17.03.1971
Neðri deild: 63. fundur, 91. löggjafarþing.
Sjá dálk 1805 í B-deild Alþingistíðinda. (1921)

69. mál, aðstoð Íslands við þróunarlöndin

Friðjón Þórðarson:

Herra forseti. Mér þykir það ákaflega leitt að hafa reitt hv. 6. þm. Reykv. svo til reiði með þessum fáu orðum, sem ég sagði áðan, eins og ræða hans nú síðast bar ljósan vott um, þó að ég minnti hann á, að það virtist vera vaxandi áhugi hans og hans flokksbræðra á málefnum Sameinuðu þjóðanna. Ég man það, að þegar ég var í sendinefnd Íslendinga á allsherjarþingi haustið 1966, birtist mynd af okkur nefndarmönnum á einni síðu Þjóðviljans og var okkur helguð þar heil blaðsíða, þar sem við vorum kallaðir hvítu varðliðarnir á þingi Sameinuðu þjóðanna og farið um okkur ýmsum „viðurkenningarorðum.“ Hins vegar hefur þessi afstaða gerbreytzt, síðan hv. 6. þm. Reykv. fór að senda eigin flokksmenn á allsherjar þingið. Síðan þm. Alþb. fóru að taka þátt í störfum þessa mikla þings — (MK: Fóru að taka þátt?) — hvernig sem hann vill nú orða það, þá hefur afstaða þeirra breytzt mikið. Þá hefur yfirleitt ýmsum málefnum á þeim vettvangi verið sungið lof og dýrð á síðum Þjóðviljans, og ber að fagna því. En það er svo kannske það hlægilegasta, að ég held, að við séum ekki svo mjög ósammála í þessu efni. Það eina, sem hv. flm. brtt. vilja, er, að þessi prósentutala, sem um er að ræða, sé ákveðin í lögunum, en ég tel nægja, að um hana sé rætt og hún sé sett fram skýrt og ákveðið í grg., sem stefnumark. Við það tel ég miklu eðlilegra að miða en hitt, að hún sé tekin upp í frv. sjálft.