10.02.1971
Neðri deild: 45. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1773 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

128. mál, eyðing refa og minka

Frsm. minni hl. (Stefán Valgeirsson):

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð. Hv. 11. landsk. þm. sagði það, að það frv., sem fyrir lægi, fæli ekki í sér neina skipulagsbreytingu, og það er alveg rétt. En það frv., sem við lögðum fram hér á þinginu, fól í sér þessa skipulagsbreytingu, sem við leggum hér til, að verði tekin inn í þetta frv., og sannleikurinn er sá, að eftir því sem minkurinn hefur færzt meira yfir landið, því meiri plága hefur þetta í raun og veru orðið og minkaveiðum víða ekki verið sinnt — annaðhvort mjög lítið eða jafnvel ekkert. Og ég hef rætt um þetta við Svein Einarsson, sem er allra manna kunnugastur þessum málum, og ég hef líka rætt við suma af hans beztu veiðimönnum, og þeir telja, að það verði aldrei lag á þessum veiðum öðruvísi en með því að taka þær úr höndum sveitarstjórnanna, reynslan hafi sýnt þetta. Það er alveg rétt hjá hv. ræðumanni, að sums staðar er unnið allvel að þessum málum og ekkert út á það að setja. En það er bara víðar — langtum víðar, sem þessu er ekki sinnt að neinu ráði og sums staðar ekki að neinu leyti, og það er þess vegna, sem við leggjum áherzlu á þessa breytingu. Ef þessi till. okkar yrði samþ., þá mundi þessi skipulagsbreyting í raun og veru koma af sjálfu sér.

Við höfum ekki lagt það fram hér að hækka verðlaunin fyrir að veiða minka upp fyrir 700 kr. Ég tók það fram áðan í minni frumræðu, að við hefðum farið að öllu leyti í okkar tillögugerð eftir umsögn veiðistjóra. Ég sé svo ekki ástæðu til þess að ræða þetta frekar, en vil beina því að hv. alþm., að þeir hugleiði þessi mál. Þeir eru nú, margir af þeim, þm. hinna dreifðu byggða og vita, hvernig þessi mál eru þar, og ég vil ekki trúa öðru en þeir hafi svipaða reynslu af þessum málum og ég, og reynsla veiðistjóra virðist vera hin sama af þessum veiðum varðandi villiminkinn.