidd með þeim hætti, að það hefði munað verulega miklu á upphæðinni í 7. gr. og þeim lántökum, sem voru heimilaðar í gr. á undan. Mig minnir, að bann segði, að fjárveitingin í 7. gr. hafi verið í fyrra u.þ.b. 67 millj. kr. hærri en sú fjárhæð, sem var aflað með þeim heimildum, sem voru í gr. þar á undan. Það var nú vegna þessa fordæmis, sem við gengum frá till. þannig. En það má vel vera, að það sé eðlilegra að afgreiða þetta með þeim bætti að flytja sérstaka brtt., flytja brtt. við frv. um að taka upp alveg sérstaka gr., sem væri á þá leið, að ríkisstj. sé heimiluð lántaka allt að 34 millj. kr. til þess að kosta rannsóknir á landgrunninu. Og þá verður ekki á móti borið, að fjár sé aflað jafnhliða, og ég mun þess vegna taka þessa ábendingu hæstv. fjmrh. til greina og draga þessa till. nú til baka við 2. umr., en flytja í staðinn við 3. umr. brtt. um sérstaka grein við frv., að það sé heimiluð lántaka til þessarar framkvæmdar. Ég sé þess vegna ekki á þessu stigi ástæðu til þess að fara fleiri orðum um þetta. Ég mun þá víkja nánar að öðrum atriðum, sem komu fram hjá hæstv. ráðh., við 3. umr. málsins.