26.11.1970
Efri deild: 22. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1784 í B-deild Alþingistíðinda. (1896)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Einar Ágústsson:

Herra forseti. Ég skrifaði undir þetta nál., sem hér er til umr., með fyrirvara, og ég vil leyfa mér að gera hér örstutta grein fyrir þeim vangaveltum, sem verið hafa að brjótast í mér út af þessu máli. Út af fyrir sig þá eru sjálfsagt allir sammála um það, að Íslendingar skuli styðja eftir mætti þá, sem eru minni máttar. Það er göfug hugsjón og í anda guðskristninnar og kærleikans, og samkvæmt aldagamalli hefð treystist auðvitað enginn til þess að hafa á móti því, og þá ég ekki heldur. Þess vegna snýr fyrirvari minn út af fyrir sig ekki að því, að Íslendingar skuli ekki reyna að taka sig fram um það að aðstoða þá, sem verr eru settir, sem margir munu vera. En það, sem mér finnst skipta mestu máli, er það, að þessi aðstoð, sem verður náttúrlega aldrei mikil á heimsmælikvarða, komi þó viðtakendunum að sem beztum notum. Og það er áreiðanlega vandaverk að haga þessari aðstoð þannig, að hún komi að sem fyllstum notum. Það er vandaverk, sem ýmsir aðilar í hinum stóra heimi hafa glímt við lengi og munu lengi glíma við. Og það má lesa um það í heimspressunni, að menn eru ósammála um það, hvernig þessari aðstoð skuli varið; það eru ýmsar kenningar uppi um það.

Það er almennt álitið, að sérfræðiþekkingu þurfi til þess að koma þessari aðstoð fyrir og það sé mjög auðvelt að gera jafnvel meira ógagn en gagn og það þurfi að búa vel um hnútana til þess að tryggja, að viðtakendur — sú þjóð, sem þiggur aðstoðina — noti hana rétt fólkinu til hagsbóta, en ekki þannig, að einstakir aðilar í viðtökulöndunum mati krókinn á slíkri aðstoð, eins og dæmi eru til um og dæmi væri hægt að nefna um. Og það, sem ég dreg í efa í þessu sambandi, er það, að Íslendingar geti aflað sér þessarar sérþekkingar á málefnum þróunarlandanna á þann hátt, að það kosti ekki of mikinn hluta af þeirri takmörkuðu aðstoð, sem Íslendingar geta í té látið. Því að vitanlega er það ekki neinum til góðs og áreiðanlega ekki tilætlun flm., að þetta tillag fari kannske að verulegu leyti í kostnað heima fyrir og til þess að ala upp sérfræðinga, en þetta er vafalaust hægt. Íslendingar eru viðurkenndir allgáfuð þjóð, sem vafalaust hefur á að skipa einstaklingum, sem geta gerzt sérfræðingar í þessum málum, en það lærist ekki fyrirhafnarlaust og ekki nema á löngum tíma og með mikilli athugun. Og mín spurning er þess vegna sú, hvort ekki eigi að hafa nánara samband við alþjóðasamtök og þá fyrst og fremst samband við þær alþjóðastofnanir, sem ráða yfir þessari sérþekkingu. Um þetta segir í aths. við 1. gr., með leyfi forseta:

„Það verður auðvitað álitamál, hvort nauðsyn beri til þess, að komið sé á fót sérstakri stofnun, er annist framkvæmd aðstoðar við þróunarlöndin. Afstaða til slíks hlýtur að markast af því, hvort aðstoðin á að vera í þeirri mynd, að lagt sé fram fé til alþjóðlegra stofnana, sem slíka aðstoð veita, eða hvort Íslendingar eigi sjálfir að taka virkan þátt í framkvæmd hennar. Í fyrra tilvikinu yrði ekki þörf fyrir slíka stofnun og tæplega þörf fyrir það, að nokkur löggjöf yrði sett í þessu efni. Í síðara tilvikinu er hins vegar óhjákvæmilegt, að til sé opinber aðili, sem hafi stjórn þessara mála með höndum.“

Nefndin, sem þetta lagafrv. hefur samið, er greinilega þeirrar skoðunar, að síðari leiðina beri að fara, þ.e. að Íslendingar taki sjálfir virkan þátt í framkvæmd aðstoðarinnar; og þess vegna er þá frv. fram komið. Það er líka augljóst mál, að það er þessi síðari leið, sem valin hefur verið, þegar saga frv. eða málsins er athuguð. Það var á þingi 1969, sem einnig var flutt frv. til laga um sjóð til aðstoðar við þróunarríkin. Þetta frv. var byggt á áliti nefndar, sem að þessum málum starfaði á vegum utanrrn., en nefndin óskaði, að þetta frv. yrði ekki tekið fyrir, fyrr en gefizt hefði kostur á að skila endanlegu áliti, og urðu flm. við þeirri ósk, eins og hér stendur. Og svo kemur það, sem skiptir mestu máli, finnst mér, þar sem hinar nýju till. nefndarinnar byggja á öðrum grundvelli en hinar eldri, að rétt sé, að till. komi nú fram fyrir Alþ. í þeirri mynd, sem það frv., sem hér um ræðir, gerir ráð fyrir. Það er þess vegna ekki um það að villast þrátt fyrir það, að mörg ákvæði frv. eru hin sömu, að hér er stefnubreyting, eða ég skil það svo. Og stefnubreytingin er í því fólgin, að Íslendingar ætla sjálfir að koma upp þeirri stofnun, sem á ein og án samráðs við alþjóðastofnanir að ráða fram úr því, hvert aðstoð Íslands eigi að beinast. Ef þetta er ekki tilgangurinn, þá skil ég ekki, hvert er nýmælið í þessu frv.

Það segir í aths. með 2. gr., að hún sé sniðin eftir samsvarandi stofnunum í Danmörku, Noregi og Svíþjóð, einkum þeirri dönsku, eins og hér stendur. Það er auðvitað venja okkar, og ég vil segja góður siður, að við höfum hliðsjón af löggjöf þessara landa, þegar bryddað er upp á nýmælum. Ég amast ekki við því, og í þessum löndum eru slíkar stofnanir til. En ég vil halda því fram, að hér gegni nokkuð öðru máli en þar, og hef ég þá í huga þá sérfræðingaaðstoð, sem ég vék að hér í upphafi máls míns — nefnilega það, að takmark Sameinuðu þjóðanna er, eins og hv. 10. þm. Reykv. gerði grein fyrir, að þessi aðstoð komi til með að nema 1% þjóðartekna. Ég held — ég verð þá leiðréttur, ef það er ekki — að 1% af þjóðartekjum í Danmörku sé 1500 millj. danskra króna. Þetta hef ég lesið. Ég get auðvitað ekki ábyrgzt heimildina, en ég hef þetta sem sé fyrir satt. 1500 millj. danskra króna, telst mér til, að séu 18000 millj. ísl. króna. Ég geri ráð fyrir því, að þjóðartekjurnar í Noregi séu svipaðar og þær eru í Danmörku — kannske eitthvað aðeins lægri, en í Svíþjóð miklu hærri. Og mér finnst það leiða af eðli málsins, að það sé mjög svo eðlilegt, að af slíkri fjárhæð sé tekinn nokkur slurkur til þess að koma á fót sams konar stofnunum og hér er verið að gera ráð fyrir, en takmark okkar, fjarlægt takmark, eftir því sem hér kom fram í framsöguræðu áðan, er 400 millj. króna. Og ég bara spyr — ég er ekki að hafa á móti þessu máli, en sú spurning er að vefjast fyrir mér: Er það ekki of í lagt hjá okkur að ætla okkur að koma upp sjálfstæðu kerfi til þess að úthluta þeim 400 millj. kr., sem við kunnum að láta í þetta með tíð og tíma? Við erum aðilar að Sameinuðu þjóðunum, og við störfum á þeirra vettvangi. Hvers vegna eigum við ekki að nota þær leiðir, sem þar koma til greina?

Hér starfar Rauði krossinn, deild úr Alþjóða rauða krossinum. Er ekki hægt að notast við hann? Hann hefur 10 ára reynslu í þróunarhjálp. Þar eru 4 þús. áhugamannameðlimir og gætu sjálfsagt verið miklu fleiri, ef verulegur skriður kæmist t.d. á slíka aðstoð, sem hér er um að tefla. Rauði kross Íslands hefur lagt fjármagn til rekstrar glerverksmiðju fyrir flóttamenn frá Tíbet. Um þá málsmeðferð hefur hann haft samráð við Hollendinga og gefist vel. Hann hefur selt hér flóttamannaplötu, sem selst vel, og hefur gefið í tekjum um Í millj. kr. á þessu ári. Því fjármagni hefur hann varið til sjúkraþjónustu við flóttamenn í Senegal í samráði við flóttamannaaðstoð hjá öðrum þjóðum. Í fyrsta skipti í sögu Rauða krossins er nú ráðgerð söfnun alls staðar á Norðurlöndum til að leysa flóttamannavandamálið í Súdan. Þetta er gert án þess, að nokkur ríkisstofnun hér á Íslandi starfi að þessu máli. Þetta eru smámál, ég viðurkenni það, í þessu sambandi, en það sýnir engu að síður, hvað hægt er að gera með þeim stofnunum og þeim félögum, sem eru til. Utanrrn. hefur oftlega á liðnum árum veitt hjálp í ýmsum tilvikum. Það er bæði Pakistan og Rúmenía, sem hafa notið þaðan aðstoðar vegna náttúruhamfara. Nígería og fleiri Afríkuríki hafa fengið viðvarandi aðstoð héðan, svo að ég nefni eitthvað, og þessi hjálp hefur öll verið send í gegnum þær leiðir, sem eru fyrir hendi. Það er hægt að auka það alveg ótakmarkað og nota sér þá sérfræðiaðstoð, sem fyrir hendi er bjá þeim stofnunum og félagssamtökum, sem til eru í nálægum löndum til þess að sjá um þetta atriði. Atiðvitað er ég hlynntur því, að t.d. einn maður í utanrrn. hafi umsjón þessara mála með höndum og samræmingu. Enda er það, að því er virðist, sú hugmynd, sem fyrra frv. byggir á. Þar er talað um, að stjórn sjóðsins sé heimilt að ráða starfsmann, er hefur sérþekkingu á málefnum þróunarlanda og alþjóðlegum stofnunum, er starfa að málefnum þeirra. Það er eðlilegt, og ég er sízt að mæla gegn því, að hið opinbera fylgist með, en ég bara óttast það, að ef við eigum að velja þá leið sem hér er kölluð „virkur þáttur“, í aðstoðinni við þróunarlöndin, þá verði það bæði kostnaðarsamt og hreinlega of erfitt. Ég dreg það í efa, að við eigum nægilega kunnuga menn, sem geti lagt á ráðin um þessi vandasömu mál. Það má, eins og ég sagði áðan, vafalaust koma þeim upp. Ég bara kem ekki almennilega auga á nauðsyn þess.

Svo finnst mér það vera nokkurt atriði í þessu sambandi, sem ég a.m.k. fyrir mitt leyti hef fyrir satt, að þróunarlöndin sjálf vilji miklu fremur þiggja aðstoð gegnum alþjóðastofnanir en frá einstökum, tilteknum ríkjum. Þau kæra sig a.m.k. ekki um það mörg hver, að hjálp stóru landanna leiði til of náinna samskipta. Þau óttast það, að slíkt geti leitt til óæskilegrar íhlutunar um innanríkismál. Ég held, að þessu megi mjög auðveldlega finna stað og það með nýlegum dæmum. Það grunar auðvitað enginn Íslendinga um slíkt. Við erum svo blessunarlega litlir, að það óttast okkur ekki nokkur maður í veröldinni. En spurningin er bara: Eigum við að leggja okkar skerf til þess að taka þátt í þessari stefnu, að það séu ríkin, hin einstöku ríki, sem aðstoðina veiti, en ekki alþjóðastofnanirnar, eða eigum við að freista þess að hamla gegn því, að sú leið verði farin og fara heldur hina leiðina, að þessari aðstoð verði safnað saman í nokkrar alþjóðlegar stofnanir og veitt þaðan eftir beztu manna yfirsýn og með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem þar liggja fyrir? Það grunar okkur enginn um það, að við ætlum okkur að ná yfirráðum í nokkru ríki með þessari aðstoð. En ég tek þó eftir því og vek athygli á því, að í þessu nýja frv. er það sérstaklega nýmæli að kanna eigi möguleika á auknum viðskiptatengslum við þróunarlöndin eftir atvikum í samvinnu við aðra opinbera aðila og einkaaðila, er áhuga kynnu að hafa á slíku, þannig að það svona örlar á því, að það væri nú ekkert á móti því, að við hefðum eitthvað upp í þetta á móti. Ég hef svo sem ekkert við það að athuga, þó að þetta ákvæði sé þarna. Ég bendi aðeins á, að það kunni að vera í stærri mæli sú hugsun á bak við aðstoð annarra, sem meira mega sín og meira láta, og það er tilfellið, að viðtakendurnir eru í mörgum tilfellum hræddir einmitt við það.

Ég hefði viljað fá að athuga þetta mál betur, en það var ekki tími til þess í hv. allshn. Það má kannske segja, að tilgangslítið hefði verið að senda það til umsagnar ýmissa aðila, sem þessum málum eru kunnugastir í þjóðfélaginu, þar sem þeir hafa nýverið komið saman á ráðstefnu og tjáð sig um málið eftir því, sem hv. 10. þm. Reykv. segir. Ég var nú ekki á þeirri ráðstefnu, en ég tek hans orð vitanlega trúanleg um það. En hv. 4. þm. Sunnl., sem er í allshn. eins og ég, hreyfði því, að þetta frv. yrði sent öðrum aðilum til umsagnar, en til þess vannst sem sé ekki tími, og ég er ekkert að deila út af því. Mér dettur ekki í hug, að ég hafi nokkur tök á því — ég hef kannske ekki einu sinni vilja til þess og a.m.k. ekki nokkur tök á því að hamla gegn frv., sem flutt er af mönnum úr fjórum flokkum og einum utan flokka að auki. Það hlýtur að eiga hér greiðan gang í gegnum d., og þessi fyrirvari minn hnígur heldur ekki að því að tefja framgang málsins.

Ég vildi láta það koma hér fram, að mér finnst, að það komi, svo að ekki sé meira sagt, fyllilega til greina aðrar leiðir í þessu máli en þetta frv. leggur til. Það eru allir sammála um það, að við eigum að taka þátt í alþjóðahjálparstarfsemi á þessum vettvangi. Ég er algerlega sammála því, sem hv. 10. þm. Reykv. sagði, að við hefðum vel efni á því að leggja eitthvað af mörkum í þessu skyni, þó að margt sé ógert hjá okkur og við séum hér daglega nánast að finna að því, að vandamál okkar sjálfra séu óleyst eða illa leyst, en ég vil gjarnan taka þátt í því með þessum ágætu flm. að hugsa svolítið út fyrir þennan þrönga sjóndeildarhring okkar, og má enginn skilja orð mín svo, að ég sé þessari stefnu mótfallinn. Hv. 10. þm. Reykv. sagði, að það væri aðeins stefnumark eða viðmiðun, að aðstoðin gæti farið í 1% af þjóðartekjunum, og enginn flm. væri því bundinn og minna gæti gert gagn. Þessu er ég algerlega sammála, en bendi þó á, að því síðar og að því minna leyti, sem stefnan kemur til framkvæmda, því minni ástæðu sé ég til þess að setja á fót stofnun, eins og hér er ráðgert, því að hér er ráðgerð stofnun. Ég skal ekki segja, hve stór hún á að vera, en greinilega meira en einn maður, því að því er breytt frá því, sem lagt var til í frv., þ.e. það segir sína sögu, svo að ekki verður um villzt, að hér verður um þó nokkra starfsemi að ræða.

Ég skal svo ekki eyða tíma hv. d. í að ræða þessi mál frekar, en vildi láta þennan fyrirvara koma fram, áður en til atkv. er gengið.