22.02.1971
Efri deild: 52. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1704 í B-deild Alþingistíðinda. (1747)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Eins og hv. þdm. sjálfsagt muna, var hér á næst síðast liðnu þingi, haustið 1969, lagt fram frv. til l. um utanríkisþjónustu Íslands. Þetta frv. var samið af n., sem í voru Benedikt Gröndal alþm., Gils Guðmundsson alþm., Ólafur Jóhannesson alþm., Sigurður Bjarnason alþm. og Agnar Klemenz Jónsson ráðuneytisstjóri, sem var formaður n.

Þetta frv. var lagt hér fram, en náði ekki fram að ganga, þ.e.a.s. því var vísað til n., allshn. að ég ætla, og síðan leitað umsagnar utanrmn., sem hafði það til meðferðar um nokkurn tíma, en niðurstaða varð ekki og málið dagaði uppi. Ekki vegna þess að ég tel, að menn hafi haft á móti ákvæðum frv., heldur vegna hins, að það voru smáleiðréttingar, sem menn töldu, að rétt væri að gera, og það held ég, að hafi verið ástæðan fyrir því, að frv. náði ekki fram að ganga. Lögin um utanríkismál eru orðin gömul, þau eru frá 1941 og þess vegna að ýmsu leyti orðin úrelt og nauðsynlegt að gera á þeim breytingar, bæði formsins vegna og eins einstök efnisatriði ekki síður. Niðurstaðan varð svo sú, að utanrmn. fól að ég ætla nokkrum mönnum að gera till. um breytingar á lagafrv., sem borið var fram Í969, og það voru að ég ætla mest meðlimir í utanrmn., sem tóku það að sér eða hafa samið það. Þeir voru þessir: Birgir Kjaran, sem nú er orðinn formaður n. í stað Sigurðar Bjarnasonar, Gils Guðmundsson, próf. Ólafur Jóhannesson og Benedikt Gröndal og með þeim starfaði Pétur Thorsteinsson ráðuneytisstjóri, sem tók sæti Agnars Klemenz Jónssonar í n. Ég held, að það sé óþarfi, að ég reki frv. eins og það var lagt fram 1969, heldur minnist aðeins á þau atriði, sem breytt hefur verið frá því frv. og sem nú eru felld inn í þetta frv., sem hér hefur verið lagt fram. Þetta eru ekki mörg atriði, en ég skal minnast á þau helztu.

Það var í fyrsta lagi, að ákveðið er nú, að forsetaúrskurð þurfi til þess að ákveða, hvar skuli vera sendiráð, fastanefndir hjá alþjóðastofnunum og sendiráðsskrifstofur. Áður náði ákvæðið einnig til kjörræðisskrifstofa. Fellt er niður ákvæði 7. gr. varðandi nafnbætur ræðismanna. Orðalagsbreytingar eru nokkrar. Orðið ambassador var numið í burtu og skipting ambassadoranna í tvo flokka, A-flokk og B-flokk, er einnig felld niður. Í stað orðsins ambassador er nú notað orðið sendiherra. Hvað snertir flokkana fimm, sem starfsmönnum utanríkisþjónustunnar var skipað í í 8. gr., er ekki gert ráð fyrir, að skipun, forsetaskipun eða ráðherraskipun, og lausn þurfi, þó að menn séu fluttir milli staða eða starfa innan sama flokks. Þar sem rætt er um ráðningu viðskiptafulltrúa og annarra sérfulltrúa um tiltekinn tíma, er fellt niður ákvæðið varðandi sérfyrirkomulag á launagreiðslum, eins og það var í upphaflega frv., en hins vegar er gert ráð fyrir því í aths. við gr., að aðilar, sem standa að ráðningu slíkra fulltrúa, geti tekið þátt í launagreiðslum til þeirra. Í sjötta lagi er ekki fastbundið, að skjalavörður utanrrn. skuli annast vörzlu bókasafns og skráningu og útgáfu samninga, heldur tekið fram, að svo skuli vera að jafnaði. Tekið er enn fram í 14. gr., að settar skuli reglur um greiðslu sjúkrakostnaðar starfsmanna utanríkisþjónustunnar erlendis. Þetta er mjög stórt atriði, þar sem sjúkrahúsagreiðslur og greiðslur vegna sjúkdóma eru víða erlendis mjög háar, þannig að það er starfsmönnum utanríkisþjónustunnar stundum ofurefli að standa undir þeim. Þetta er að vísu ekki alls staðar jafnerfitt, en þó nokkuð víða, og hefur komið fyrir, að það hefur orðið að gera sérstakar ráðstafanir til þess að inna þessar greiðslur af hendi.

Þá held ég, að sé upp talið mest af þessum breytingum. Nokkrar orðalagsbreytingar hafa verið gerðar, sem ég hef ekki minnzt á, en eins og ég segi, ég tel ekki ástæðu til að rekja efni frv. á ný. Það var gert rækilega í fyrra, þegar frv. kom hér fyrst fram. En ég hef aðeins getið þeirra breytinga, sem gerðar hafa verið á því frv., sem þá var lagt fram og sem felast í þessu frv.

Ég held, að ég þurfi ekki að hafa um þetta fleiri orð, herra forseti, en vildi leyfa mér að leggja til, að málinu verði, að lokinni umr., vísað til hv. allshn. og ég vildi mælast til, að málið yrði afgreitt svo tímanlega, að því gæti lokið á þessu þingi.