07.12.1970
Neðri deild: 28. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 317 í B-deild Alþingistíðinda. (178)

24. mál, Stofnlánadeild landbúnaðarins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Hæstv. landbrh. hóf mál sitt með því hér áðan að segja, að ég hefði sagt í ádeilutón, að erlendu skuldirnar h á stofnlánadeildinni væru 38% af skuldunum. Ég sagði bara frá staðreyndum. Þetta er svona. Og ráðh. gat ekki hrakið það. Hann gat um það, að ég hefði hér á dögunum lesið hér upp tekjutölur stéttanna, og ég hefði sagt frá því, að þessar tölur væru komnar frá Hagstofunni. Ég sagði að vísu, að ein talan væri þaðan. Ég sagði það. En Tíminn fór þannig með það — og það er rétt — að allar tölurnar væru frá Hagstofunni. Ég spurði Hagstofuna um þessa tölu sérstaklega — í síma að vísu, og hún var staðfest. En ef maður fer að athuga það, hvernig Hagstofan reiknar þetta út, þá er það nú dálítið einkennilegur hlutur. Ég hef hér fyrir framan mig Hagtíðindi — ráðh. e. t. v. líka — og á bls. 173 er fjallað um, hvernig háttað er um b-flokk eftir atvinnuvegi og vinnustétt. Og einnig stendur hér annað: búrekstur, gróðurhúsabú, garðyrkjubú, o. s. frv. 6358. Og svo er hér sagt, að t. d. séu framteljendur hér 1440 konur. Samtals séu framteljendur 8647, telur Hagstofan. Hvernig er þessi atvinnuskipting eftir þessum tölum Hagstofunnar? Hver trúir þessum tölum? Kannske ráðh., af því að þær koma frá Hagstofunni. En það er sagt hér meira á þessu blaði. Það er sagt, að meðaltekjur á framteljanda séu 154 þús. kr. Hvernig eru tölur þær, sem ráðh. var að lesa hér upp áðan í samræmi við þetta? Ég vil benda hæstv. landbrh. á, að hann ætti að setja nefnd til þess að athuga þessar tölur frá Hagstofunni og bændasamtökunum til að kryfja þetta mál til mergjar.

Ég hef hér fyrir framan mig skýrslu, sem er komin frá stéttarsamtökunum, um niðurstöðu sérstaks úrtaks 60 búa á árinu 1970. Hver er niðurstaðan í því? Niðurstaðan í því er 149 647 kr. Ég hef hér skýrslu, sem hæstv. landbrh. hlustaði á á Varmalandi í sumar, þar sem formaður Stéttarsambands bænda las hana upp. Hann segir þar, með leyfi forseta:

Skýrslan um úrtaksbúin sýnir nettótekjur bænda 149 þús. á móti 277 þús. hjá viðmiðunarstéttunum.

Ég hef ekki heyrt, að hæstv. landbrh. hafi nokkuð haft við þessar tölur að atbuga. Hann hlustaði á þessa ræðu. Hann hefur hlustað á þessar tölur. Ef þessi tala, sem ég hef verið með, er röng, þá er þessi tala líka röng. En ég vona, að hæstv. alþm. hafi áttað sig á því, þegar ég las hér upp áðan úr þessum Hagtíðindum, að það eru einkennileg vinnubrögð, þegar Hagstofan segir, að það séu 8647 framteljendur í landbúnaði. Og meðaltekjur þessara manna séu 154 þús. kr. En þegar verið er að tala um brúttótekjur bændanna annars vegar og brúttótekjur vinnandi stétta hins vegar, þá eru það alls ekki sambærilegar tölur. Og það vona ég, að hæstv. landbrh. geri sér alveg ljósa grein fyrir. Og það er vegna þess, að í sambandi við brúttótekjur í landbúnaði eiga eftir að koma til allir vextir bæði persónulegir og vegna rekstrarins. En nú skora ég á ráðh. að tilnefna formann Stéttarsambandsins eða einhvern frá Stéttarsambandinu og hagstofustjóra til að kanna þetta mál, og ég hefði viljað mælast til þess að fá að vera með í þessari könnun, og þá getum við séð, hvað er rétt og hvað er rangt. Það þýðir náttúrlega ekki fyrir ráðh. eða þm. hér að vera með einhvern talnaleik, eins og svo oft er. Það verða að fást gögn — sambærilegar tölur — til þess að út úr því komi í raun og veru rétt niðurstaða. Í sambandi við það, sem hann var að spyrja um, þ. e. hvaðan ég hefði viðmiðunarstéttirnar, er rétt að geta þess, að þær hef ég frá fyrra tímabili í þjóðarbúskapnum — frá 1964. Ég get fundið blaðsíðutalið, ef ráðh. vill, til þess að hann átti sig á því, hvernig það er fengið. En þegar hagstofustjóri var að tala við mig einmitt um þessar tölur, þá sagði hann, að þetta væru ekki réttar tölur, vegna þess að það á að reikna það til verðlags ársins 1962, en ég er með tölur úr búnaðarskýrslum, auðvitað eins og þær eru á hverju ári, og þess vegna er þessi samanburður rangur.

Það væri náttúrlega hægt að segja ýmislegt fleira um ræðu ráðh., en ég sé ekki ástæðu til þess. Ég vil þó minna á það, að það var ekki hægt að heyra annað á hans ræðu en gengisáhætta hefði verið á þeim lánum, sem bændurnir hefðu tekið, áður en hann tók við þessum málum. Ég gat ekki skilið orð hans á annan veg. Ef það hefur verið það, sem hann var að gefa í skyn, þá vil ég leiðrétta, að það er ekki rétt. Það hefur aldrei verið gengisáhætta á slíkum lánum.