31.03.1971
Neðri deild: 79. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1722 í B-deild Alþingistíðinda. (1763)

217. mál, utanríkisþjónusta Íslands

Magnús Kjartansson:

Herra forseti. Ég flyt á þskj. 626 brtt. við þetta frv. ásamt hv. þm. Sigurvin Einarssyni. Brtt. eru tvær og sú fyrri felur það í sér, að í lögin um utanríkisþjónustu Íslands verði tekin upp ákvæði um samskipti utanrrn. og Alþ., að þar verði fyrirmæli um það, að haft verði samráð við utanrmn. Alþ. um allar meiri háttar ákvarðanir í utanríkismálum, að fært sé í lögin aðild þingflokkanna að sendinefnd Íslands á Allsherjarþingi Sameinuðu þjóðanna og að árlega skuli hæstv. utanrrh. gefa Alþ. skýrslu um störf rn.

Ég flutti þessa till. einnig í fyrra, þegar frv. lá hér fyrir í annarri gerð, og þá fékk ég bréf frá einum virtasta starfsmanni utanrrn., Agnari Klemenz Jónssyni, sem nú er sendiherra í Noregi, þar sem hann benti mér á, að hann teldi, að þessi brtt. bryti í bága við kerfi frv., hún ætti frekar heima í þingsköpum, þessi ákvæði ættu frekar við í þingsköpum en í lögum um utanrrn. Nú má vel segja, að þetta sé formlega rétt. Engu að síður tel ég það vera algera nauðsyn, að það verði felld í lögin um utanríkisþjónustu Íslands ákvæði, sem tryggja það, að rn. hafi eðlilegt samráð við Alþingi Íslendinga. Við höfum af því reynslu í mörg ár, að ákvæði þingskapa um tengslin við þetta rn. voru þverbrotin. Og eftir þá reynslu þá finnst mér það vera óhjákvæmileg öryggisráðstöfun, að þetta sé sett í l. um sjálft rn. Við skulum einnig minnast þess, að þetta rn. er í sjálfu sér miklu sjálfráðara um öll sín mál en nokkurt annað rn. á Íslandi. Önnur rn. verða að bera undir Alþ. flest, sem gert er, smátt eða stórt. Hér er jafnvel fjallað um það við sex umr. í báðum deildum Alþ., hvort selja megi eitthvert eyðibýli, sem enginn hefur raunverulega áhuga á. En utanrrn. getur tekið hinar mikilvægustu ákvarðanir, án þess að það sé nokkru sinni borið undir Alþ. Og þessi skipan er algerlega óeðlileg. Alþ. á að fjalla um utanríkismál á sama hátt og önnur mál, og þau ákvæði, sem þarna er gert ráð fyrir, þau mundu tryggja þessi tengsl, að minni hyggju, betur en gert hefur verið, og raunar hefði ég talið, að það mætti gera það með mun fleiri ákvæðum heldur en þarna eru lögð til, en engu að síður tel ég, að þessi ákvæði þarna mundu stuðla að því, að þetta eðlilega samráð yrði milli rn. og Alþ. og að Alþ. tæki raunverulega ákvarðanir um stefnuna í utanríkismálunum, einnig um ýmis framkvæmdaratriði, sem skipta verulegu máli.

Önnur till., sem við erum þarna með, fjallar um það eitt, að ákvarðanir um sendiráð og fastanefndir hjá alþjóðastofnunum skuli teknar að fengnu samþykki Alþ., þegar tekin eru upp sendiráð á nýjum stöðum eða nýjar fastanefndir. Þetta gerist ekki það oft, að þetta mundi taka neinn óeðlilegan tíma, og einnig með þessu móti væri tryggt eðlilegt samráð milli rn. og Alþ.