05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1694 í B-deild Alþingistíðinda. (1713)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 5. þm. Austf. varð nokkuð tíðrætt um það, hvað óhagkvæmt væri að lána aðeins út á eina framkvæmd, og get ég vel fallizt á það, a.m.k. þegar um viss jarðarhús er að ræða. Það er alveg rétt, að bankinn tók þessa stefnu upp til þess að hafa betra vald á þessum málum. Það er eins og annað, að umsækjendur verða að gera grein fyrir þessu, þegar þeir sækja um lánin, og ég vek athygli á því, að þegar bankinn svarar þeim, þá segir hann þeim, hverju þeir mega eiga von á. Hvað miklu láni og út á hvaða framkvæmd. Hitt er annað mál, að þetta getur í ýmsum tilvikum verið mjög óþægilegt fyrir þá, sem í framkvæmdum standa, en ég hygg, að mér sé óhætt að segja, að bankinn hefur leitazt við á allan hátt að ganga til móts við slíka umsækjendur, þegar sérstaklega hefur staðið á, og greiða götu þeirra eftir beztu föngum, þó að hins vegar sé ekki hægt að neita því, að við þessa reglu hefur nokkuð verið miðað í svörum til bænda. Hvort svo er fyllilega sambærilegt að tala um lán út á báta í þessu sambandi skal ég ósagt láta, en um það mætti sjálfsagt ræða í lengra máli.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. bar fram fsp. hér áðan og spurði, hvort ég áliti, að þess mætti vænta, að veðdeildarlán yrðu hækkuð í vetur eða vor. Það, sem ég veit um þetta, er það, að það hefur legið mjög í loftinu, að þessi lán yrðu hækkuð, því að allir viðurkenna nauðsyn þess. Hvort svo verður í náinni framtíð, skal ég ekki fullyrða, en hitt er þá að sjálfsögðu ljóst, að ef þessi lán yrðu hækkuð upp í 1/2 milljón, þá yrði þar meira fé til að koma til veðdeildarinnar. En að þessu er sjálfsagt að vinna. Hv. 2. þm. Sunnl. ræddi svo hér sérstaklega um veðdeildina eins og fleiri, taldi, að hún væri olnbogabarn og bændur fengju ekki nema að hámarki 200 þús. kr. lán út á jarðakaup og þyrftu auk þess að bíða eftir láni í eitt, tvö eða jafnvel þrjú ár. Það má vel vera, að það finnist dæmi um þetta frá fyrri árum, en núna frá síðari árum held ég, að það finnist varla um þetta dæmi, vegna þess að það hefur verið lögð áherzla á að afgreiða þær umsóknir, þar sem skjöl, lánsskjöl, voru á annað borð í lagi. Hitt er annað mál, í sambandi við eignarskipti á jörðum, að þá er þar oft um dálítið flókin samskipti að ræða, þannig að oft vill standa á veðleyfum og ýmsum fskj., sem þurfa að berast með lánsumsókninni til þess að bankinn geti afgreitt hana. Og í þessu sambandi vil ég aðeins geta þess, að snemma á þessu ári var samþ. í bankaráðinu, að þær fáu umsóknir, sem óafgreiddar lágu frá síðasta ári eða um síðustu áramót, yrðu afgreiddar þá þegar. Ég get svo fallizt á það með hv. 2. þm. Sunnl., að þessi jarðakaupalán þyrftu að hækka í 1/2 milljón, þannig að unnt væri að meta í hverju einstöku tilviki, hvað sanngjarnt væri að lána. Hv. þm. hefur nú setið ég held síðustu einn eða tvo bankaráðsfundi og á þar væntanlega setu a.m.k. að einhverju leyti framvegis, þannig að ég held, að við ættum að geta þar lagt ráð okkar saman, eins og hann tók til orða. Ég veit, að við erum báðir sammála um það, að við viljum ekki hafa eitt barnið út undan, við viljum ekki hafa olnbogabarn í fjölskyldunni og það má til sanns vegar færa, að veðdeildin sé það í Búnaðarbankanum, vegna þess að ekki hefur enn þá tekizt að koma málefnum hennar á fastan grundvöll til frambúðar. En ég efast ekki um það, að ef við og aðrir góðir menn leggjum ráð okkar saman, þá muni sá vandi leysast innan tíðar.