06.04.1971
Efri deild: 96. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1701 í B-deild Alþingistíðinda. (1728)

266. mál, lán vegna framkvæmdaáætlunar

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Ég vil með ánægju fallast á það að samþykkja þetta frv. með þessari breytingu. Ég tel þessa heimild, sem í því felst, vera mjög mikilsverða og ég minni á það, að það var í Nd. flutt brtt. frá stjórnarandstæðingum um það að verja 35 millj. í þessu skyni. Nú hefur hæstv. ráðh. gengið inn á það með þeim hætti að miða þetta við 30 millj. og það auðvitað skiptir ekki verulegu máli, hvort um 30 millj. eða 35 millj. er að tefla. Aðalatriðið er það, að með þessu er undirstrikuð og lögð áherzla á þá nauðsyn, sem á því er að sinna þessum málum meira en gert hefur verið að undanförnu.