17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1804 í B-deild Alþingistíðinda. (1919)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Jón Skaftason:

Herra forseti. Ég bar fram eina ákveðna fsp. áreitnislausa til hv. 7. þm. Reykv. Ég spurði hann að því, hvort hann mundi vilja standa að brtt. við frv., þar sem Alþ. lýsti því yfir, að það vildi að því keppa að styðja þróunarlöndin með 1% framlagi af þjóðartekjum, svo fljótt sem aðstæður okkar leyfðu. Það verður ábyggilega tekið eftir því svari, sem hv. þm. gaf. Hann átti auðsjáanlega dálítið erfitt með að forma það svar. Hann fór í kringum málefnið, eins og köttur í kringum heitan graut, og fann það sér helzt til varnar í þessu máli að skjóta því á mig, að mér bæri að tryggja stuðning flokksbræðra minna í þeirri n., sem mál þetta hefði farið í, og spyrja þá fyrst, áður en ég spyrði hann.

Efnislega var þetta svarið. Út af þessu vil ég segja, að þó að ég virði mína ágætu flokksbræður á allan hátt mikils, þá mundi ég ekki — og það vita þeir — telja mig skuldbundinn til að bera allar till., sem ég vildi styðja eða flytja, undir þá fyrir fram, og ég get heldur ekki ætlazt til þess, að þeir styðji allar till., sem ég flyt. Það er mér alveg fyllilega ljóst, og af því tilefni og vegna þess, að ræða hv. 7. þm. Reykv. gaf beint tilefni til þess, að ég bæri fram þessa fsp., þá var það gert. En ég endurtek það, að það verður tekið eftir því, að þessi hv. þm. vill ekki á þessari stundu a.m.k. gefa yfirlýsingu um, að hann vilji stefna að þessu takmarki eins hratt og aðstæður okkar Íslendinga frekast leyfa. Þó vil ég minna á, að það eru ekki nema þrjú ár, síðan við Íslendingar vorum taldir þriðja tekjuhæsta þjóðin á mann af öllum þeim þjóðum, sem eru í Efnahagsog framfarastofnun Evrópu, og af því var mikið gumað af stuðningsmönnum hæstv. ríkisstj. í þann tíma og það talið bera öruggt vitni um góða stjórnarstefnu.