10.03.1971
Efri deild: 61. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1762 í B-deild Alþingistíðinda. (1859)

67. mál, happdrættislán fyrir Vegasjóð vegna brúargerða á Skeiðarársandi

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft mál þetta til meðferðar og eins og nál. á þskj. 461 ber með sér leggur n. eða þeir, sem viðstaddir voru á þeim fundi, þegar málið var afgreitt, einróma til, að það verði samþ. Frv. þetta er einfalt í sniðum og ætti í sjálfu sér ekki að þurfa að fylgja þessu nál. úr hlaði, enda urðu nokkrar umr. um málið við 1. umr. En það er eitt atriði, sem rétt væri þó e.t.v. að drepa á og eðlilegt er að komi upp í huga okkar, sem sérstaklega eru tengdir Háskólanum, en það er spurningin um það, hvort samþykkt þessa frv. gæti að einhverju leyti verið brot á einkaréttindum Háskóla Íslands til þess að reka peningahappdrætti. Í því sambandi vildi ég leyfa mér að benda á eða minna á það, að það, að til slíks happdrættisláns hafi verið stofnað eða sé stofnað af hinu opinbera, er ekki nein nýjung, því að fyrir rúmum 20 árum var boðið út happdrættislán af ríkissjóði og var tilhögunin nokkuð svipuð því, sem hér er gert ráð fyrir, að það voru ekki greiddir vextir af þessu láni öðruvísi en sem eins konar vinningar í happdrætti. Þegar það mál var til meðferðar, er mér ekki kunnugt um, að það sjónarmið hafi komið fram, að slíkt væri brot á gildandi lögum, að í því hlyti að felast breyting á gildandi lögum um einkarétt Háskólans til þess að reka happdrætti, og hlýtur þá það sama að eiga við um þetta frv. En þegar happdrættislánið var boðið út árið 1947 eða 1948, þá má segja, að það hafi verið með mikilli viðhöfn, því að ég man, að allir formenn þáverandi stjórnmálaflokka, sem sæti áttu á Alþ., fóru eina kvöldstund í útvarpið til þess að hvetja almenning til þess að taka þátt í þessu láni, en því átti að ráðstafa til þess að afla fjár til hinna svokölluðu nýsköpunarframkvæmda, sem þá voru á döfinni. Vextir voru á þessum tíma mjög lágir, 2–3%, og var gert ráð fyrir svipuðum vöxtum af þessu láni. Það er nú hins vegar önnur hlið á málinu, sem ekki þarf kannske að rekja, að pyngja borgaranna gildnaði ekki við það að hlýða kalli sinna leiðtoga við þetta tækifæri, því að fáum mánuðum eftir að þessi ríkisskuldabréf voru seld voru bankavextir hækkaðir um u.þ.b. helming, sem þýddi það, að þessi skuldabréf, sem voru til 15 ára, hlutu þá að falla í verði um u.þ.b. helming. Það er nú önnur hlið á þessu máli, en í því frv., sem hér liggur fyrir, er auðvitað ekki verið að fara á bak við neinn.

Flestir landsmenn munu sammála um það, að æskilegt sé að því verði hrundið í framkvæmd, að hringvegur komist í kringum landið, þó að enn hafi ekki þótt fært að ráðast í þær framkvæmdir miðað við þau fjárráð, sem Vegasjóður hefur haft yfir að ráða. Nú auðvitað verður það svo, að þeir, sem þessi bréf kaupa, sem vonandi verða sem flestir, mundu nú í ríkari mæli gera það til þess að styrkja góðan málstað heldur en í því skyni að ávaxta peninga sína á sérstaklega arðvænlegan hátt, en þó geta þeir vinningar, sem til falla, gert það að verkum, að fyrir þá einstaklinga, sem þá hljóta, verði þetta góð fjárfesting, þó að það eigi auðvitað ekki við með þorrann, enda er það í því, sem það er fólgið, að möguleikar ættu að vera til þess að afla fjár í einhverjum mæli með þessum hætti og vonandi, að landsmenn taki þessu vel, þegar væntanlegt skuldabréfalán verður boðið út.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að orðlengja meira um þetta frv., en fjhn. leggur til, að það verði samþ. óbreytt að lokinni þessari umr.