11.11.1970
Neðri deild: 16. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1735 í B-deild Alþingistíðinda. (1835)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Flm. Jónas Pétursson):

Herra forseti. Áður en ég vík að aðalefni frv. þess, sem hér liggur fyrir á þskj. 69, þá vil ég rifja ögn upp það, sem gerzt hefur um málefnið, viðfangsefnið, að tengja hringveg um landið með brúargerð á árnar á Skeiðarársandi og tilheyrandi vegagerð. Nokkrar till. hafa verið fluttar á Alþ. hin síðari ár til að vekja athygli á málinu og þrýsta á þann fræðilega undirbúning, rannsóknir, sem hyggilegt er, að svo ævintýraleg framkvæmd byggist á. Síðast var það á þinginu 1967–1968, sem nokkrir þm. úr öllum flokkum fluttu þáltill. um Skeiðarársandinn. Sú þáltill. var á þessa leið, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að skora á samgmrh. að láta gera áætlun um vega- og brúagerðir á Skeiðarársandi, sem tengi hringleið um landið, og á hvern hátt afla megi fjár til að framkvæma verkið. Áætlun þessari skal hraðað eftir föngum, svo að hafa megi hana til afnota við gerð næstu vegáætlunar.“

Á þingtímanum, meðan mál þetta lá fyrir, kom m.a. fram frá Pétri heitnum Benediktssyni viðbótartill. eða brtt., sem var á þessa leið, með leyfi forseta: „Í stað orðsins „og“ í fyrri mgr. till. komi: svo og um möguleika á því að leysa þetta vandamál með flugferju yfir vatnasvæðið.“ N. sú, sem hafði till. þessa til athugunar í Sþ., skilaði svo áliti og þá var till. nokkuð breytt og hún var að lokum samþ. þannig, að tillgr. var á þessa leið:

„Alþingi ályktar að skora á samgmrh. að láta gera áætlun um samgöngubætur yfir Skeiðarársand, sem tengi hringleið um landið. Áætlun þessari skal hraðað svo sem unnt er og að því stefnt, að hafa megi afnot hennar við gerð vegáætlunar fyrir árin 1972–1976.“

Þegar þessi till. var til umr. hér á hv. Alþ., tóku margir þm. til máls. Ég var einn í hópi flm. og var þá með nokkrar hugleiðingar um þetta mál og hafði hugsað mér að tala. En það kemur stundum fyrir, að síminn ónáðar okkur þm. og það vildi þá þannig til, að ég var kallaður í síma og missti af þessum möguleika, vegna þess að ég gegndi því. En eftir þennan þingfund, er ég kom til híbýla minna, greip ég segulband, sem ég hafði í fórum mínum, og festi þá á bandið ýmislegt, sem mér var hugleiknast um þetta mál, þetta merkilega mál. Og vegna þess að meginefni þess er jafnnýtt í dag eins og það var þá, þá ætla ég að vona, að enginn hv. þm. hneykslist á því, þó að ég taki þann kostinn að flytja þetta mál hér nú eins og ég setti það fram þá. Það hefur hvergi komið út, það hefur hvergi verið prentað, hvergi flutt. En ég kýs fremur að gera það, jafnvel þó að þetta sé óvenjulegt, heldur en reyna að færa það til þannig, að það sé eins og það sé talað núna á stundinni. (Gripið fram í.) Ég ætla að vona, að hv. alþm. væni mig ekki um það, að afflytja mitt eigið mál, en þetta var þannig: Í dag, þann 30. janúar 1968, var til umr. í Sþ. þáltill. allmargra þm. úr öllum flokkum um vega- og brúagerð um Skeiðarársand. En þá vildi svo til, þegar Karl Guðjónsson var að tala í málinu, að ég var kallaður í síma og gegndi því, en hafði þá ætlað mér að segja nokkur orð um till., er Karl lyki máli sínu, eða áður en umr. hætti. En er ég hafði lokið símtalinu, var umr. búin og tækifærið því glatað. En mér datt í hug undir ræðu samgmrh., að honum kynni að vera eitthvað í huga, en samgmrh. talaði að sjálfsögðu við þessa umr., að honum kynni að vera eitthvað í huga málshátturinn, „bráð er barnslundin“ um okkur flm. Ekki vegna þess að hann sýndi ekki málinu fullkominn áhuga, heldur fannst mér það koma nokkuð fram hjá honum, að hann vildi vekja athygli okkar á, að málið væri engan veginn einfalt og það mundi mjög hæpið að gera ráð fyrir, að um nokkurn viðhlítandi undirbúning gæti verið að ræða eða rannsókn í málinu, sem mundi geta komið að haldi við undirbúning næstu vegáætlunar. Nú vil ég segja það, fyrir mig a.m.k. og helzt fyrir munn okkar allra flm., að okkur er vel ljóst, að þetta er stórmál, ýmsum tæknilegum vandkvæðum bundið. Það þarf ýtarlegan undirbúning og ýtarlegar rannsóknir. En nú er það misjafnt um það verk, sem þarna á að vinna. Að sögn kunnugra manna eru árnar, sem renna vestan til á sandinum, ekki nálægt því jafnerfiðar viðureignar og kannske ekkert örðugri en margar ár, sem þegar er búið að brúa, t.d. í A-Skaftafellssýslu. Núpsvötnin kunna að vera nokkuð erfið, en aðalvandamálið þarna er Skeiðará. Ég er nú þeirrar skoðunar, að það eigi ekki að draga að leggja út í framkvæmdir þarna, þangað til við stöndum, ef svo mætti segja, öruggum fótum í því efni, hvernig eigi að leysa brúargerðina á Skeiðará. Ég held, að við eigum að hefja verkið fyrr með því að brúa þær ár vestan til á sandinum, sem eru ekki jafnerfiðar og Skeiðaráin sjálf. En ég vil þá jafnframt segja það, að þó það sé sannarlega æskilegt og nauðsynlegt að undirbúa hvert verk sem bezt, þá hef ég nokkurn hroll í mér nú orðið, af því að mér finnst, að jafnan þegar rætt er um meiri háttar mannvirki, þá sé eins og hálfgerður geigur í mörgum okkar ráðamönnum yfir því, hversu hér er um fjárfrekt og stórt og erfitt viðfangsefni að ræða. Það er ekki rétt að hvetja til óvarkárni, en hinu megum við heldur ekki gleyma, að sú glæsilega framfarasaga; sem við Íslendingar erum svo stoltir af undanfarinn mannsaldur eða kannske rúmlega það, — ég efast um, að hún væri jafn glæsileg og hún er, ef við hefðum aldrei þorað að leggja út í margs konar framkvæmdir og mannvirki nema eftir mjög vandlega og ýtarlega athugun. Við verðum að gá að því, að þessi sjálfsagða varfærni gangi ekki svo langt, að við missum af tækifærum. Og þessi hætta er e.t.v. enn þá meiri nú orðið vegna hinna stórstígu og öru tækniframfara á öllum sviðum. Ég hef mikla tilhneigingu til þess að ætla, að alltaf öðru hverju séu til menn, sem hafa hið skyggna auga, sem sér betur en 30 önnur, og það er kannske vandinn að geta leyft eða skapað þessu skyggna auga hæfilegt svigrúm til þess að njóta sín — sjálfs sín vegna og þó fyrst og fremst þjóðarinnar vegna. Það er nú einhvern veginn þannig, að þeir menn, sem settir eru til þess að kanna fjárhagsgrundvöll í einu og öðru, kanna það, hvort það sé fjárhagslega rétt, hvort það sé fjárhagslega kleift að leggja út í þessa eða hina framkvæmdina, ef þessir menn eru sí og æ bundnir við þessi viðfangsefni, þá felst í því ákaflega mikil hætta, að þetta verði smám saman til þess að lama bjartsýni þeirra og framkvæmdaþrek, vil ég segja. Þess vegna vil ég, um leið og ég skal viðurkenna, að við þurfum að beita allri þeirri þekkingu, sem við höfum yfir að ráða og tæknikunnáttu við undirbúning vegagerðar og brúagerðar um Skeiðarársand, þá megum við ekki heldur vera allt of hræddir við viðfangsefnið. Ég held, að málið horfi þannig við í flestra huga í dag, að þetta verður gert. Það kemur vegur og það koma brýr yfir vatnsföllin á Skeiðarársandi og þess vegna verðum við að byrja svo fljótt sem nokkur kostur er, — að byrja vestan frá. Það getur farið svo, að þegar við stöndum á bökkum Skeiðarár að austan og vestan, þá vefjist nokkuð fyrir, hvernig skuli sigrast á því vatnsfalli. En þá höfum við engu að tapa og engu offrað, þó að við séum búnir að leysa verkefnið á sandinum að vestanverðu. Þá getur vel komið til greina það, sem brtt. Péturs Benediktssonar fjallar um, og ég vil líka hér minna á, að fyrir nokkrum árum beitti ég mér sérstaklega fyrir því, að fenginn yrði svonefndur vatnadreki til þess að reyna á Skeiðarársandi, sem nú er til staðar austur í öræfum. Vatnadreki, sem að vísu er aðeins eitt tæki, og því ákaflega ótryggt að leggja út í að setja upp einhverjar ákveðnar ferðir á þann veg. Það hefur heldur ekki verið gert, en ég held, að það hefði nú mátt hafa meira gagn af því en orðið hefur, einkum ef tækin hefðu verið eitt eða tvö til viðbótar, sem hefðu þá getað verið til öryggis. Vegamálastjóri hefur einhvern veginn haft mikla andúð á þessu og sú ástæða hefur mátt sín mikils til þess að draga úr því, að það yrði meira framkvæmt í þá átt að hafa gagn af því að greiða fyrir samgöngum yfir þessi erfiðu vatnsföll. En í því er heldur engin framtíðarlausn. En ég vildi aðeins láta þetta koma fram af því, að í mínum huga a.m.k. þá er enginn efi á því, að fyrr en varir verður búið að sigrast á þessu torleiði. Brúa fyrst og fremst árnar vestast á sandinum, ýta veginum austur undir Skeiðará og brúa hana að lokum. En það, sem sérstaklega virðist skjóta mönnum skelk í bringu, eru hlaupin, hin ægilegu vatnsflóð, sem koma sérstaklega í Skeiðará öðru hverju, gjarnan með stórfelldum jakaburði. En þessi hlaup hafa mjög verið að réna hin seinni ár. Hafa ekki verið nálægt eins stórfelld, eins og áður. Hinir gætnu segja: við viljum ekki treysta á þetta, það getur kólnað aftur, jökullinn farið að ganga fram og hlaupin orðið miklu stórfelldari á ný. Út af þessu hef ég verið að hugleiða það, og sérstaklega í sumar sem leið, er ég var staddur í Öræfum og horfði yfir þessa ægivíðáttu, sem Skeiðarársandur er, og þá miklu landstækkun, sem þarna hefur orðið á undanförnum árum og undanförnum öldum. Hvaðan hefur borizt öll þessi óhemja af leir, sandi og möl, sem hefur stækkað Ísland á þessum slóðum? Þetta hefur allt saman borizt fram undan jöklinum frá fljótunum, sem falla undan Vatnajökli Ég fæ ekki skilið, að þetta hafi getað gerzt á annan hátt en þann, að það hafi flutzt fram ógrynni af melum og jörð, sem áður var undir Vatnajökli, og getur ekki einmitt í þessu legið skýringin á því, að það er að draga úr hlaupunum, að landið hafi lækkað undir jöklinum, landið hlýtur að lækka. Á annan hátt getur þetta mikla landssvæði ekki hafa myndazt, sem Skeiðarársandur er. Og ég hef verið að hugsa um það, þegar Öræfingar hafa verið að segja mér frá því, hversu jökullinn hafi verið að lækka á undanförnum árum, t.d. séð frá Skaftafelli, — miðað við fjöll, sem standa vestar í jöklinum, sem áður sáust ekki fyrir Skeiðarárjökli, vegna þess að þá bar hann svo hátt, en nú sér langt niður í fjöllin. Er það víst, að þetta sé allt vegna þess, að jökullinn hafi þynnzt? Getur ekki verið, að ástæðan sé líka sú a.m.k., að það hafi borið í burtu landið, sem var undir jöklinum? Og eins og ég sagði áðan, það hlýtur að hafa gerzt, en um leið og við leiðum hugann að því er, að mér sýnist, rökrétt að álykta, að það hlýtur líka a.m.k. að geta haft stórkostleg áhrif á jökulhlaupin. Fyrirstaða vatnsins hefur lækkað, af því leiðir, að það er minna vatnsmagn, sem getur safnazt fyrir. Ég held þess vegna, að það sé ekki rökrétt svartsýni, ef ég mætti komast svo að orði, að reikna með því, að aftur komi tími hinna stórfelldu jökulhlaupa. Ég hefði gaman af, að mér fróðari menn, sem eitthvað um þessi mál hafa hugsað, veltu þessu máli fyrir sér. Alla vega er örðugt að skýra, hvernig landið hefur stækkað svo sem raun ber vitni á Skeiðarársandi án þess að það hafi um leið lækkað til muna það, sem er undir jöklinum. En ég vil, að þetta komi fram, af því að það skiptir máli, verulegu máli, um afstöðu til þessa máls, hvort við erum þeirrar skoðunar, að aftur komi tími hinna stórfelldu jökulhlaupa. Ef jökulhlaupin í framtíðinni verða ekki miklu stórfelldari en þau hafa verið nú hin síðustu ár, þá er það hreint ekki óyfirstíganlegt vandamál að brúa Skeiðará. Við verðum fyrir einhverjum áföllum, en ekki meiri en það, að svo mikið hagsmunamál sem hringvegur um landið er, þá er það ekkert áhorfsmál að ráðast í þessar framkvæmdir og það sem fyrst. Allir, sem á þetta mál minntust, allir, sem töluðu við umr., og allir flm., — þeim er öllum ákaflega vel ljós hin geysilega þjóðhagslega þýðing þess að opna hringveg um landið. Og það er dæmi, sem við getum aðeins leikið okkur að, að gera okkur í hugarlund, hverju kunni að nema í tölum, en alltaf verða það ágizkanir. Hitt er óhætt að fullyrða, að það verður naumast metið til fjár.

Ég vil bæta því við þessar hugleiðingar mínar, sem ég setti fram, þegar ég kom heim frá umr. um þáltill. hér 1968, um orsakir minnkandi vatnsmagns í Skeiðarárhlaupum, að lækkun á jöklinum getur auðvitað þýtt þynnri jökul og hefur sennilega gert það, eða þá hvort tveggja lægra land undir og þynnri jökul, en við það að jökullinn þynnist þá léttist fargið, og ef vatnsmagnið þarf að lyfta jökulhettunni til að ná framrás, þá þarf til þess minna vatnsmagn við það að jökulhettan þynnist. Auk þess hækkar hitastig við yfirborð jökuls, því lægri sem hann er. Og allt styður þetta þá skoðun, að hlaupin á Skeiðarársandi verði ekki jafnstórfelld í framtíðinni, sem þau voru um skeið, t.d. á fyrri hluta þessarar aldar. En frá því að þáltill. var afgreidd á Alþ. vorið 1968, þá hafa farið fram rannsóknir á Skeiðarársandi, m.a. verið byggðir garðstubbar frá brekkunni undan Skaftafelli, sem ætlað er að sýna gildi sitt í næsta Skeiðarárhlaupi. En þess er nú brátt að vænta, og þeir Skaftafellsbændur sjá nú merki þess, að ekki sé langt í hlaupið, jökullinn er tekinn að hækka, en þeir hafa mið heiman frá sér til að fylgjast með þessu.

Já, auðvitað koma hlaup, vatnsflóð, skemmdir, áföll og kostnaður, en eins og ég sagði áðan, hér er um svo mikið hagsmunamál að ræða, að ekki er áhorfsmál að ráðast í framkvæmdir og það sem fyrst. Og ég endurtek það, — menn geta leikið sér að því að reikna hagnaðinn og hverju hann nemur í tölum, en hann verður naumast metinn til fjár. Og þess vegna hef ég verið að velta málinu fyrir mér, leitað leiða til fjármögnunar, þar sem almenningsálitið fengi notið sín, — áhugi og skilningur á gildi málsins. Og út frá þessum hugleiðingum er þetta frv. orðið til, sem hér liggur fyrir til 1. umr. sem 67. mál á þskj. 69.

í. gr. frv. er um það, að ríkissjóður gefi út til sölu innanlands happdrættisskuldabréf í 5 flokkum, hvern að fjárhæð 40 millj. á ári í 5 ár eða samtals 200 millj. Ég verð að taka það fram til skýringar á þessari upphæð, að eins og vikið er að í grg. þá liggja ekki fyrir enn þá neinar áætlanir um kostnaðinn af þessum framkvæmdum, en það hafa verið settar fram ágizkanir, 250 jafnvel allt að 300 millj. En það er a.m.k. víst, að 200 millj. mundu, að minni hyggju, ráða úrslitum um það að þessi framkvæmd kæmist á rekspöl, og af þeim sökum kaus ég nú að miða við þessa tölu. En það fylgir þessu að sjálfsögðu nokkur kostnaður í gegnum happdrættisvinningana, sem eru hugsaðir að komi í stað vaxta, þeir eru að upphæð á ári í hverjum flokki 1.4 millj., en það svarar til 7% vaxta af heildarupphæðinni. Þess vegna fer sú upphæð vaxandi fyrstu 5 árin, sem þarf að greiða árlega í vinninga, og á 5.–10. ári, ef öll bréfin seldust, þá yrði þessi upphæð 14 millj. á ári, og ef ætti að taka það af þessu framkvæmdafé, sem með þessu aflaðist, þá mundi það skerða verulega gildi þess til framkvæmdanna, þannig að ég þykist sjá, að það sé a.m.k. æskilegast, að Vegasjóður komi þarna til, þegar verkið er hafið, og taki að sér greiðslu þeirrar upphæðar, sem happdrættisvinningunum nemur. Að þessu er ekki sérstaklega vikið eða nein fyrirmæli um það í frv. og ekki heldur í grg., en mér þótti rétt, að ég segði frá þeirri hugmynd, sem ég hefði um þetta atriði. Mér er vel ljóst, að þarna er um hlut að ræða, sem mundi rýra verulega framkvæmdaféð, ef það væri tekið, — ef vinningarnir væru teknir af þessum upphæðum. Síðan kæmi svo til eftir 10 ár að endurgreiða þessa upphæð alla á næstu 5 árum, og ég er ekki með — ég skal játa það, að ég er ekki með núna á stundinni — hugmyndir um það, hvernig þetta verði gert, og játa það, að ég hugsa líkt og margir gera oft og mörgum sinnum um það, sem fram undan er: þá koma dagar og þá koma ráð. En m.a. vil ég benda á, að ég held, að það komi mjög til greina að taka upp veggjald, þegar þessi leið yrði opnuð, sérstaklega ef það fyndist einhver skynsamleg leið til þess, að það yrði ekki allt of kostnaðarsamt í framkvæmd.

En þetta eru, að ég held, þau helztu atriði, sem ég vildi taka fram til skýringar á frv. sjálfu. Að sjálfsögðu eru ekki þessi fyrirkomulagsatriði þannig, að ef fleiri augu sjá betri lausn, skynsamlegri lausn, þá er auðvitað sjálfsagt að breyta þarna eitthvað til. En hitt vil ég segja, að ég held, að þarna sé um leið að ræða, fjáröflunarleið einmitt í þessa framkvæmd, sem er hyggilegt að reyna, og ég vil aðeins að lokum segja, að nú heiti ég á alla Íslendinga að sameinast um þetta átak. Þetta er mál, sem þjóðin ber á örmum sér. Og ég veit, að hún gerir það, og byggi það á reynslu framfaraáranna á þessari öld, sigurgöngu þjóðarinnar frá fátækt til bjargálna, sem hin skyggnu augu Íslendingsins gerðu að veruleika. Ég vil svo vænta þess, að þetta frv. fái góðar undirtektir hér á hv. Alþ., og leyfi mér að leggja til, að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til samgmn.