25.02.1971
Neðri deild: 53. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1748 í B-deild Alþingistíðinda. (1845)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég get ekki stillt mig um að segja fáein orð til þess að láta í ljós fögnuð minn yfir þeim skilningi, sem fram hefur komið á Skeiðarátsandsmálinu hjá hv. fjhn., sem ég tel mjög mikils virði. Ég ætlaði einnig að minna á, og nota hvert tækifæri til þess að koma því á framfæri, að það væri auðvitað bezt viðeigandi að koma þessu í framkvæmd fyrir árið 1974. Það er engin ein framkvæmd til í landinu, sem væri jafnverðug þess að vera minnisvarði um 1100 ára byggð þjóðarinnar í landinu og þetta, — að ljúka þessari hringleið. Með því verður bylting í lífi þjóðarinnar í landinu eins og við hljótum að sjá, ef við förum að hugleiða það. Nú hugsum við tæplega um Ísland sem eyland, þegar um landferðalög er að ræða, heldur hugsum við þá um leiðarenda. Byltingin verður gagnger, því við hættum að hugsa um leiðarenda, og við fáum hringleið. Ísland verður í öllu tilliti eyland. Ég skal ekki tefja þetta mál, en ég vildi enn einu sinni minna á þetta sjónarmið. Ég er alveg sannfærður um það, að það á eftir að koma mjög fljótlega í ljós, að framkvæmdin er vel kleif tæknilega, og ég læt í ljós ánægju mína yfir því, að hér verður stigið stórfellt skref í þá átt, að þetta gæti orðið. Þetta á ekki að þurfa að tefja fyrir neinum öðrum góðum verkum, sem við þurfum að koma í framkvæmd fyrir 1974.