31.03.1971
Efri deild: 83. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1702 í B-deild Alþingistíðinda. (1733)

280. mál, bátaábyrgðarfélög

Frsm. (Jón Árnason):

Herra forseti. Frv. það, sem hér um ræðir, er flutt að beiðni Samábyrgðar Íslands. Efni þess er aðallega í því fólgið að breyta um tölu stjórnarnefndarmanna í bátaábyrgðarfélögunum. Það hefur reynzt erfitt — þetta eru félög, sem eru mjög fámenn víðast hvar, — að skipa 5 stjórnarnefndarmenn og jafnmarga til vara, endurskoðendur og annað þess háttar og þess vegna er gert ráð fyrir að breyta þessu þannig, að stjórnarnefndarmenn verði aðeins þrír o.s.frv. Og svo er önnur breyting, sem þetta frv. felur í sér, sem fram kemur í 2. gr., og hún er í beinu framhaldi af því, sem áður er komið, að erfitt hefur reynzt að framkvæma það ákvæði l. að halda aðalfundi bátaábyrgðarfélaganna fyrir lok júnímánaðar ár hvert og þess vegna er fallizt á að framlengja tímann, að aðalfundirnir verði haldnir í októbermánuði ár hvert.

Eins og fram kemur í nál. sjútvn., þá mælir hún með því, að frv. þetta verði samþ. óbreytt.