03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1757 í B-deild Alþingistíðinda. (1855)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það, sem sagt er hér, er allt tekið upp orðrétt á þráð og þar geta menn fullvissað sig um, hvað ég sagði hér áðan. Ég tók það sérstaklega fram, að ef happdrættisbréfin ekki seldust, þá yrði að afla fjár með öðrum hætti, og það mætti ekki verða til þess að tefja þessa framkvæmd, þótt bréfin ekki seldust. En það er eins og hv. 6. þm. Sunnl. og hv. 11. þm. Reykv. hafi alls ekki heyrt þetta. Og þess vegna var náttúrlega sumt af því, sem þessir hv. þm. sögðu, út í hött.

Báðum finnst þessum hv. þm. dálítið skrýtið að vera að hugsa sér það að vera að afla fjár með sérstökum hætti í þessa framkvæmd.. Það mátti skilja á hv. 6. þm. Sunnl., að bara ætti að taka hluta af þessum 1250 millj., sem yrðu til ráðstöfunar núna í Vegasjóði, taka hluta af þeirri upphæð og það væri hreint volæði bara að gera það ekki strax, 200–300 millj. átti annaðhvort að taka af þessu fé, sem er í Vegasjóði, t.d. á næsta ári, eða þá að slá þetta einhvers staðar, það væri algert volæði að gera það ekki strax. En hv. 6. þm. Sunnl. var einu sinni í fjvn. og meira að segja formaður fjvn. Og þá held ég, að hann hafi uppgötvað það, að ekki var alltaf hægt að taka hundruð millj. í hvað sem menn vildu. Þá varð að takmarka það, sem menn gátu fengið af fé. Og því miður er það nú svo enn, að það er erfiðleikum bundið að afla fjár eins og menn vilja, þótt í seinni tíð hafi fé til framkvæmda, m.a. vegaframkvæmda, verið stórum aukið og það var gert hér með lagasetningu frá hv. Alþ. í vetur. Og langflestir hv. þm. voru þessu samþykkir, vegna þess að það vantaði fé til ýmiss konar vegaframkvæmda úti í héruðunum. En ég er þeirrar skoðunar, að við getum ekki að sinni hækkað benzín eða þungaskatt meira en við höfum gert. Ég tel, að við höfum farið eins hátt við síðustu hækkun og forsvaranlegt er. Og þess vegna er það, að við þurfum að afla fjár með öðrum hætti til vegaframkvæmda, því að þeir tekjustofnar, sem Vegasjóð hafa fjármagnað, eru fullnýttir í bili.

Það hefur verið bent á það að auka fjárframlög úr ríkissjóði til vegaframkvæmda. Það hefur einnig verið gert. M.a. með því, að ríkissjóður borgar talsvert á 2. hundrað millj. kr. til Vegasjóðs, og var sú fjárveiting hækkuð í vetur um 47 millj. kr. En þótt hv. 6. þm. Sunnl. kalli það hreint volæði að gera þetta ekki strax, þá held ég, að hann meini það nú ekki. Hann veit það, að þetta er dýrt verk, og hann veit það, þótt hann treysti núv. ríkisstj. vel, þá þarf talsvert fyrir því að hafa að ná í 200–300 millj. kr. Ég held, að það takist, þó happdrættisfrv. heppnist nú ekki eins og við höfum vonað, þá held ég samt, að það takist að útvega þetta fé. En hv. 6. þm. Sunnl. talaði nú áðan öðruvísi en hann hugsar, að ég vona, þegar hann sagði, að það hefði átt fyrir 8–10 árum að drífa þetta verk af, án þess að nokkrar rannsóknir hefðu áður farið fram. Þó sagðist hann nú ekki gera svo litið úr rannsóknum. Talsvert lagði hann upp úr þeim, en eftir að hann hafði flutt sína till. fannst honum samt sjálfsagt, að þetta verk væri hafið og það væri drifið af án undangenginna rannsókna. En ríkisstj. og ég ætla flestir hv. þm. hafa nú ætlazt til þess, að rannsóknir væru hafnar og að þeim væri lokið áður en verkið yrði hafið. Og nú standa vonir til, að rannsóknum verði lokið eða þær komnar svo langt á næsta sumri, að á þeim megi byggja og það verði grundvöllur undir framkvæmdunum. Hv. þm. er vitanlega algerlega sammála þessu í sjálfu sér, þó að hann kasti hinu fram, og í sjálfu sér þykir mér nú vænt um það að sjá, hvað hv. þm. er nú hress. Ég held, að það sé ekki nokkur vafi á því, að hann ætlar að bjóða sig fram. En á tímabili hélt ég, að hann væri bara hættur við það. En nú er hv. þm. að hressast, sem betur fer, og menn geta átt von á því, að hann bjóði sig fram við næstu kosningar.

Ég held satt að segja, að það sé ekkert tiltökumál, þótt talað sé um sérstaka fjáröflun í þessu skyni. Og það er ekki hægt að fullyrða, að það sé neitt lakari leið en sú venjulega að afla með sérstökum hætti í Vegasjóð. Vitanlega má segja það, að þetta skipti ekki neinu verulegu máli. Það fé, sem aflast til þessara framkvæmda, mætti renna í Vegasjóð og svo aftur út úr honum til þessara framkvæmda. En það er nú annar hringvegur, sem þarf að leggja og gera fyrir árið 1974. Þjóðhátíðarnefndin hefur skrifað samgmrn. og óskað eftir því, að ráðstafanir verði gerðar til þess, að hringvegur um Þingvöll niður með Sogi og niður á Suðurlandsveg verði tilbúinn 1974. Ég hef falið vegamálastjóra að gera kostnaðaráætlun á þessum vegi sem allra fyrst og ég tel, að það verði að afla fjár með sérstökum hætti til þessa vegar. Það verður ekki gert með því að hækka benzín eða þungaskatt. Það verður að gera með sérstökum hætti. Það má náttúrlega segja, að það hafi verið aflað fjár með sérstökum hætti til hraðbrautarframkvæmdanna, bæði í Suðurlandsveginn og Vesturlandsveginn, og ég hef aldrei heyrt það fyrr en í dag hjá hv. 11. þm. Reykv., að þetta væri neitt lakari leið eða þetta væri þá eins og einhver annars flokks framkvæmd. (Gripið fram í.) Ég get vel lesið það og hlustað á það, þannig að við vitum alveg, hvað við erum að segja. Svo er eitt, sem hv. 11. þm. Reykv. sagði hér áðan í sambandi við 900 m spottann fyrir innan Elliðaár, sem hann sagði, að hefði kostað 36 millj. Það er nú ekki rétt, hann kostaði 30 millj. og þótti samt dýrt. En hv. þm. sagðist vona það, að það yrði farið sparlegar með féð, þegar farið væri að vinna að framkvæmdum við Skeiðará, heldur en þar. En þá vil ég upplýsa hv. þm. og aðra hv. þm. hér í d. um það, hvernig þetta verk var unnið. Það hafði nokkrum mánuðum áður farið fram útboð á vegagerð í Kópavogi og verkið fyrir innan Elliðaár var byggt á þeim verðeiningum, sem Íægsta tilboðið þar sýndi. Og verkið á þessum spotta fyrir innan Elliðaár var ekki dýrara heldur en þetta verk, sem boðið var út í Kópavogi og unnið var eftir lægsta tilboðinu. En það er vitnað í það, að þessi vegur sé dýr. En þá gleyma menn því oft, hvernig aðstaðan var þarna. Það varð að sprengja þarna klöpp til þess að geta haft veginn á þessum stað, og aðstaðan vitanlega sú erfiðasta, sem hefur verið í vegagerð. En það getur vel verið, að hv. 11. þm. Reykv. vildi taka undir með Sverri Runólfssyni, sem talaði um vegamál í sjónvarpinu ásamt vegamálastjóra, og segja eitthvað sem svo, að það hefði bara átt að leggja veginn annars staðar. En hvar annars staðar? Það er það, sem ekki var hægt að svara, og ég býst nú við því, að þegar menn átta sig á þessum málum, þá sannfærist menn um það, að vegurinn liggi akkúrat þar, sem hann varð að vera til þess að þjóna því hlutverki, sem honum er ætlað.

Ég sé ekki ástæðu til að segja fleira í sambandi við það, sem hér hefur fram komið. En ég vil enn endurtaka það, að ég tel þetta frv. spor é rétta átt. Það eigi alls ekki undir neinum kringumstæðum að geta orðið til þess að tefja fyrir framkvæmdum, elns og kom fram hér hjá hv. 11. þm. Reykv., að gæti átt sér stað. Ég tel að það þurfi ekki að vera. Ég tel, að ef þetta verður að lögum, þá verði strax í sumar að hefjast handa með sölu á bréfunum og hefja áróður fyrir sölu á þeim. Og reynslan verður svo að sýna, hvort undirtektir manna verða eins góðar og ástæða er til að vona. Og að svo miklu leyti sem þessi fjáröflunarleið hrekkur ekki til, þá þarf að afla fjár með öðrum hætti til þess, sem á vantar.