18.12.1970
Neðri deild: 37. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1730 í B-deild Alþingistíðinda. (1801)

159. mál, fiskimálasjóður

Flm. (Sverrir Júlíusson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér ásamt hv. 1. þm. Vestf., 2. þm. Vestf., 5. þm. Vestf. og hv. 4. þm. Austf. að flytja frv. til l. um breyt. á l. nr. 89 5. júní 1947, um fiskimálasjóð, eins og það liggur fyrir á þskj. 201. Frv. er ekki stórt í sniðum og þarf ekki mikilla skýringa við. Það er um það að veita stjórn fiskimálasjóðs heimild til að veita hámarkslán upp í 600 þús., en hámarkið hefur verið 400 þús. frá 1962. Þar áður var hámarkið 150 þús. kr. og ef horft er enn lengra til baka var það um 40 þús., eins og það var í framkvæmd. Ég tel ekki ástæðu til þess að fara að rekja þetta mikið nánar, en taldi þó ástæðu til þess að gefa nokkrar upplýsingar um lánveitingar fiskimálasjóðs, eins og þær voru um síðustu áramót, en fram kemur í fskj. með frv., að þá námu útistandandi lán röskum 85 millj. kr. og þó að ég viti það, að það er orðið stutt til jóla og menn fýsir ekki, að ég fari að lesa upp, hvernig lánveitingar hafa skipzt í það heila tekið, þá hef ég gert mér það ómak, að ég hef sundurliðað það eftir lögsagnarumdæmum, og langar mig til þess að kynna þingheimi, hvernig hlutfallstölurnar eru, eins og lánin stóðu um síðustu áramát.

Það er þá fyrst Gullbringu- og Kjósarsýsla með 12.15%, Keflavík 4.41%, Hafnarfjörður 5.95%, Kópavogur 0.86%, Reykjavík 8.62%, Akranes 2.63%, Snæfellsnes- og Hnappadalssýsla 7.05%, Barðastrandarsýsla 3.81%, Ísafjarðarsýsla 3.60%, Ísafjörður 2.26%, Strandasýsla 0.39%, Húnavatnssýslur 0.33%, Sauðárkrókur 0.43%, Siglufjörður 1.05%, Ólafsfjörður 2.33%, Akureyri 3.68%, Eyjafjarðarsýsla 0.98%, Norður- og Suður-Þingeyjarsýsla 7.40%, Norður-Múlasýsla 2.74%, Seyðisfjörður 4.31%, Suður-Múlasýsla 12.27%, Neskaupstaður 3.32%, Skaftafellssýslur 0.94%, Vestmannaeyjar 6.03% og Árnessýsla 2.46%.

Lánveitingar þessar hafa skipzt á milli hinna ýmsu framkvæmda og er það þannig, að til frystihúsa hefur farið 21.1%, til annarra fiskvinnsluhúsa 29.66%, til fiskimjölsverksmiðja 3.40%, til netagerðar 1.80% og til verbúðabygginga 4.68%. Til skipasmíðastöðva 0.96% og til vinnsluverksmiðja 3.96%, en til síldarverkunarstöðva 18.99%, til skreiðargeymslna 3.02% og veiðarfærageymslna 1.26% og til ýmissa annarra framkvæmda 11.17%.

Ég sé ekki, herra forseti, ástæðu til þess að hafa framsögu þessa lengri. Ég veit, að þetta liggur mjög ljóst fyrir þm., en leyfi mér, herra forseti, að leggja, til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. sjútvn.