05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1693 í B-deild Alþingistíðinda. (1712)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Ágúst Þorvaldsson:

Herra forseti. Ég ætla nú ekki að blanda mér mikið í þessar umr., sem hér hafa orðið um málefni Búnaðarbankans eða stofnlánadeildarinnar, því að hv. 5. þm. Norðurl. e. hefur haldið um það svo skeleggar ræður hér, að ég tel mig ekki geta þar um bætt. En mig langaði aðeins til í sambandi við þessar umr., sem orðið hafa, að minnast lítils háttar á veðdeildina, þetta olnbogabarn ríkisvaldsins um langan tíma. Þessi sérstaka lánastofnun, veðdeild Búnaðarbankans, hefur verið vanrækt og hún er það enn í dag. Og áhrifin af því eru líka að koma í ljós í sveitunum, því að ungu mennirnir, ungu bændasynirnir, sem hafa hug á því að taka við jörðum og hefja búskap, stunda það starf, sem þeir hafa alizt upp við, hafa nú ekki bolmagn til þess að eignast jarðirnar og hrökklast margir í burtu úr sveitunum af þeim sökum.

Eins og kunnugt er þá eru hámarkslán úr veðdeildinni til jarðakaupa 200 þús. kr. á jörð. Og oft hefur það a.m.k. verið, að menn hafa orðið að bíða eftir slíku láni í eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár til að fá það. Þetta sjá allir, að hlýtur að vera landbúnaðinum ákaflega örðugt. Við vitum það, sem þekkjum til í bændastéttinni, að það þarf að skipta um ábúendur á ca. 200–250 jörðum árlega í landinu bara vegna eðlilegra kynslóðaskipta. Og eins og verðlagi er nú háttað á öllum hlutum, því eftirspurn margra kaupstaðarbúa til að eignast jarðir og leggja þær í eyði og hafa þær sér til skemmtunar hefur farið vaxandi og af þeim sökum hafa jarðir hækkað í verði, leiðir það til þess, að nú er svo komið, — ég veit a.m.k. á Suðurlandi er það svo, ég þekki mörg dæmi um það, — að bændaefnin verða að ganga frá að eignast jarðirnar, þeir fá ekki lán, nema þá e.t.v. eru þeir svo heppnir að lenda í því að fá 200 þús. kr. út úr veðdeildinni. Jarðirnar kosta orðið milljónir, eins og allir vita, og bændaefnin eru boðin frá af efnamönnum úr kaupstöðunum, sem vilja ná í jarðirnar og yfirleitt nota þær, nota hlunnindi þeirra, ef þau eru einhver, sér til ábata og jarðirnar fyrir eins konar skemmtigarða. Þetta er þróun, sem er ákaflega ískyggileg í augum okkar, sem enn þá erum að reyna að lifa í sveitum. Okkur þykir þetta ískyggileg þróun, og ég verð að segja það, að ég álít, að ekki ríði á öðru meira núna fyrir landbúnaðinn, fyrir landbúnaðarins hönd, en að reyna að bæta hér eitthvað úr. Það má að vísu finna ýmislegt að í sambandi við lánin út á framkvæmdirnar. En ég álít þó, að hitt sé enn þá meira áríðandi að reyna að lagfæra eitthvað í sambandi við jarðakaupin, svo að ungu mennirnir geti eignazt jarðir og setið kyrrir í sveitunum. Það hefur verið drepið á það hér, að það væru misjöfn kjörin, sem bændur ættu við að búa, eða aftur á móti þeirra, sem stunda vilja sjávarútveg og kaupa sér bát, þar sem þeir hafa möguleika á því að fá 90% af verði skips að láni, 75% úr Fiskveiðasjóði og svo frá öðrum stofnunum, sem hjálpa um það, sem á vantar til að þetta nemi 90%. Hér sjáum við á þessu, að ólikt höfumst við að gagnvart þessum atvinnuvegi eða landbúnaðinum. Ég er ekki að telja þetta eftir gagnvart sjávarútveginum eða þeim, sem hann stunda, það er síður en svo, ég álít, að þetta sé eðlileg og sjálfsögð fyrirgreiðsla og nú verðum við einhvern veginn að leggja ráð okkar saman og finna úrræði til þess að bæta úr á því sviði, sem hér hefur verið um að ræða í sambandi við jarðakaupin.

Ég álít, að veðdeild Búnaðarbankans þyrfti að hafa til ráðstöfunar núna á ári minnst 100 millj. til útlána, og geta lánað a.m.k.1/2 milljón út á jörð. Það er algert lágmark í mínum huga, 1/2 milljón að láni til jarðakaupa úr veðdeildinni. Ég efast ekkert um það, að hv. 4. þm. Vesturl., Friðjón Þórðarson, sem er formaður bankaráðsins, og þeir aðrir, sem þar eiga sæti í bankaráði nú, hafi fullan vilja á að leysa þetta mál, séu tillögugóðir í því efni. En það er ekki nóg. Það er við ríkisvaldið að eiga í þessu efni, það er ríkisvaldið, sem verður að finna úrræðin og leggja fram fé til þess að bæta úr á þessu sviði. Og frá minni hendi er það alveg skilyrðislaus krafa, að þarna sé vel að unnið, hverjir svo sem með stjórn fara hér eftir, að þeir leggi sig fram um það að bæta úr á þessu sviði, því að ég álít það mjög þýðingarmikið fyrir íslenzkan landbúnað, að þarna verði fundin úrræði og úrlausnir á þessu sviði. Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri að sinni.