05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1695 í B-deild Alþingistíðinda. (1714)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Ég skal nú ekki lengja þessar umr. Ég fagna mjög þeim stórhug, sem hér kemur fram í garð veðdeildar Búnaðarbankans, og vonast til, að menn geti orðið samhuga um þann stórhug, þegar tímar liða, þannig að við skulum allir muna eftir þeim orðum. Hitt er rétt, sem hv. þm. sagði, 2. þm. Sunnl., að deildin hefur verið olnbogabarn yfirleitt alla tíð, það er rétt. Hún hefur alltaf verið látin sitja á hakanum, þegar fjár hefur verið aflað til stofnsjóða Búnaðarbankans, frá því ég fyrst man eftir. Veðdeildin hefur orðið fyrir einstaka höppum, ef það hefur orðið gengishagnaður eða eitthvað slíkt, sem hefur flotið á hennar fjörur, en hins vegar hefur það alltaf verið látið sitja í fyrirrúmi og gengið treglega að fullnægja því að lána bændum stofnlán til nýframkvæmda. Þetta hefur verið svona um áratuga bil og skal engan um það saka. Hitt er annað mál, og það hygg ég rétt vera, að það hefur þó nokkuð vænkazt hagur veðdeildarinnar nú einmitt síðustu árin, þó að það sé hárrétt hjá hv. þm., að það vantar mikið á, að það sé fullnægjandi, og ég tel, að það hafi verið brýn nauðsyn að hefja nokkra fjárveitingu til hennar, sem gert var í fyrsta skiptið nú í vetur, m.a. vegna þess að annars vofa yfir henni sömu örlög eins og yfir stofnsjóðum landbúnaðarins og ræktunarsjóði og byggingarsjóði á sínum tíma, að þeir yrðu gjaldþrota, af því að þeir eru látnir lána út með lægri vöxtum heldur en það lánsfé er, sem þeir verða að notast við frá bankakerfinu, og það hefur því alltaf verið halli á veðdeild Búnaðarbankans, þannig að hún hefur verið að éta upp sitt eigið fé, og það þarf þess vegna ríkisframlag, eitthvað a.m.k., til þess að jafna þau met. Að öðru leyti skal ég ekkert um þetta mál segja, við getum vafalaust allir verið sammála um það, að það væri þörf á, að stofnlánadeildin og veðdeildin gætu lánað meira, en vil aðeins vekja athygli á því, að það er mjög fátítt og naumast þekkt, að stofnsjóðir atvinnuveganna geti veitt mönnum lán alveg eftir því, sem þeim hentar. Það yfirleitt þekkist ekki. Það er rétt, að það er einna bezt búið að sjávarútveginum í þessu efni, en á það má líka benda, að sjávarútvegurinn verður að taka að mjög verulegu leyti gengisáhættulán, sem auðvitað hefur oft og tíðum orðið honum þungur baggi, eins og margir hv. þm. þekkja. Ég skal ekki fara lengra út í þá sálma og ekki espa til neinna umr. í þessu sambandi, en það er vissulega rétt og skylt að reyna að styðja við bakið á Stofnlánadeild landbúnaðarins eins og öðrum stofnsjóðum yfir höfuð og veðdeildinni og verður það vonandi gert, eftir því sem fjármagn frekast leyfir.

En það var aðeins eitt atriði, sem ég vildi segja í tilefni af ræðu hv. 4. þm. Reykv., að áætlun sú frá ráðuneytisstjórunum, sem hann vitnaði í og sem ég vil á engan hátt vefengja að sé rétt, hún gerði m.a. ráð fyrir mjög verulegum kostnaði við útgerð skips, ef ég man rétt, og það er auðvitað útilokað annað, en að það verði að greiðast af ríkissjóði. Það er ekki hægt að fara að taka lán til þess að greiða útgerðarkostnað af skipi. Það er rekstur og við höfum hingað til ekki tekið að láni nema stofnlán. Þannig að þess vegna liggur í augum uppi, að komi til útgerðar skips á þessu sumri, þá verður ríkissjóður með einhverjum hætti að sjá fyrir því sem venjulegum rekstrarútgjöldum sínum. Alveg eins og á sér stað með Landhelgisgæzluna, það hefur oft verið lagt í t.d. aukna fiskileit, og hjá Hafrannsóknastofnuninni. Það er núna t.d. alveg nýlega búið að samþykkja það, að eitt af skipum Landhelgisgæzlunnar verði gert út til bátaaðstoðar á Faxaflóa, en auðvitað kemur ekki annað til álita, en það verði að greiða af rekstrarfé ríkissjóðs. Við getum ekki farið að taka lán til þeirra þarfa. Þess vegna held ég, að allt beri að einum brunni með það, að hér sé ekki þörf á fé, og miðað við þær yfirlýsingar, sem hafa verið gefnar, þá er alveg ástæðulaust að gefa það í skyn, að þetta sýni, að það sé ekki áhugi á að leysa þessi vandamál. Það er hægt að gera það eftir ýmsum leiðum og liggur ekki fyrir, hvað þarf að greiða með beinum lántökum eða verður gert með öðrum hætti, og þess vegna er vandmetið, hvað á hér að taka upp, ef menn vildu taka upp einhverjar heimildir til lántöku svo sem hv. þm. gerir ráð fyrir, og þess vegna segi ég enn og einu sinni, að það sýnir ekki áhugaleysi, síður en svo. Það liggja fyrir ákveðnar yfirlýsingar um, að það verði séð fyrir nauðsynlegu fé, eftir því sem tiltækilegt verður talið og heppilegt að ráðast í á þessu sumri, og þarflaust er að taka upp sérstaka heimild hér í þessu sambandi meðan menn hafa ekki hugmynd um, hvað verið er að ræða varðandi upphæðir.