30.11.1970
Efri deild: 23. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1792 í B-deild Alþingistíðinda. (1899)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hef hér á þskj. 196 flutt eina litla brtt. við þetta frv., sem ég raunar, boðaði við 2. umr. málsins, en brtt. er í því fólgin, að gildistöku laganna verði frestað frá 1. jan. n.k. til 1. apríl. Eins og ég tók fram við 2. umr. málsins, er vafi á því, að takast muni að afgreiða þetta mál fyrir jól úr þinginu, þó að slíkt væri æskilegt, en jafnvel þó að svo yrði, yrði varla hægt að koma þessari stofnun þegar í stað á fót, svo að undir öllum kringumstæðum er engu spillt með því að mínu áliti, þó að gildistökunni sé þannig frestað um þrjá mánuði, ef það gæti orðið til þess að spara, að málið þyrfti síðar að ganga milli deilda. Ég ráðfærði mig um þessa brtt. við þá meðflm. mína, sem ég náði til eftir 2. umr., og tjáðu þeir sig henni samþykka.