17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1801 í B-deild Alþingistíðinda. (1916)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Ég fagna þessu frv., sem markar spor í rétta átt, að Ísland taki vaxandi þátt í samstarfi hinna Sameinuðu þjóða og málefnum þróunarlandanna. Þó að hér sé kannske ekki lagt mikið af mörkum, þá er þetta þó skref í áttina að réttu marki. En um þá brtt., sem hér liggur fyrir á þskj. 345, vil ég aðeins segja það, að ég fagna hinum vaxandi áhuga hv. flm. á málefnum Sameinuðu þjóðanna og aðstoð við þróunarlöndin. Öðruvísi mér áður brá. Ég fagna líka spá hv. 6. þm. Reykv. um vaxandi hagvöxt á Íslandi á komandi árum.

Hitt er svo allt annað mál, hvort við eigum að fara að lögbinda það, að ákveðin prósent af þjóðartekjum okkar skuli renna í þetta og hitt. Við eigum í mörg horn að líta. Við gætum nefnt fjöldamörg atriði, fjöldamörg áhugamál og velferðarmál, sem við vildum óska, að til rynni 1% af þjóðartekjum. Við þurfum að græða upp eigið land, og við þurfum að stefna að fjöldamörgum öðrum velferðar- og hagsmunamálum í þágu lands og þjóðar. Þess vegna tel ég ekki rétt að binda okkur þennan bagga með því að samþykkja þessa brtt. Í grg. með frv. er tekið fram, að stefnt skuli að þessu marki. Hitt er svo annað mál, hvort það er sett inn í lögin og gert ófrávíkjanlegt eða látið vera frá ári til árs háð fjárhagsafkomu þjóðarbúsins og ríkissjóðs eins og segir í grg. Ég tel því nægjanlegt að Íýsa þessu yfir í grg. og miða að þessu marki, um leið og þetta skref er stigið, en ekki binda það á neinn hátt í löggjöf hvorki sem ákveðna fjárhæð né prósentutölu af þjóðartekjum.