22.03.1971
Neðri deild: 66. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1721 í B-deild Alþingistíðinda. (1760)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Utanrrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð út af ræðu hv. 9. þm. Reykv. Og þó sérstaklega út af því atriðinu, sem hann minntist á síðast um stöðuveitingar utanrrn. Hann vildi halda því fram, að undanþága sú, sem utanrrn. hefur frá því að auglýsa í stöður, hafi verið gróflega misnotuð, held ég, að hann hafi sagt eða eitthvað því um líkt, það væri regla, að mér skildist, að láta í sendiherrastöður eða aðra starfsemi utanríkisþjónustunnar ganga fyrir stjórnmálamenn, sem væru hættir störfum á þeim vettvangi, þeir væru látnir taka við störfum í þágu utanríkisþjónustunnar. Ég held, að þetta sé mjög ofmælt hjá hv. þm. Það eru aðeins tveir sendiherrar nú starfandi, sem hafa lagt fyrir sig stjórnmál áður, og þeir eru báðir tveir, að ég ætla, fullkomlega þess megnugir að inna störf af hendi í þágu utanríkismála eins og aðrir. Annars eru allir hinir sendiherrarnir menn, sem eru aldir upp í utanríkisþjónustunni og hafa unnið sig upp í það að vera gerðir að sendiherrum. Starfsmenn aðrir, fulltrúar og aðrir slíkir, hafa yfirleitt aldrei komið nálægt pólitískum störfum. Ég vildi aðeins mótmæla því, að það sé aðalregla, að stjórnmálamenn séu settir í þessi störf, heldur eru það menn, sem aldir hafa verið upp í utanríkisþjónustunni og hafa fengið sína starfsreynslu þar áður heldur en þeir komu til meiri háttar starfa.