29.10.1970
Efri deild: 9. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 320 í B-deild Alþingistíðinda. (192)

3. mál, Landsvirkjun

Frsm. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt til staðfestingar brbl., sem út voru gefin á s. l. sumri, en samkv. þeim var hæstv. ríkisstj. heimilað að ábyrgjast með sjálfskuldarábyrgð lán, sem Landsvirkjun tæki til Þórisvatnsmiðlunar og undirbúnings virkjana í Tungnaá umfram áður veittar heimildir.

Ég hef engu við að bæta þær upplýsingar, sem fram komu í framsöguræðu hæstv. fjmrh. fyrir þessu frv. Fjhn., sem málinu var vísað til, hefur athugað málið, og eins og nál. á þskj. 58 ber með sér, lögðu allir nm., sem viðstaddir voru á fundinum, þar sem málið var afgreitt, til, að það yrði samþykkt óbreytt.