06.04.1971
Neðri deild: 90. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1699 í B-deild Alþingistíðinda. (1719)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Fjmrh. (Magnús Jónsson):

Herra forseti. Við 2. umr. þessa frv. í gærkvöldi urðu nokkrar orðræður milli mín og hv. 4. þm. Reykv. í sambandi við lántökuheimild til rannsókna á landgrunninu, en í grg. þeirri, sem fylgir þáltill. ríkisstj. um ályktun í landhelgismálinu, þá er að finna skýrslu um rannsóknir, sem talið er nauðsynlegt að gera á landgrunninu og hraða sem mest. Ég lýsti þar þeirri skoðun minni, að þess gerðist ekki þörf að afla sérstakrar lántökuheimildar í þessu skyni, það mundi verða séð fyrir því fé með bráðabirgðaláni eða fjárveitingu úr ríkissjóði, ef á þyrfti að halda, og ekki væri sjáanlegt, eins og sakir stæðu nú, hver fjárhæð kæmi hér til álita: Hv. 4. þm. Reykv. hélt hins vegar fast við till. sína og vonaðist til þess, að ég svæfi vel í nótt og mundi íhuga minn gang. Ég skal játa það, að ég svaf nú ekki vel í nótt, en hef kannske þess vegna íhugað minn gang og niðurstaðan úr þeirri athugun er sú, að enda þótt ég hafi að engu leyti skipt um skoðun í þessu efni þá mundi ég telja það mjög óheppilegt og geta leitt til gagnályktunar, bæði fyrir fjmrh. í sambandi við fjáröflun og enda óheppilegt út á við einnig, ef við færum að eiga hér í orðakasti um þetta mál og atkvgr. gengi á þann veg, að till. um fjáröflun í þessu skyni yrði felld. Af þessum sökum, enda þótt ég telji það ekki skipta neinu höfuðmáli, þá tel ég samt rétt og vonast til, að við hv. þm. getum þá orðið sammála um það að leggja til skriflega brtt. við 6. gr. frv. þess efnis, að enn fremur verði ríkisstj. heimilað að taka lán allt að 30 millj. kr. til rannsókna á landgrunninu. Eins og ég benti á í gær, þá rúmast þessi fjáröflun ekki innan fjáröflunar 7. gr., þannig að hér yrði að koma til sérstök fjáröflun og það kemur þá til álita, að hve miklu leyti þarf á þessu fé að halda eða ekki. Hér er um algera hámarksupphæð að ræða, því að eins og ég sagði í gær þá kæmi ekki til álita, ef einhver af skipum ríkisins a.m.k. yrðu notuð til úthalds í þessu sambandi, að fara að greiða það með lántöku, þar sem hér væri um hrein rekstrarútgjöld að ræða, þannig að hér er um algert hámark þess að tefla, sem líklegt er að kynni að verða gripið til í þessu skyni. En í von um það, að samstaða geti orðið um þetta, þannig að á þessu verði ekki sá blær, að það sé nein deila um það, að allir stefni hér að sama marki, sem við enda lýstum báðir yfir í gær, að væri sameiginlegt og hæstv. forsrh. var búinn að taka greinilega fram af sinni hendi, þá er þessi till. fram lögð og ég vona, að við getum orðið sammála um að afgreiða málið með þessum hætti og hv. þm. þá og flm. þeirrar till., sem hann er 1. flm. að, fallizt á að draga till. sína til baka. Þessi till., herra forseti, er skrifleg og of seint fram komin og verð ég því að biðja um, að afbrigða verði leitað fyrir henni.