03.03.1971
Efri deild: 56. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1760 í B-deild Alþingistíðinda. (1857)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég tek nú undir þau þakklætisorð hæstv. samgmrh., guði sé lof, að allt er tekið upp á segulband, svoleiðis að það er þá væntanlega til líka á segulbandsþræði, það sem ég sagði hér, og menn þurfa þá ekki annað en hlusta á það til þess að sannfæra sig um, hvað það var. Ég bar ekki neinar brigður á það, að hæstv. ráðh. hefði talað um, að það þyrfti að framkvæma tiltekið verk, þó að happdrættið gæfi ekki peninginn til þess. Það, sem ég óttast, og geri það enn þrátt fyrir það, að hæstv. ráðh. er nú búinn að herða á þessum ummælum sínum, sem er vel, ég óttast það nokkuð, að það verði farið að bíða dálítið eftir því að sjá, hvort peningarnir komi nú ekki flæðandi þarna inn, áður en farið er að taka þá annars staðar frá. Hæstv. ráðh. sagði áðan, að það yrði að bjóða út bréfin, auglýsa þau og sjá svo til, hvort peningarnir kæmu ekki. Þetta var það, sem ég bjóst við, að yrði gert. Spurningin er bara, hve lengi á að bíða? Ég fagna því sem sagt, að hæstv. ráðh. ætlar ekki að bíða endalaust a.m.k. En svo minntist hann hér á annan hringveg, og ég veit ekki, hvort það ber að skilja það svo, að hann hafi álitið hann mikilvægari, ég veit það ekki. Ég held, að hæstv. ráðh. hafi nú ekki sagt það. En hann talaði um sérstaka fjármögnun að mig minnir í því skyni aðgera betri veg Þingvallahringinn heldur en nú er, og það væru tilmæli þjóðhátíðarnefndar. Það er náttúrlega ekki eins og guð hafi talað, þó að þjóðhátíðarnefnd setji einhverja ósk fram og verður auðvitað að metast af öðrum, hvort það verður gert eða ekki. En þessi uppástunga um sérstaka fjáröflun sýnir þó það, að einhverjir möguleikar eru til. Og ef svo færi, að það yrði metið þýðingarmeira að gera hringveg um landið heldur en hringveg um Þingvallavatn, þá eru þó einhverjir möguleikar til. Það gleður mig að heyra það. Mér dettur t.d. í hug, að sá möguleiki sé fyrir hendi, að Vegasjóður fái meira af þeim tekjum, sem lagt er á farartækin í einni og annarri mynd. Jafnvel hefur mér komið til hugar, að hann gæti fengið það allt. Þá mundi áreiðanlega mikið lagast ástandið í fjármálum Vegasjóðs, því að stór hluti og að ég hygg vaxandi hluti hefur verið tekinn af þessu fjármagni til annarra þarfa, en vegaframkvæmdunum í staðinn vísað á lánsfé, sem hefur svo aftur haft þær afleiðingar, eins og vel var skýrt hér í vetur, að vaxandi hluti tekna Vegasjóðs fer til þess að standa undir vöxtum og afborgunum af eldri lánum, sem búið er að taka og vinna fyrir. Þetta er auðvitað allt saman matsatriði og ég vil ekki, að það sé skilið svo, að ég hafi á móti þeirri vegagerð, sem unnin hefur verið. En önnur leið var vissulega til, sú, að Vegasjóður fengi eins og áður var meira af tekjum þeim, sem af umferðinni komu, ef svo mætti segja. Ég bið hæstv. ráðh. og aðra þm. viðstadda velvirðingar á því, að vegna misminnis fór ég skakkt með tölur um, hvað vegurinn fyrir ofan Elliðaár eða 900 metra spottinn þar kostaði. Ég sagði, að hann hefði kostað 36 millj., það var ekki til þess að halla réttu máli vísvitandi, að ég nefndi þetta og ég man það núna, þegar hæstv. ráðh. bendir mér á það, að upphæðin var víst 30 millj. kr. Þessi vegakafli var unninn eftir reikningi, ef ég má segja svo, þannig að sá samanburður við kostnað á Kópavogshálsi hefur þá væntanlega verið til viðmiðunar, en hann var ekki ákvarðandi um verðið. Ég held, að það geti tæpast verið, vegna þess að ef mig misminnir ekki, þá var hér sem svar við sérstakri fsp. um þennan veg frá varaþm., sem hér var um skeið, upplýst, að þessi vegagerð hefði verið unnin af Íslenzkum aðalverktökum samkv. reikningi og aðalástæðan til þess að þeim var falið verkið var sú, að þeir gátu lánað fjármagnið. Ég hygg, að þetta sé nú rétt með farið. En það má vel vera, að útkoman hafi verið síðan sú, að þetta hafi ekki orðið dýrara heldur en vegagerðin á Kópavogshálsi. Ég skal ekki taka upp neinar deilur við hæstv. ráðh. um það atriði sérstaklega.

Það var alveg rétt, að þessi 900 metra kafli er mjög vandaður og hann var mikið niðursprengdur. Ég hef ekki verkfræðilega þekkingu til þess að segja til um það, að nákvæmlega svona mikið skyldi hann sprengdur niður. Mér skilst, að það hafi verið til þess að minnka Elliðaárbrekkuna. Til þess að hafa hana ekki meiri en hún er nú, hefði annaðhvort orðið að hækka brýrnar eða sprengja niður veginn. Hér er komið inn á tæknilega braut, sem ég hef ekki nokkra möguleika á því að tjá mig um. En eitt er það, að vegurinn var geysilega dýr, og annað hitt, að áframhald vegarins verður ekki gert með þessum hætti. Það verða, eftir því sem mér skilst, farnar aðrar ódýrari leiðir um áframhald Vesturlandsvegarins. Að hluta til kann skýringin að vera sú, að umferðin á þessum kafla er mjög mikil, því að bæði Suðurlandsumferðin og Vesturlandsumferðin fer þennan kafla. En ég held, að hæstv. ráðh. þurfi nú ekkert að óttast það, að ég hafi sérstaklega tilhneigingu til þess að taka Sverri Runólfsson til fyrirmyndar í vegagerðarmálum. Þó gæti ég vel ímyndað mér það, að hæstv. ráðh. mætti nú hlusta á sumt af því, sem Sverrir Runólfsson segir, og ekki bara láta vegamálastjóra taka fram í fyrir honum í útvarpsþætti, svoleiðis að hann komi ekki sínum sjónarmiðum að. Hæstv. ráðh. segist hafa gert það, það er gott.

Svo vildi ég aðeins að síðustu enn á ný undirstrika það, að segulbandið er auðvitað öruggasti vitnisburðurinn. Ég sagði aldrei, að Kópavogsvegurinn hefði verið fjármagnaður af Vegasjóði. Ég sagði einfaldlega aðeins það, að hann hefði kostað 150 millj. kr. og það hefði ekkert happdrætti verið talið nauðsynlegt til þess að ráðast í þá framkvæmd. Það held ég, að ég geti staðið við.

Ég skal svo ekki hafa þessi orð fleiri, herra forseti. Ég bara ítreka það að lokum, að mér finnst, að það sé viss þjóðarmetnaður og stolt í því fólgið, að við getum farið að keyra um alla eyjuna okkar, en þurfum ekki að snúa við austur í Öræfum til þess að sjá svona nokkurn veginn landið allt og fara svo aftur vestan að til þess að sjá það, sem eftir kann að verða. Og ég vona nú það, að okkur verði fært, þrátt fyrir mikil útgjöld á öðrum stöðum, ég skal sízt draga úr því, að þau séu mikil, okkur takist nú fyrir 1974 að gera þennan hringveg,jafnvel þó að við verðum að fórna til þess steyptum vegi í kringum Þingvallavatn.