05.04.1971
Neðri deild: 87. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1697 í B-deild Alþingistíðinda. (1715)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Þórarinn Þórarinsson:

Herra forseti. Ég held, að það sé mesti misskilningur hjá hæstv. ráðh., að þau framlög, sem verða látin renna til þess að fram fari rannsókn á landgrunninu, eigi að flokkast undir rekstrarkostnað frekar en margar rannsóknir aðrar, sem ráð er fyrir gert í umræddu frv. eða því frv., sem hér liggur fyrir, að verði framkvæmdar fyrir það fé, sem aflað er samkv. 1. gr. frv. Þar er um að ræða t.d. orkurannsóknir, mjög víðtækar. Þessar rannsóknir, sem eiga að fara fram á landgrunninu, eru á margan hátt hliðstæðar orkurannsóknunum. Við vitum ekkert, hvaða þýðingu þessar rannsóknir geta haft eða þær geta fengið síðar. En þetta færum við sem venjulegan rannsóknarkostnað, en ekki sem sérstakan rekstrarkostnað á fjárl. Ég held, að stærsti liðurinn, ég hef frv. því miður ekki fyrir framan mig, en ég held, að stærsti liðurinn í frv., útgjaldaliðurinn, séu orkurannsóknirnar. Og við teljum það ekki venjulegan rekstrarkostnað. Það færist kannske á reikning framtíðarinnar einhvern tíma síðar alveg eins og rannsóknir á landgrunninu. Þær geta átt eftir að bera margfaldan hagnað síðar og þær réttlættar þannig. En ég held, að það sé þess vegna fjarri lagi hjá hæstv. ráðh., að það sé eitthvað sérstakt og óeðlilegt í sambandi við þetta frv. að ætla að veita því framlag til rannsóknar á landgrunninu, því að það er alveg hliðstætt margs konar öðrum rannsóknum sem frv. fjallar um. Ég vil t.d. nefna það, að í Ed. var flutt till. um það, sem að vísu náði ekki fram að ganga, en var talin standast alveg formlega, að það væri tilgreind í frv. sérstök fjárveiting til rannsóknar á neyzluvatni. Og ég má segja, að í frv. er fjárveiting, sérstök fjárveiting vegna rannsókna á sjóefnavinnslu, hvort sem úr því fyrirtæki fæst árangur eða ekki. Við skulum vona, að það geti orðið. En við leggjum þarna til rannsókna, sem við teljum nauðsynlegt, að séu gerðar, sem eru líklegar til þess að skila arði síðar meir. Enginn veit hvenær og alveg eins var með rannsóknir á landgrunninu. Við gerum okkur vonir um það, að þær geti átt eftir að bera margvíslegan árangur. Það er mjög líklegt, að það finnist ýmis efni í hafsbotninum, sem við getum notfært okkur, auk þess sem það er ein veigamesta undirstaða okkar réttindabaráttu í landhelgismálinu, að við höfum sem nákvæmasta og bezta vitneskju um landgrunnið. Ég held, að það sé þess vegna mesti misskilningur hjá ráðh., að efnisins vegna geti þessar rannsóknir ekki fallið undir þetta frv., sem hér liggur fyrir. En við þurfum sem sagt ekki að karpa meira um þetta á þessu stigi, vegna þess að till. okkar hefur verið tekin aftur til 3. umr. og verður þá flutt í því formi, sem hæstv. ráðh. telur, að sé eðlilegt, og það er sjálfsagt að verða við óskum hans um það. En ég vænti hins vegar þá, að þegar hæstv. ráðh. er búinn að fá góðan svefn í nótt og vaknar aftur að morgni, þá geri hann sér grein fyrir því, að það sé betra fyrir ríkisstj. að hafa heimild til þessara framkvæmda, fyrst hún telur sig ætla að ráðast í þær á annað borð á þessu ári. En ég hefði nú álitið hæstv. ráðh. vera þannig, að hann vildi nú frekar ráðast í ýmsar framkvæmdir og gera það þannig, að hann hefði heimildir til þess á Alþ., heldur en gera það í heimildarleysi, og mér finnst eiginlega, að hæstv. ráðh. sé eitthvað brugðið, þegar hann er farinn að sækjast eftir því að geta ráðizt í meiri háttar framkvæmdir án þess að hafa ákveðna fjárveitingu frá Alþ. eða heimild til þess að gera það. Ég vona þess vegna, að ráðh. hafi góðan svefn í nótt og þegar hann vakni að morgni sjái hann það, að það sé í samræmi við hans heilbrigðu stefnu fram að þessu að vilja frekar hafa heimildir fyrir þeim framkvæmdum, sem hann ræðst í, heldur en ekki.