29.10.1970
Efri deild: 7. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 34 í B-deild Alþingistíðinda. (19)

74. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Ólafur Jóhannesson:

Herra forseti. Þar sem þessi málaleitun um fresti á samningum, sem hér liggur fyrir í þessu frv., byggist á samkomulagi samningsaðilanna eða fyrirsvarsaðila þeirra, mun ég gjalda þessu frv. jáatkv. og mun fyrir mitt leyti stuðla að því, að þetta frv. komist í gegnum þingið í tæka tíð. Þessi málaleitan er vafalaust á því byggð og kemur það raunar fram í grg. með frv., að samningsaðilar gera sér von um, að kjarasamningar takist án þess að vísa þurfi þessu máli til kjaradóms. Ég tel það mjög mikilsvert og mun þess vegna, eins og ég sagði, greiða fyrir því, að þetta mál fái skjóta afgreiðslu hér í þingi.

En um leið vil ég lýsa þeirri skoðun minni, að ég tel mjög erfitt að vinna að afgreiðslu fjárlaga, á meðan ekki liggur fyrir vitneskja um þann útgjaldalið, sem hér er um að tefla. Og ég tel raunar óforsvaranlegt að afgreiða fjárlög, án þess að fyrir liggi vitneskja um það, hver verði launakjör ríkisstarfsmanna á næsta ári og hverju sá útgjaldaliður fjárlaga muni nema, en allir vita, að hér er um mjög verulegan lið í fjárlögum að ræða. Ég veit að sjálfsögðu ekkert, hvað er verið að semja um í þessum samningum. Ég geri ráð fyrir, að hæstv. fjmrh. hafi um það gleggri vitneskju. Ég býst hins vegar við, að þessar samningaviðræður séu trúnaðarmál og hann eigi ekki auðvelt með að skýra frá því hér, hvað þar hefur gerzt eða hvað þar er að gerast. Hins vegar er það svo rétt, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að það liggur í loftinu, að búast megi við nokkrum og e. t. v. verulegum hækkunum á launum þessara ríkisstarfsmanna. Og þess vegna er það náttúrlega mjög óheppilegt, að það liggi ekki fyrir, áður en fjárlög eru afgreidd eða í sambandi við fjárlagaafgreiðslu, hverju þessi hækkun muni nema.

Auðvitað er það líka svo, að hér er í raun og veru ekki aðeins um að ræða ríkisstarfsmenn, af því að á eftir munu fara og við sama borð sitja starfsmenn sveitarfélaga. Út frá því hygg ég, að sé alveg gengið, þannig að hér getur vissulega orðið um verulegar hækkanir að tefla, þó að ég hafi ekki neina möguleika til þess hér að fullyrða neitt um það.

Það er mikið verið að tala um verðstöðvun um þessar mundir eða einhverjar slíkar ráðstafanir til lausnar eða einhverrar lækningar á verðbólguvandanum. Ég fyrir mitt leyti held, að það hefði verið nauðsynlegt, að það lægi fyrir, áður en fundinn væri sá grundvöllur, sem verður að vera fyrir hendi, ef einhvers konar verðstöðvun á að vera raunhæf, hvernig fer um þennan lið. Ég held, að það sé óhjákvæmilegt, eins og reyndar hv. síðasti ræðumaður vék að, að það spili á ýmsan hátt inn í þau mál. Og þess vegna er það, þó að ég hafi lýst fylgi við þetta mál, þá verð ég að lýsa nokkurri undrun minni á því, hve seint þessi mál eru á ferðinni. Tímamarkanir í lögum um kjarasamninga ríkisstarfsmanna eru þó vissulega upphaflega settar í því skyni einmitt að tryggja það, að vitneskja um þessi atriði liggi fyrir svo tímanlega, að hægt sé að taka tillit til þeirra við samningu fjárlaga. En hér hefur þetta dregizt allmikið og mun lengur heldur en lögin gera ráð fyrir, og hefur þó vissulega verið mjög rúmur tími til þess að fjalla um þessi mál, þar sem frestur var framlengdur einmitt eins og hér hefur verið gerð grein fyrir. En það má vel vera, að það liggi eðlilegar og skiljanlegar ástæður til þess, að þetta hefur nú dregizt eitthvað á langinn í þetta sinn, eins og hæstv. fjmrh. reyndar vék að, þar eð verið sé að taka upp að einhverju leyti einhverjar nýjar starfsaðferðir í sambandi við þessi mál.

En ég vil að lokum leggja áherzlu á það, að ég tel það mjög mikilvægt, að þessi mál geti orðíð leyst með samkomulagi á milli aðila, og þess vegna vil ég greiða fyrir því að veita þennan frest, enda þótt ég hafi talið um leið rétt að benda á þá agnúa, sem mér sýnast vera á þessu máli, og vil undirstrika það, að þetta má ekki að mínu áliti verða að neinu fordæmi í þessum efnum. Það á að binda sig við lagaákvæðin í þessu og sjá til þess, að ákvörðun um þessi efni geti legið fyrir nægilega tímanlega.