17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1799 í B-deild Alþingistíðinda. (1914)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Jónas Árnason:

Herra forseti. Ég held, að ég hafi tekið rétt eftir, að hv. 7. þm. Reykv. hafi í ræðu sinni hér áðan gefið fyrirheit um það, að hann væri því fylgjandi, að leiðin að þeim áfanga, sem till. okkar 6. þm. Reykv. stefnir að, að Íslendingar leggi fram 1% af þjóðartekjum sínum í aðstoð við þróunarlöndin eftir 10 ár, hefjist strax við afgreiðslu fjárl. næsta haust og hann mundi því fylgjandi að samþykkja þann skerf þá, 0.1%, sem þetta mundi nema þá á fjárl. Ég held, að hann hafi beint því til mín, ef ég skyldi flytja brtt. um þetta við fjárl., nema ákvæði um þetta væri þá komið inn í frv. áður. Ég er feginn að heyra þetta. En ég verð að segja, að það er ekki alveg víst, að við verðum þá hérna báðir, því miður, til þess að standa að þessari till. Þá vænti ég þess, að hv. þm. Pétur Sigurðsson sjái um að koma þessu máli fram.

Ég ætla ekki að bæta miklu við það, sem ég sagði hér áðan, aðeins minna á það, að sá aðili, sem helzt hefur knúið á um afgreiðslu þessa máls, þ.e. fulltrúar Æskulýðssambands Íslands, sem áttu viðræður við okkur flm. í fyrra eða hittifyrra, lögðu áherzlu á það, að þetta væri mjög þýðingarmikið atriði, að inn í frv. kæmi ákvæði um þetta 1%. Ýmsir einstaklingar á vegum Æskulýðssambandsins hafa einmitt sýnt það, að þeir láta sig miklu varða þessi mál, málefni þróunarlandanna. Þeir hafa stofnað til samskota og ýmiss konar hjálpar á eigin spýtur. Þessir aðilar eiga það sannarlega skilið, að tekið sé tillit til þeirra skoðana í málinu.

Ég held, að ég hafi þetta svo ekki meira að sinni, en ég tek undir það, sem hv. 6. þm. Reykv. sagði hér áðan, að mér virðist það alls ekki sæmandi fyrir hv. Alþ. að taka ekki inn í frv. nú þegar ákvæði, sem felst í brtt. okkar, þess efnis, að stefnt verði að því, að þessu marki verði náð, að 1% af þjóðartekjum Íslendinga verði varið til aðstoðar við þessar þjökuðu þjóðir.