03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1753 í B-deild Alþingistíðinda. (1853)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Karl Guðjónsson:

Herra forseti. Ég vil taka undir það, sem hér hefur verið sagt um það, að þetta frv. er allra góðra gjalda vert og sýnir vissan áhuga fyrir því að koma því þ]óðþrifamáli, þeirri þjóðarnauðsyn fram, að um Ísland verði hringvegur, en á það vantar nú, eins og hér hefur líka verið fram tekið, um það bil 30 km langan vegarspotta með tilheyrandi brúm. Það hefur lengi blasað við, að sá hluti landsins, sá hluti af undirlendi landsins, sem ekki hafði neinn þjóðveg, var sífellt að styttast, og það dró að því, að það yrði að taka þá lokaákvörðun að brúa Skeiðará og koma vegi yfir það 30 km svæði, sem hér hefur verið talað um. Ég er líka þeirrar skoðunar, eins og fyrri ræðumenn hér í d., að það megi ekki vera undir því einu komið, hvernig gengur með sölu á þeim happdrættisskuldabréfum, sem þetta frv. gerir ráð fyrir, hvort í mannvirkið verður ráðizt eða ekki.

Það eru nú liðin allmörg ár, að ég ætla svona fram undir áratugur, síðan ég flutti hér á Alþ. till., sem miðaði í þá átt að skora á ríkisstj. að hefjast handa um það að koma í framkvæmd vegagerð einmitt á þessu svæði, til þess að hringvegur gæti myndazt um Ísland. Ég gerði nú í bjartsýni minni ráð fyrir, að þetta væri hægt að gera á næstu tveimur árum. Ég er reyndar þeirrar skoðunar enn þá, að ef einhver dáð hefði verið í landsstjórninni og einhver framsýni til þess að hún sæi, hvaða þýðingu þetta hefur fyrir landið, þá hefði hún gert þetta. Þá hefði hún gert það með þeim hætti, sem ráðh. minntist hér aðeins á áðan, að það hefðu verið gerðar ódýrar staurabrýr yfir þau fljót, sem þarna er um að ræða, og síðan látið ráðast, hvort Skeiðarárhlaupin tækju slíkar brýr með sér, og gengið þá í að endurbyggja þær, ef þær færu. Nú bregður svo við í seinni tíð, að menn telja mjög nauðsynlegt að rannsaka alla hegðun þessara vatnsfalla, sem landsmenn, sem nálægt þeim búa, hafa þó reyndar virt fyrir sér, ekki í áratugi, heldur í aldir og hafa nú vissar hugmyndir um. Ég ætla, að þær 200 millj., sem ætla má, að brýr af varanlegri gerð mundu kosta, eða vegur yfir þetta svæði, — en ég held, að ég hafi tekið rétt eftir því, að hæstv. ráðh, nefndi þá upphæð, 200–300 millj., sem hugsanlegt kostnaðarverð í að koma þessu í það horf, að hringvegur væri um Ísland, — ég held, að það verð, sem það hefði kostað að gera þessar brýr og gera þennan veg fyrir áratug, muni nú vera langleiðina farið í rannsóknir, sem ég engan veginn vil telja einskis virði, en þær koma ekki að sama gagni eins og hringvegur um Ísland, það er alveg gefið mál. Og nú hafa menn látið það í ljós, að aðaltálminn á því að byggja upp þennan veg og þessar brýr væri skortur á Skeiðarárhlaupi. Menn telja, að þeir verði að fá Skeiðarárhlaup til að mæla það, og svo djúpt geta menn auðvitað sokkið í rannsóknir, að rannsóknarefni af þessu tagi geti vafizt svo fyrir mönnum, að menn geti látið það hindra eðlilega framþróun mála, að slíkar mælingar vanti.

Ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki eins mikils virði eins og ýmsir vilja vera láta að hafa mælingu á Skeiðarárhlaupi. Ég efast um það, að þó að komi Skeiðarárhlaup og verði mælt nákvæmlega í tonnum, hvað þar streymir fram af vatni á hverri klst. eða jafnvel hverri mínútu, þá sé það nokkur veruleg undirstaða undir brúagerð á þessu svæði, því að það gæti svo farið, að það liði svo sem eins og ein öld þangað til annað sambærilegt hlaup kæmi. Og þá gæti nú vel svo verið, að mælingarnar og það, sem skráð væri um þær, væri nokkuð komið á dreif, þegar til þess ætti að taka í því Skeiðarárhlaupi, sem næst kæmi. Ég vil á engan hátt gera lítið úr rannsóknum og undirbúningi. En þegar um brýn verkefni er að ræða, þá eru takmörk fyrir því, hve réttlætanlegt er að láta það dragast lengi undir yfirskini rannsókna að gera hina nýtustu hluti og nauðsynlegustu.

Hæstv. samgmrh. minnti hér á það, að í vegagerð landsmanna væri gjarnan eytt nú árlega um 1200 millj. úr Vegasjóði. Með samanburði við það getum við tekið tæpar 200 millj. eða jafnvel þótt það væru 300 millj., sem þetta mundi kosta, og spurt þennan sama hæstv. ráðh.: Stendur hann alveg frammi fyrir þessu vandamáli, sem ekki verði við glímt nema komið verði upp sérstöku happdrætti? Ég vil segja, að heldur fyndist mér það ólíkt honum, ef svo væri. En reynslan er nú kannske ólygnari heldur en allar spár hér um. Ég man það að vísu ekki, hvað þessi hæstv. ráðh. lét Alþ. sporðrenna stórri summu í sérstakt benzíngjald til Vegasjóðs einmitt á þessum vetri og einmitt á þessu yfirstandandi verðstöðvunartímabili, en það var ábyggilega upphæð, sem af hefði vel mátt greiða upphæðir eins og hér er um að ræða. Þess vegna verð ég að láta það í ljós, að mér finnst það bera vott um, að annaðhvort sé alveg óvenjulegur hrollur í hæstv. ráðh. frammi fyrir þessari framkvæmd eða hitt, að hann sé ekki alveg líkur sjálfum sér í þeim efnum, að geta hugsað sér, að á verði lagður nýr skattur til þess að koma svona málum í framkvæmd. Hér þarf sérstaka fjáröflun, segir ráðh., og ég skal ekki hafa á móti því. Ég viðurkenni það, sem hann segir, að út um allar byggðir bíða óleyst verkefni í vegamálum. En þetta er málefni allra byggða landsins. Það er auðvitað ekki hægt að mótmæla því, að það snertir allar byggðir landsins, hvort hringvegur er til um landið eða ekki.

Ég vil í þessu sambandi líka minna á það, að ég hafði hér á s.l. vetri uppi till. um sérstaka fjáröflun einmitt í þennan veg. Hún fékk nú ekki áheyrn hér á Alþ. og sumir þeir, sem tala hér um það, að hér þurfi sérstaka fjáröflun, voru ekkert hikandi við það að vera bara á móti þeirri till.till. var þess háttar, að þegar ákveðið var, að hér skyldi breytt um í umferðarmálum þannig, að upp skyldi tekin hægri umferð í staðinn fyrir vinstri umferðina, sem við áður höfðum, þá var lagður á bílaeigendur sérstakur skattur til þess að borga kostnaðinn af þessu. Og kostnaðurinn af þessu var áætlaður af sérfræðingum ríkisstj. slíkur, að hann átti að borgast upp á tveimur árum. Þau tvö ár eru nú þegar liðin, en auðvitað stóðst áætlunin ekki. Ég taldi það, að það væri málefni ríkissjóðs að fást við, hvaða skekkjur sérfræðingar ríkisstj. kynnu að hafa gert í sambandi við kostnaðinn vegna umferðarbreytingarinnar, og það, sem umfram væri það, sem búið væri að leggja á menn sérstaklega, bifreiðaeigendur, það ætti að greiðast úr ríkissjóði. En mín till. innihélt það einnig, að ég gæti vel á það fallizt, að skatturinn héldist áfram og rynni til annarra verkefna, rynni til þess að fullgera hringveginn um Ísland, á meðan hann væri ekki fullgerður. Þessa till. felldu þeir báðir, hv. 3. þm. Austf. og hæstv. samgmrh., sem hér töluðu á undan mér um nauðsynina á því að fá sérstaka fjárveitingu í þennan veg.

Ég vil einnig láta það í ljós, að ég tel það, að þegar upplýst er, að hér sé um að ræða framkvæmd, sem kosti 200–300 millj., þá eru það í eðli sínu slíkir smámunir í samanburði við þá þýðingu, sem slík framkvæmd mundi hafa, að í rauninni er lítið annað en volæði, bara almennt volæði að gera þetta ekki, framkvæma það ekki og framkvæma það ekki strax. Ég veit ekki, hvort sá hæstv. ráðh., sem fer með vegamál á Íslandi, muni vera mér sammála um þetta, en við erum nú æðioft dálítið ósammála, og það verður þá að hafa það. Að mínu mati er það volæði að vera ekki búinn að ráðast í slíka framkvæmd, sem hér er um að ræða, miðað við þá þjóðarþörf, sem á hana kallar.