07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 312 í B-deild Alþingistíðinda. (176)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Þar sem ég á nú sæti í þeirri n., sem fær þetta frv. til meðferðar, mun ég ekki ræða það mikið nú, en vegna ummæla hæstv. landbrh. í sambandi við Stofnlánadeild landbúnaðarins vil ég ekki láta hjá líða að taka þau ummæli aðeins hér til meðferðar. Það var ekki hægt að skilja annað á hæstv. ráðh. en þessir sjóðir hafi verið svo illa komnir, þegar vinstri stjórnin fór frá völdum, að þeir hafi verið sem sé komnir í strand.

En sannleikurinn í því máli er sá, að í árslok 1958 átti Ræktunarsjóður 61.7 millj. kr., en Byggingarsjóður 43.4 millj. kr. eða þessir sjóðir samtals rúmar 105 millj. kr. En þessir tveir sjóðir voru sameinaðir 1962, og það er Stofnlánadeild landbúnaðarins. Í árslok 1969, eins og hæstv. ráðh. sagði, er eign stofnlánadeildarinnar tæpar 145 millj. kr. Það er öll eignin. Á þessum tíma hafa þó bændur borgað um 100 millj. kr. með stofnlánadeildargjaldi sínu. Þeir hafa borgað langtum hærri vexti af þessum lánum, því að vextir til byggingarlána voru 2½%, en í Ræktunarsjóði 4%. Nú eru þessir vextir 6% út á íbúðarhús, en 6½% út á aðrar byggingar og ræktun. Og ef við förum svo að athuga, hvers virði þessar krónur eru nú miðað við það, sem þær voru 1958, þá held ég, að allir hljóti að sjá, að í raun og veru er stofnlánadeildin langtum verr sett nú en hún var þá. Hæstv. ráðh. sagði, að erlendar skuldir væru ekki svo hættulegar fyrir stofnlánadeildina, vegna þess að það hefði verið tekið — og það var rétt upp 1962, að vinnslustöðvar og ræktunarsambönd urðu að taka á sig gengisáhættuna af sínum lánum. En nú er það þannig, að í árslok 1969 skuldaði deildin í erlendum gjaldeyri 354.3 millj. kr., en í innlendum lánum tæpar 563 millj. kr., hin erlendu lán eru um 38% af þeim skuldum, sem stofnlánadeildin er í. Og reynslan hefur líka sýnt í gengisfellingunum 1967 og 1968, að deildin hefur fengið allveruleg áföll af þeim gengisbreytingum. Og það er enginn vafi á því, að yrði gengisfelling á næsta ári, eins og allar líkur eru á nú, þegar kosningavíxillinn fellur, þá verða góð ráð dýr, vænti ég, þá gætu orðið ný áföll hjá stofnlánadeildinni.

Ég gat ekki látið hjá líða að gera þessar aths. við ræðu hæstv. ráðh. Hitt skal ég taka undir með honum, að Lífeyrissjóður bænda er merkilegt mál, gamalt baráttumál bændastéttarinnar, sem er að komast í höfn, en á því eru þó ýmsir agnúar, sem þyrfti að laga, t. d. aðstaða þeirra bænda, sem hafa kannske búið alla sína tíð, en hafa hætt fyrir 1967; þeir komast ekki þarna að — og hvergi. Þarna er sýnilegt óréttlæti, sem þarf að laga. Ég gat um það, en ætla ekki að fara út í þá sálma nú — ég geri það e. t. v. við 2. umr. um Lífeyrissjóðinn — að greiðslurnar verða líka miðað við þær raunverulegu tekjur, sem bændastéttin hefur, sérstaklega á árunum 1974 og 1975, þegar þeir verða að borga full iðgjöld af Lífeyrissjóðnum og fullt 1% gjald í stofnlánadeildina, þungbærar fyrir bændastéttina, ef ekki verður einhver breyting á þeim tekjum, sem þeir hafa haft fram að þessu.

Herra forseti. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að hafa þessi orð fleiri, nema frekari tilefni gefist til.